Klifurkeppni Reykjavíkurleikanna fer fram annað kvöld, mánudagskvöldið 1. febrúar. Fimm karlar og fimm konur munu sýna hæfileika sína á veggnum þar sem besta konan og besti karlinn hljóta titilinn RIG-meistari í klifri fyrir árið 2021.
Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV 2 og verður íþróttin þar með í fyrsta skipti sýnd beint í sjónvarpi hérlendis.
Til þess að hljóta titilinn þurfa klifrararnir að sýna fram á getu og hæfileika til að klifra ólíkar leiðir, þar sem sumar reyna meira á jafnvægi og liðleika en aðrar eru dýnamískar og krefjast þess af klifraranum að hann taki stórt stökk í lélegt grip til að halda áfram.
Í klifurleið eru merkt byrjunar- og endagrip auk stigasvæða. Klifrari þarf að byrja með alla útlimi á byrjunargripunum og finna síðan leið upp í endagripið. Leiðin telst klifruð ef báðar hendur eru á endagripi og klifrarinn hefur stjórn á stöðunni. Stigasvæðin gefa síðan stig eftir því hversu hátt þau eru staðsett í leiðinni. Fullt hús stiga fyrir leið er 25 stig. Stigasvæðin neðar í leiðinni gefa síðan 5, 10 eða 15 stig.
Stigasvæðin eru grip sem klifarinn þarf að grípa í og hafa stjórn á til þess að fá stigin. Aðeins er hægt að fá fullt hús stiga fyrir stigasvæðin í fyrstu tilraun en síðan fær klifrarinn 0,1 stigi minna fyrir hvert svæði í annarri tilraun og 0,2 stigum minna í þriðju tilraun. Stigin leggjast ekki saman heldur eru stig klifrarans miðuð við stigahæstu tilraun. Á RIG er keppt í þremur leiðum og er fullt hús því 75 stig.
Á mótum er aðeins ein leið á hverju svæði fyrir sig, keppendur hafa ekki séð hana áður og vaða blint en þar sem RIG er óhefðbundið mót fá þau aðeins að skoða leiðirnar áður en keppnin hefst. Hver keppandi fær þrjár tilraunir og svo eru gefin stig eftir því hver kemst lengst í leiðinni og hversu margar tilraunir þurfti til að komast þangað.
Hver flokkur klifrar þrjár leiðir (kvenna og karla) en á hefðbundnum Íslandsmeistaramótum í Klifurhúsinu eru 20 leiðir og þeir sem vinna flest stig á Íslandsmeistaramótum hvers tímabils keppa síðan á bikarmeistaramóti sem er með fjórum leiðum. Það er eins og verður á Ólympíuleikunum í Tókýó þegar keppt verður í fyrsta skipti í þessari ört vaxandi íþrótt á þeim alþjóðlegu og mikilvægu leikum.
Frekari upplýsingar má finna á rig.is.