Í áskrift að gullverðlaunum með fót frá Össuri

Markus Rehm er með stoðtæki frá Össuri.
Markus Rehm er með stoðtæki frá Össuri. AFP

Þjóðverjinn Markus Rehm keppir í dag á sínum fjórðu Paralympics-leikum þegar hann tekur þátt í langstökki í T64-flokki aflimaðra.

Rehm notast við stoðtæki frá Össuri og er margverðlaunaður afreksíþróttamaður sem hefur til að mynda unnið til gullverðlauna í sínum flokki í langstökki á öllum þremur Paralympics-leikunum sem hann hefur tekið þátt í til þessa og er með besta árangurinn fyrir úrslitin í dag.

Alls hefur Rehm unnið til 21 gullverðlauna á Paralympics, HM og EM á ferlinum en hann er 36 ára gamall.

Heimsmet Rehm frá því á síðasta ári er 8,72 metrar og Paralympics-met hans frá því á leikunum í Ríó de Janeiro árið 2016 er 8,21 metri.

Rehm var einn af þremur kyndilberum ólympíueldsins á setningarathöfninni fyrir einni viku síðan.

„Ég bar kyndilinn á leiðinni en ég tendraði ekki eldinn þegar á hólminn var komið. Ég fékk tækifæri til þess að bera kyndilinn út af Place de la Concorde yfir í garðinn. Þetta var ótrúlegt.

Það eru ekki margir íþróttamenn og hvað þá erlendir sem fá tækifæri til þess að gera þetta. Ég var einn af þremur íþróttamönnum sem fengu að gera þetta. Ef við hugsum út í það hversu marga góða íþróttamenn við eigum í heiminum er þetta gífurlega mikill heiður,“ sagði Rehm í samtali við mbl.is.

Heimsmeistari í boðhlaupi

Á leikunum í ár keppir hann einungis í langstökki en í Ríó vann hann einnig til gullverðlauna með boðhlaupssveit Þýskalands í T42 – 47 flokkum aflimaðra.

„Ég er langstökkvari. Ég var í spretthlaupi þegar ég var yngri en núna er ég farinn að eldast og þetta verður ekkert auðveldara! Ég einbeiti mér að langstökkinu því það er það sem ég er góður í. Áður keppti ég í 4x100 metra boðhlaupi en það er ekki lengur hluti af dagskránni á Paralympics.

Við keppum enn þá í þessu, á síðasta ári slógum við heimsmetið og tókum það af Bandaríkjunum. Því miður verður 4x100 metra boðhlaup ekki á dagskrá í París í ár og því tek ég einungis þátt í langstökkinu.

Ég hefði verið hluti af því liði ef sú grein væri í boði. Utan Paralympics-leikanna eru mót þar sem við tökum þátt í boðhlaupi. Við búum yfir afskaplega sterku liði um þessar mundir og því tek ég líka þátt í því. En hér í París verður það bara langstökk,“ útskýrði Rehm.

Rehm á æfingu.
Rehm á æfingu. Ljósmynd/Team Össur

Missti fótinn 14 ára gamall

Fjarlægja þurfti fót hans fyrir neðan hné eftir að Rehm lenti í alvarlegu bátaslysi.

„Ég lenti í slysi þegar ég var 14 ára gamall. Ég var á wakeboard-bretti aftan við vélbát, féll í vatnið og annar bátur sá mig ekki með þeim afleiðingum að fóturinn á mér fór í mótorinn og ég slasaðist ansi illa. Ég endaði á sjúkrahúsi og það þurfti að taka af mér fótinn.

Fyrst um sinn var lausnin frekar einföld, ég fékk gamaldags gervifót frá sjúkrahúsinu. Ég man þegar ég fékk fyrsta gervifótinn minn að ég var hæstánægður með það en svo áttaði ég mig á því að þetta væri ekki eins og ég bjóst við.

Þetta var virkilega slæmt. Ég gat ekki staðið, ég gat ekki gengið. Ég fór heim af sjúkrahúsinu og átti í vandræðum með gervifótinn og fór til mannsins sem hafði umsjón með gervifótnum.

Hann tjáði mér að þetta væri vitlaus tegund af gervifæti fyrir mig, að ég þyrfti á einhverju öðruvísi að halda. Þannig endaði ég á því að fá mína fyrstu vöru frá Össuri, hann lét mig fá gervifót frá Össuri. Þá áttaði ég mig á því að ég gæti gert svo miklu meira,“ sagði hann.

Færði mér hvatninguna til baka

„Það færði mér hvatninguna til baka bara vegna þess hversu miklu betra þetta er. Allar götur síðan hef ég satt að segja notast við vörur frá Össuri. Ég tel mig hafa verið mjög tryggan viðskiptavin!

Svo þegar árin liðu og ég reyndi fyrir mér í íþróttum fékk ég að prófa fyrsta hlaupafótinn frá Össuri. Ég hef haldið mig við þau því þau virka best fyrir mig. Í dag tek ég meira að segja smá þátt í þróunarferlinu á nýjum vörum.

Ég myndi segja að þetta hafi verið afar góð vegferð frá því að ég fékk minn fyrsta gervifót og yfir í það að vera núna hluti af þróunarteyminu. Það er skemmtilegt og þetta hefur verið indælis ferðalag,“ sagði Rehm að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert