Innblástur fyrir fólk sem hefur lent í áföllum

Sveinn Sölvason forstjóri Össurar.
Sveinn Sölvason forstjóri Össurar.

„Ég var í Ríó 2016 og svo var Covid í Tókýó 2021 og þar voru engir áhorfendur og ekkert hægt að gera. Núna er ég hér þannig að þetta er í annað skiptið sem ég mæti,“ sagði Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar, sem er staddur á Paralympics-leikunum í París.

Össur hefur orðið miklum fjölda íþróttamanna úti um stoðtæki um langt árabil og er engin breyting þar á í París.

„Þetta er rosalega mikilvægur viðburður fyrir okkur sem fyrirtæki og fyrir iðnaðinn en síðast en ekki síst fyrir þá einstaklinga sem þurfa á okkar vörum og þjónustu að halda.

Breytingin sem hefur orðið á þessum viðburði er að hann fær miklu meiri athygli en áður, bæði með tilkomu samfélagsmiðla og einfaldlega meiri almennum áhuga.

Það hefur svolítið breytt viðhorfi fólks til þess hvað er í rauninni hægt að gera þó þú eigir við svona varanlega hreyfanleikaáskorun að stríða skulum við segja, með þeim lausnum sem eru til.

Þetta er gríðarlegur innblástur fyrir fjölda fólks sem er þarna úti, hefur kannski nýlega lent í einhverjum áföllum og þarf að móta sér nýja framtíð. Þá sér það hvað er hægt. Það er eiginlega það sem skiptir langmestu máli,“ sagði Sveinn í samtali við mbl.is.

Hluti keppendanna sem myndar lið Össurar.
Hluti keppendanna sem myndar lið Össurar. Ljósmynd/Team Össur

Stórt hlutfall af þeim sem keppa í París

Í liði Össurar sem fyrirtækið kynnti sérstaklega fyrir Paralympics-leikana eru alls 18 keppendur. Mun fleiri keppendur styðjast þó við stoðtæki frá Össuri á leikunum.

„Við erum með 18 keppendur í Team Össur og svo fullt af fólki sem er að nota vörur frá okkur en er ekki endilega í þeim hópi. Þetta er fólk sem við vinnum mjög náið með í vöruþróun og styðjum mjög vel við. Við erum gríðarlega stolt af þessum hópi. Þetta skiptir okkur rosalega miklu máli sem fyrirtæki.

Þetta gefur starfsfólki okkar góða innsýn í hvernig við höfum áhrif á líf fólks og minnir það á tilganginn. Þetta hefur líka gríðarlega mikil og jákvæðr áhrif á iðnaðinn í heild sinni. Þetta skiptir okkur gríðarlegu máli,“ sagði hann.

Beatriz Hatz notast við stoðtæki frá Össuri.
Beatriz Hatz notast við stoðtæki frá Össuri. Ljósmynd/Team Össur

Spurður hvort um stærsta hópinn hingað til væri að ræða sagði Sveinn:

„Þetta hefur verið á svipuðu róli síðustu þrjú til átta ár hvað Team Össur varðar. Ég treysti mér kannski ekki alveg til þess að segja nákvæma tölu en við erum með mjög stórt hlutfall af þeim sem keppa hér.

Það er alltaf hægt að sjá það á gulu röndinni á hliðinni, það einkennir okkar vöru. Ég hvet þá sem ætla að horfa að fylgjast með gulu röndinni, þar er íslenskt hugvit á ferðinni!

Langflestir sem nota fæturna frá okkur

Össur er næststærsta fyrirtæki heims í sínum iðnaði; hönnun og framleiðslu stoðtækja, spelkna og stuðningsvara.

„Ef við förum nokkra áratugi til baka í tímann þá hefur stórt þýskt fyrirtæki verið alltumlykjandi í þessum iðnaði. Það er ekki fyrr en Össur kemur til sögunnar upp úr síðustu aldamótum að við förum að veita þeim mikla og góða samkeppni og erum orðin næststærsta fyrirtækið í þessum iðnaði í dag.

Við höfum alla tíð trúað því að fjárfesting í nýsköpun móti framtíðina, að það sé það sem keyrir áfram framfarir. Við erum með rosalega mikla markaðshlutdeild í þessum íþróttafótum. Við sáum það undanfarna viku að það eru langflestir sem eru að nota okkar vörur.

Það er fólkið sem er að hlaupa og stökkva. Við höfum alla tíð lagt áherslu á þetta sem vöru þótt þær séu kannski ekki þær vörur sem við seljum mest af,“ útskýrði hann.

Femita Ayanbeku er ein af 18 keppendum sem er formlega …
Femita Ayanbeku er ein af 18 keppendum sem er formlega hluti af liði Össurar. Ljósmynd/Team Össur

Þarf að bæta aðgang að góðum lausnum

„Þetta mótar svolítið hugmyndina inn í aðrar mikilvægar vörur og er líka ofboðslega mikilvægt því við erum í þannig umhverfi að við þurfum alltaf að sannfæra heilbrigðiskerfið um að okkar lausnir séu góðar og mikilvægar fyrir endanotendurna.

Það þarf að vinna miklu meira í að bæta aðgang að góðum lausnum. Ef fólk fær góð stoðtæki er það öllu jafna hreyfanlegra og lendir í minna af öðrum heilbrigðistengdum vandamálum.

Okkar verkefni snýst rosalega mikið um að sannfæra heilbrigðisyfirvöld um að þetta sé góð fjárfesting, að fólk fái góðar lausnir. Þetta er svona lykilstef í því hvernig við skilgreinum okkur sem fyrirtæki,“ sagði Sveinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka