Sjö greinar fara fram í dag á Reykjavíkurleikunum, streymt verður frá fjórum þeirra. Í dag hefst keppni í listskautum, hermiakstri og pílukasti, en úrslit munu ráðast í júdó, borðtennis, skylmingum og enduro-hjólreiðakeppninni.
Þar sem áhorfendur eru bannaðir samkvæmt sóttvarnareglum streyma margir mótshaldarar frá keppnisstað. Finna má allt streymi á heimasíðu rig.is.
Listskautar
Keppni í listskautum fer fram í skautahöllinni í Laugardalnum í dag og á morgun. Samhliða Reykjavíkurleikunum verða að þessu sinni einnig afhentir Íslandsmeistaratitlar ársins 2020. Keppnin í dag byrjar kl. 11 og stendur til 14.45, en hægt er að horfa á streymi frá keppninni, frekari upplýsingar má finna á facebookviðburði keppninnar.
Pílukast
Yfir 100 manns eru skráðir í pílukastskeppnina sem hefst í dag, en undankeppni fer fram um helgina og verða úrslitin í beinni útsendingu á RÚV á miðvikudagskvöldið 3. febrúar. Reiknað er með spennandi keppni milli Reykjarvíkurleikameistara og Íslandsmeistara frá því í fyrra.
Hægt er að horfa á streymi keppninnar hér sem byrjar klukkan 11:00.
Júdó
Allir bestu júdókapparnir mæta til leiks á Reykjavíkurleikunum, búist er við spennandi keppni í nokkrum flokkum. Keppnin hefst kl. 12:00 og verður hægt að horfa á streymi hér. Úrslitin hefjast klukkan 15:00 og verða sýnd í beinni á RÚV.
Hermikappakstur
Hermikappakstur er stafrænt form af kappakstri þar sem ekið er eftir alvörubrautum á bílum sem hafa verið settir í stafrænt form. Keppnin fer í fram í gegnum netið og notast er við hermikappakstursforritið iRacing. Margir af fremstu akstursíþróttamönnum landsins taka þátt í keppninni og má gera ráð fyrir þátttöku nokkurra erlendra ökumanna. Hægt er að horfa á keppnirnar í beinni útsendingu frá kl. 17:30 á Stöð2 e-Sport-rásinni og einnig má fylgjast með streymi hér.
Skylmingar
Skylmingakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í skylmingamiðstöðinni í Laugardal, keppt verður í skylmingum með höggsverði í karla- og kvennaflokki. Unglingaflokkurinn hefst kl. 14:00 og opni flokkurinn 15:45.
Borðtennis
Borðtennismótið fer fram í íþróttahúsi TBR við Gnoðarvog. Keppni í karlaflokki hefst kl. 15:00 og í kvennaflokki kl. 16:00.
Enduro-hjól
Enduro-hjólakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Öskjuhlíð í vetraraðstæðum og myrkri, keppt verður í karla- og kvennaflokki og hefst keppnin kl. 17:00.
Dagskrá Reykjavíkurleikanna í heild má finna á rig.is.