Á Reykjavíkurleikunum um komandi helgi keppir Aldís Kara Bergsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar í senior-flokki í listhlaupi á skautum.
Við skipulag leikanna í venjulegu árferði er sérstök áhersla lögð á að fá keppendur á mótið í senior þar sem um efsta keppnisflokk skautanna er að ræða og ef um alþjóðlegt mót væri að ræða gæfu stig úr þessum flokki möguleika á þátttöku á Evrópumeistaramóti eða heimsmeistaramóti. Því miður verður ekki um slíkt að ræða núna og Aldís Kara því eini keppandinn að þessu sinni.
Þess má geta að afar erfitt er að komast í þennan krefjandi flokk og afrek í sjálfu sér fyrir íslenska keppendur en Ísland hefur endrum og sinnum átt keppendur í senior á RIG. Þetta mun verða fyrsta mót Aldísar Köru í þessum flokki en hún hefur gert garðinn frægan í junior-flokki og fór m.a. á heimsmeistaramót unglinga í mars á síðasta ári rétt áður en Covid-19 skall á af fullum þunga. Var það í fyrsta skiptið sem Ísland átti keppanda á því móti.
Það verður því spennandi að sjá hvernig henni gengur í flokkinum ofar í erfiðleikaröðun keppnisflokka Alþjóðaskautasambandsins.
Reykjavíkurleikunum í listhlaupi á skautum verður streymt á Facebook-síðu leikanna og Skautasambandsins en mótið er haldið laugardaginn 30. og sunnudaginn 31. janúar í skautahöllinni í Laugardal.