Stigamet hjá Aldísi

Aldís Kara Bergsdóttir átti góðan dag í listskautakeppni Reykjavíkurleikanna.
Aldís Kara Bergsdóttir átti góðan dag í listskautakeppni Reykjavíkurleikanna. Hafsteinn Snær

Það var mikið um glæsileg tilþrif á öðrum degi listskautakeppni Reykjavíkurleikanna í Skautahöllinni í Laugardal í dag. Keppt var í fimm flokkum og réðust úrslit í einum þeirra en úrslit í öðrum flokkum ráðast á morgun sunnudag.

Mjög margir keppendur voru skráðir til keppni í junior ladies-flokkinn (unglingastig kvenna) eða alls 17. Það er ekki síst vegna þess að stigin geta gilt inn á heimsmeistarmót unglinga. Aldís Kara Bergsdóttir, Íslandsmeistari í junior og silfurverðlaunahafi á síðustu Reykjavíkurleikum, gerði sér lítið fyrir og setti stigamet í stuttu prógrammi eða 45,25 stig og náði lágmörkum á heimsmeistaramót unglinga í prógramminu. Keppendur þurfa að ná lágmörkum í báðum prógrömmum til að komast inn á mótið og verður spennandi að sjá hvort henni takist það á morgun. Aldís Kara skrifaði einnig nýtt stökk á spjöld íslensku skautasögunnar þegar hún fór þrefalt loop og er það í fyrsta skiptið sem það sést fullgilt hjá íslenskum skautara. Aldís er í öðru sæti í junior ladies-flokknum eftir daginn í dag. Fyrir ofan hana með 48,01 stig er Marija Bolsheva frá Lettlandi og í þriðja sæti er Elena Komova frá Bretlandi með 41,55 stig. Marta María Jóhannsdóttir sem einnig átti góðan dag í dag er í 4. sæti og aðeins 0,18 stigum eftir Elenu.

Nikolaj Mølgaard Pedersen var eini keppandinn í senior men (fullorðinsflokki karla). Nikolaj fékk silfurverðlaun á Danmerkurmeistaramótinu í desember og er á leið á Norðurlandamótið í Noregi eftir hálfan mánuð. Hann náði stökkunum sínum með ágætum en spinnarnir gengu misjafnlega hjá honum í dag. Hann fékk fyrir stutta prógrammið sitt 41,81 stig.

Edward Appleby var eini junior men (unglingastig karla) keppandinn en hann kemur frá Bretlandi. Edward reyndi þrefaldan Axel sem er stökk sem við sjáum ekki oft hér á Íslandi. Eftir stutta prógramið uppskar hann 45,71 stig.

Keppendur í senior ladies (fullorðinsflokki kvenna) voru sjö. Fjórar norskar stúlkur voru skráðar og voru þær atkvæðamiklar í keppni dagsins. Marianne Stålen, sem varð þriðja á norska meistaramótinu um daginn skipaði sér í efsta sæti með fallegu prógrammi og 40,97 stig. Í öðru sæti lenti Oliwia Rzepiel frá Póllandi með 40,44 stig og í því þriðja er Louisa Warwin frá Noregi með 39,79 stig.

Úrslit réðust í dag í advanced novice-flokknum (efsta stig stúlkna). Stúlkurnar í þeim flokki sýndu frjálsa prógrammið sitt í dag og var búist við að einhverjar sviptingar gætu orðið á efstu sætunum þar sem keppendur í sætum 2 til 5 voru mjög nálægt hver öðrum í stigum. Anna Albisetti frá Sviss sem sat í fyrsta sæti eftir fyrri daginn mætti með tvo tvöfalda Axela og eitt þrefalt salchow og þrefalt toeloop og fékk 51,15 stig. Júlía Rós Viðarsdóttir sem hafði verið í öðru sæti eftir stutta prógrammið skautaði ljúflega í gegnum sínar æfingar og hlaut fyrir 51,69 stig. Í þriðja sæti eftir fyrri dag var Lucy Gardnier frá Bretlandi og í dag framkvæmdi hún tvo glæsilega tvöfalda Axela og glæsilegt prógramm sem gaf 52,38 stig. Það var svo Arabella Sear-Watkins frá Bretlandi sem sprengdi skalann í dag og var hæst í frjálsa prógramminu eftir að hafa framkvæmt tvo tvöfalda Axela við skemmtilega tónlist úr Cats-söngleiknum. Árangur Arabellu dugði þó ekki til að ná Önnu Albisetti eftir fyrri daginn og krækti hún því í gullið með 86,18 stig samanlagt. Önnur varð svo Arabella Sear-Watkins með 81,39 stig og þriðja varð Lucy Gardnier með 81,34 stig. Júlía Rós Viðarsdóttir var síðan einungis 0,65 stigum á eftir henni í fjórða sætinu með 80,69 stig.

Keppni í listskautum hefst aftur í fyrramálið klukkan 11:00 og stendur yfir til klukkan 15:30 á morgun. Á iceskate.is má finna nánari dagskrá, keppendalista og streymi.

Anna Albisetti frá Sviss sigraði í advanced novice-flokknum.
Anna Albisetti frá Sviss sigraði í advanced novice-flokknum. Hafsteinn Snær
Verðlaunahafar í advanced novice-flokknum. Anna Albisetti, Sviss, með gull, Arabella …
Verðlaunahafar í advanced novice-flokknum. Anna Albisetti, Sviss, með gull, Arabella Sear-Watkins, Bretlandi, með silfur og Lucy Gardnier, Bretlandi, með brons. ÍSS/ Þóra Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert