Góður árangur hefur náðst á sundmóti Reykjavíkurleikanna en þar hefur sundfólk náð lágmörkum á Norðurlandameistaramót, sem og Evrópumeistaramót.
Keppt var til úrslita í gærkvöld og í fyrstu grein synti Birnir Freyr Hálfdánarson 200 m fjórsund á tímanum 2.12.32 mínútur og bætti tíma sinn frá því um morguninn um tæpar tvær sekúndur og náði þar með lágmarki á Norðurlandameistaramót æskunnar (NÆM) sem fram fer í júlí í sumar. Birnir Freyr sigraði jafnframt í 200 m fjórsundi.
Þá hafa þau Katja Lilja Andriysdóttir úr SH og Veigar Hrafn Sigþórsson úr SH einnig náð lágmarki á NÆM í sumar. Katja Lilja í 800 m skriðsundi, en hún synti á tímanum 9.41.31 mínútur og Veigar Hrafn í 400 m fjórsundi á tímanum 4.48.81.
Eva Margrét Falsdóttir synti jafnframt í annað sinn undir EMU-lágmarki þegar hún synti 200 m bringusund á tímanum 2.37.57 mínútur. Í gær synti hún undir lágmarki í 400 m fjórsundi. EMU verður haldið í júlí í sumar.
Lokadagur mótsins er í dag og úrslitin hefjast klukkan 17:00. Hægt er að fylgjast með streymi frá mótinu, einnig live úrslitum.