RayGun í efsta sæti heimslistans

Rachael Gunn, RayGun, tekur höfuðsnúning við keppni á Ólympíuleikunum í …
Rachael Gunn, RayGun, tekur höfuðsnúning við keppni á Ólympíuleikunum í París. AFP/Odd Andersen

Ástralski breikdansarinn Rachael Gunn, RayGun, er í efsta sæti heimslista kvenna þrátt fyrir að hafa ekki fengið eitt einasta stig við keppni á Ólympíuleikunum í París í síðasta mánuði.

RayGun vakti mikla athygli, bæði neikvæða og jákvæða, fyrir óvenjulega danstilburði sína í keppninni.

Gagnrýni í hennar garð hefur meðal annars snúið að því að RayGun væri að gera lítið úr breikdansi sem íþrótt og skaðaði jaðarmenninguna sem hún tilheyrir.

Ólympíuleikarnir ekki teknir með

Alþjóðasamband dansíþrótta gefur út heimslista og hefur útskýrt hvers vegna RayGun haldi efsta sætinu á heimslistanum þrátt fyrir slælega frammistöðu á leikunum í París.

Í tilkynningu frá sambandinu segir að hver og einn íþróttamaður sé metinn út frá bestu fjórum frammistöðum sínum undanfarna tólf mánuði og að keppni á Ólympíuleikum, þar á meðal undankeppni, væri þar undanskilin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert