Spennandi Enduro keppni lokið í Öskjuhlíðinni

RFV photo

Enduro-hjólreiðakeppni var haldin í Öskjuhlíð í ljósaskiptunum dag við frábærar aðstæður. Það voru 33 keppendur skráðir til leiks og keppt í fjórum sérleiðum í Öskjuhlíðinni. Aðstæður voru með besta móti, lítill vindur og auð jörð en heldur napurt samt.

Í kvennaflokki var það Brettafélag Hafnafjarðar sem kom, sá og sigraði. Þórdís Björk Georgsdóttir vann nokkuð sannfærandi sigur á tímanum 08:27,331 samanlagt fyrir allar fjórar leiðirnar. Náði hún besta tímanum á fyrstu leið og bætti svo við forskotið á leiðunum sem eftir komu. Í öðru sæti var Helga Lísa Kvaran á 09:09,236 og í þriðja sæti Heiðrún Erla Guðbjörnsdóttir á 09:53,151.

Í karlaflokknum var mikil spenna allt til loka. Í fyrstu leið var það Gestur Jónsson úr Brettafélagi Hafnafjarðar sem náði fjögurra sekúndu forskoti á Helga Berg Friðþjófsson sem er einnig í Brettafélaginu.

Helgi lenti í smávandræðum með flæðið í grjótagarðinum sem reyndust honum dýrkeypt. Á hæla þeirra kom svo ungstirnið Breki Gunnarsson úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, einungis tveimur sekúndum þar á eftir. Þetta var eina leiðin sem Gestur náði besta tímanum á og saxaði Helgi jafnt og þétt á forskot hans.

Í fjórðu og síðustu leið var spennan orðin rafmögnuð en svo fór þó að lokum að forskot Gests hélt, en Helgi var einungis nokkrum sekúndubrotum frá því að ná honum. Breki hélt þriðja sætinu til loka þrátt fyrir að hart væri sótt að honum allar leiðirnar. Tíminn hjá Gesti var 06:39,029, hjá Helga 06:39,179 og loks var Breki á 06:58,874.

Úrslitin má sjá hér. 

Sigurvegarar í kvenna flokki
Sigurvegarar í kvenna flokki RFV photo
Sigurvegarar í karlaflokki
Sigurvegarar í karlaflokki RFV photo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert