Íslandsmet hjá Aldísi Köru á Reykjavíkurleikunum

Aldís Kara Bergsdóttir, SA
Aldís Kara Bergsdóttir, SA Hafsteinn Snær

Í morgun kl. 11 hófst keppni á Íslandsmeistaramótinu í listhlaupi á skautum í Skautahöllinni í Laugardal. Keppnin er með töluvert minna sniði þetta árið sökum þess að erlenda keppendur vantar en að auki hefur orðið töluvert brottfall úr keppendahópum félaganna vegna kórónuveirunnar.

Keppt er til Íslandsmeistartitils í þremur keppnisflokkum en skautarar úr þessum flokkum skipa að jafnaði landslið Íslands á Norðurlandamótum. Í þessum keppnisflokkum er keppt með tvö prógrömm og var það stutta prógrammið, eða skylduæfingarnar, í morgun. Í efsta stigi stúlkna voru fjórir keppendur skráðir til leiks. Keppendur eru misreyndir í flokknum en efst eftir stutta prógrammið stendur reynslubolti frá Akureyri, Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, með 28,74 stig og var eini keppandinn í flokknum í morgun sem reyndi tvöfaldan axel.

Í öðru sæti er Sædís Heba Guðmundsdóttir, einnig frá Akureyri, með 26,68 stig en þetta er hennar allra fyrsta mót í þessum flokki og er hún einungis 12 ára. Í þriðja sæti situr svo Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni með 17,01 stig.

Á eftir þeim var komið að unglingaflokki kvenna. Þar voru einnig skráðir fjórir keppendur, allir á sínu fyrsta ári í flokknum. Efst eftir daginn er Júlía Rós Viðarsdóttir úr SA sem kláraði erfiðustu stökkin með stæl og 45,87 stigum og trónir langefst, eða 11 stigum fyrir ofan Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur úr Fjölni sem fékk 34,35 stig. Báðar stúlkur höfðu tvöfaldan axel og spinna á topplevelum en þrefalt Salchow-stökk í samsetningu skildi þær að í elementunum. Í þriðja sæti situr svo Eydís Gunnarsdóttir úr SR með 28,66 stig.

Síðust keppti Aldís Kara Bergsdóttir frá Akureyri, keppandi í kvennaflokki, sem var að flytja sig úr keppnisflokknum fyrir neðan. Þetta verður fyrsta keppni Aldísar Köru Bergsdóttur frá SA en hún segir nú skilið við glæsilegan junior-feril með mörgum Íslandsmetum ásamt því að vera fyrsti íslenski skautarinn sem vann sér inn keppnisrétt á heimsmeistaramóti unglinga og skilaði stiga- og sætismeti á síðasta Norðurlandamóti.

Aldís Kara mætti full eldmóðs í dag með þrefalt Salchow í samsetningu, tvöföldum axel og þreföldu toeloop og skilaði nýju Íslandsmeti í stuttu prógrammi í þessum flokki með 40,93 stig en fyrra metið átti Júlía Grétarsdóttir frá árinu 2016. Gaman verður að fylgjast með henni á morgun í frjálsa prógramminu. Keppni hefst klukkan 11:15 á morgun í þessum flokkum en á undan munu keppa barnaflokkar sem fá þátttökuverðlaun og persónulega endurgjöf.

Allir þessir keppendur keppa með frjálst prógramm á morgun og þá munu úrslit ráðast. Keppnin hefst klukkan 11:15 og hægt verður að fylgjast með streymi frá keppninni hér. 

Júlía Rós Viðarsdóttir, SA
Júlía Rós Viðarsdóttir, SA Hafsteinn Snær
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, SA Hafsteinn Snær
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert