Mikið hefur gengið á síðast liðið ár í íþróttaheiminum en allt skautamótahald hætti rétt um miðjan mars.
Íslenskir landsliðskeppendur náðu þó síðustu Reykjavíkurleikum og Norðurlandamótinu sem haldið var í Noregi. Síðan þá hefur einungis verið haldið eitt mót á Íslandi en allt mótahald unglinga, þar á meðal heimsmótaröð unglinga og heimsmeistaramót unglinga á þessu tímabili hefur verið fellt niður. Reykjavíkurleikarnir eru því fyrsta mótið síðan í september sem keppendur hafa haft möguleika til að reyna sig á en keppni fer fram í Skautahöllinni í Laugardal á morgun og á sunnudaginn.
Stór skörð hafa verið höggvin í hópinn síðan. Aldís Kara Bergsdóttir SA sem stóð fremst meðal jafningja á síðasta ári í unglingaflokki (junior) hefur flutt sig í fullorðinsflokk (senior) en einnig mun vanta á mótið Viktoríu Lind Björnsdóttur SR, sem hefur tekið sér frí frá keppni, sem og Mörtu Maríu Jóhannsdóttur SA sem nýverið tilkynnti að hún væri hætt keppni.
Á Reykjavíkurleikana mun einnig vanta Ísoldu Fönn Vilhjálmsdóttur SA sem æfir í Sviss og kemst ekki á mótið vegna sóttvarna á landamærum en hún setti fyrir jól margföld íslandsmet í flokknum, auk þess að stimpla sig inn í skautasöguna með því að vera fyrst íslenskra skautara að lenda þreföldu Lutz stökki og tveimur þreföldum stökkum í stökksamsetningu.
Meðal keppenda á mótinu verður hins vegar Júlía Rós Viðarsdóttir SA sem svo eftiminnilega stimplaði sig inn á sínu fyrsta móti í junior í haust með því að hreppa gullið í æsispennandi keppni. Júlía Rós hefur lengi verið kröftugur keppandi í efsta stigi stúlkna (advanced novice) og er ríkjandi íslandsmeistari í þeim flokki ásamt því að hún setti stigamet íslensks skautara í flokkinum á síðast liðnu Norðurlandamóti. Ekki langt á eftir henni er Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni en báðar eru þessar stúlkur á sínu fyrsta ári í unglingaflokki.
Á morgun hefst keppni í listhlaupi á skautum á Reykjavíkurleikunum og verður keppninni streymt beint á facebook síðu Reykjavíkurleikanna og Skautasambandsins.