Mikið var um óvænt úrslit á Reykjavíkurhraðskákmótinu á Reykjavíkurleikunum.
Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson sigraði á skákmóti Reykjavíkurleikanna sem fram fór í Laugardalshöll. Hannes var í miklu stuði og hlaut 9½ vinning í 11 umferðum. Frábær árangur í svo sterku móti. Danski stórmeistarinn Mads Andersen varð annar með 8½ vinning. Stórmeistararnir Guðmundur Kjartansson og Þröstur Þórhallsson urðu í 3.-4. sæti með 7½ vinning.
Sigur í kvennakeppunni unnu hin danska Ellen Fredericia Nilssen og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir en þær hlutu 6 vinninga. Lenka Ptácníková varð í þriðja sæti með 5½ vinning.
Landskeppni Norðurlandanna
Á morgun fer fram landskeppni Íslendinga, Dana, Norðmanna og Svía. Þar verður teflt á karla og kvennaborði. Teflt er eftir útsláttarfyrirkomulagi. Tefld verður atskák og hraðskák komi til bráðabana. Íslendingar mæta Svíum í undaúrslitum. Hjörvar Steinn Grétarsson og Lenka Ptácníková tefla fyrir Islands hönd.
Landskeppnin verður beint á RÚV og RIG.is og hefst kl. 13:00. Ingvar Þór Jóhannesson og Jóhanna Björg verða með skákskýringar.