Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson fögnuðu sigri í 200 metra hlaupum á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll í dag. Þau voru hins vegar nokkuð frá sínum besta árangri.
Guðbjörg Jóna hljóp á 24,42 sekúndum, sem er tæpri hálfri sekúndu frá hennar besta tíma. Þórdís Eva Steinsdóttir veitti henni góða keppni og varð önnur á 24,66 sekúndum. Melkorka Rán Hafliðadóttir kom þriðja í mark á 25,54 sekúndum.
Kolbeinn Höður hljóp á 21,69 sekúndum en hann á best 21,21 sekúndu. Ívar Kristinn Jasonarson kom annar á 21,95 sekúndum og Dagur Fannar Einarsson varð þriðji á 22,73 sekúndum.
Guðbjörg og Kolbeinn hafa verið fremstu röð í spretthlaupi á Íslandi síðustu ár og fögnuðu þau einnig sigri í 60 metra hlaupi fyrr í dag.