Aldís Kara með met á síðari keppnisdegi í listhlaupi á skautum

Keppendur í Advanced novice.
Keppendur í Advanced novice. Ljósmynd/Þóra Gunnarsdóttir

Sunnudagur reis í skautahöllinni í Laugardal á lokadegi skautamóts Reykjavíkurleikanna. 

Keppni hófst með keppnisflokkum Chicks girls (hnátur) og Cubs girls/boys (telpur og drengir). Ekki er keppt um sæti í þessum flokkum heldur miðast þátttaka skautaranna við að fá endurgjöf dómara á frammistöðu sína.

Í eldri flokkunum er keppt í öfugri úrslitaröð stutta prógrammsins frá deginum áður.

Í advanced novice (efsta stigi stúlkna) varð Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir frá SA sigurvegari en hún leiddi eftir stutta prógrammið. James Bond var þemað í dag og opnunarstökksería var þriggja stökka með tvöföldum Axel, hálfu Loop, tvöföldu Salchow og strax á eftir annar tvöfaldur Axel en því miður föll í báðum. Það hins vegar gaf henni bara meiri byr í seglin og negldi hún restina af prógramminu með 54,93 stigum og í heildina 83,67 og tryggði henni gullið. Sætisröð breyttist ekkert frá laugardeginum en auk Freydísar Jónu Jing Bergsveinsdóttur varð önnur Akureyrarstúlka í öðru sæti, hin 12 ára Sædís Heba Guðmundsdóttir. Bronsið fékk svo Tanja Rut Guðmundsdóttir úr Fjölni.

Í Junior ladies (unglingaflokki kvenna) leiddi Júlía Rós Viðarsdóttir frá SA flokkinn með 11 stiga forskot frá fyrri deginum og því nokkuð ljóst að erfitt yrði að skáka henni. Hún skautaði sitt prógram við tónlist úr Carmen og opnaði með glæsilegu þreföldu Salchow í samsetningu með tvöföldu Toeloop og svo strax á eftir tvöfaldan Axel og síðan annað þrefalt Salchow. Spinnar voru hnökralausir og vel miðjaðir og stökkin sem á eftir komu góð með einu falli. Stigin fyrir prógramið 82,50 og 128,37 í heild. Glæsileg frammistaða hjá þessum efnilega skautara og gullið í hús. Önnur varð Júlía Sylvía Gunnarsdóttir úr Fjölni og þriðja Eydís Gunnarsdóttir frá SR.    

Síðasti keppandi dagsins var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA. Töluverð eftirvænting var eftir að sjá hana spreyta sig í senio-flokki eftir tvö velgengnisár í junior-flokki. Aldís Kara er afar sterkur skautari og snörp og hóf leikinn með þreföldu Salchow í þriggja stökka seríu með tveimur tvöföldum stökkum, strax á eftir tvöföldum Axel og síðan þreföldu Toeloop í samsetningu með tvöföldu stökki. Seinna bætti hún um betur og lagði annað þrefalt Salchow. Stigin urðu 82,51 og í heildina 123,44 og bætti bæði Íslandsmetið í frjálsu prógrammi sem og heildarstigin en fyrri met átti Margrét Sól Torfadóttir frá árinu 2018. Allt gekk upp hjá Aldísi í dag og eftir glæsilega frammistöðu senior hér verður gaman að fylgjast með henni, þegar hún fer að reyna við lágmörk inn á stórmót erlendis. Hún fékk einnig úrslitaverðlaun RIG en þau eru veitt stigahæsta skautara í efsta flokki á mótinu. Sannarlega glæsilegur árangur. 

Skautasambandið óskar öllum keppendum á mótinu innilega til hamingju með frábæran árangur.

Jafnhliða verðlaunum á Reykjavíkurleikunum fengu sigurvegarar í þessum flokkum Íslandsmeistaratitla ársins 2020 en fella þurfti niður Íslandsmeistarmótið í nóvember vegna Covid-19.

Keppendur í Junior ladies.
Keppendur í Junior ladies. Ljósmynd/Þóra Gunnarsdóttir
Keppendur í hnátu-, pilta- og telpnaflokkum.
Keppendur í hnátu-, pilta- og telpnaflokkum. Ljósmynd/Þóra Gunnarsdóttir
Aldís Kara Bergsdóttir, verðlaunahafi á RIG21 í senior ladies.
Aldís Kara Bergsdóttir, verðlaunahafi á RIG21 í senior ladies. Ljósmynd/Þóra Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert