Dauðsfallið hafði svo mikil áhrif á þá

Vésteinn Hafsteinsson á Stade de France í París.
Vésteinn Hafsteinsson á Stade de France í París. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var að fara á mína elleftu Ólympíuleika og er á mínum fyrstu Paralympics. Það sem þetta skilur eftir hérna er þessi gífurlegi áhorfendafjöldi á Paralympics, ég hélt að þetta væri ekki svona stórt,“ segir Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, er Morgunblaðið ræddi við hann í ólympíuþorpinu í París.

Þar var Vésteinn líkt og hann bendir sjálfur á staddur á sínum fyrstu Paralympics-leikum eftir að hafa áður farið á fjölda Ólympíuleika sem keppandi og afreksþjálfari.

„Ég er stórhrifinn af því hvað það hafa verið margir áhorfendur. Síðan er eitt sem ég vil að þeir sem eru ekki fatlaðir og voru að keppa á Ólympíuleikunum taki sér til fyrirmyndar héðan, ég geri það sem þjálfari og afreksstjóri, það er þessi gleði, hamingja og kærleikur milli fólks. Hvernig að þessu öllu er staðið,“ segir Vésteinn um einstaklega ánægjulega upplifun sína af Paralympics-leikunum í París, sem lauk síðastliðinn sunnudag.

Þýðir ekkert að væla

Vésteinn nefnir að hann hafi þjálfað Victor Svanesohn, sem glímdi við fötlun og lést ungur að árum, á sama tíma og hann þjálfaði Daniel Ståhl og Simon Pettersson, sem unnu til gull- og silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021.

„Strákarnir mínir sem tóku gull og silfur í Tókýó 2021, þeir æfðu með fötluðum strák sem var heimsmeistari í kúluvarpi og kringlukasti í sínum flokki. Hann fékk fimm sinnum heilablóðfall þegar hann var 14 ára og dó árið 2020 28 ára.

Þeir æfðu með honum og það gaf kringlukösturunum mínum alveg jafn mikið að æfa með honum eins og það gaf honum sjálfum. Af hverju? Vegna þess að þeir sáu þá að það þýðir ekkert að vera að væla yfir einhverjum smáatriðum.

Vegna þess að þetta var náttúrlega miklu erfiðara á allan hátt fyrir þann fatlaða. Síðan þegar hann dó hafði það svo mikil áhrif á þá að við ákváðum ég, gull- og silfurverðlaunahafarnir að búa til minningarmót um hann,“ segir Vésteinn.

Þessu verður fólk að átta sig á

„Þetta hafði það mikil áhrif á þá og þetta er bara svona týpískt dæmi sem ég hef upplifað sjálfur, hvað fatlaða fólkið hefur mikil áhrif á ófatlaða. Sumir segja að það skipti öllu máli fyrir fatlaða að æfa með ófötluðum en það er alveg jafn mikilvægt í hina áttina.

Þessu verður fólk að átta sig á og þetta kemur út úr mínum munni. Ég hef verið afreksþjálfari og ég hef algjörlega trú á þessu. Ég vil bara fá félögin, næstu tíu árin, til þess að átta sig á því að þau eiga að þjálfa fatlaða.

Það er bara verkefni sem við ætlum að reyna að framkvæma og er komið af stað og síðan er bara að auka þetta eftir tíu ár. Þetta er bara sjálfsagt mál. Svoleiðis held ég að við fáum þetta út í hreyfinguna.“

Viðtalið við Véstein má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert