Fjölbreyttur sunnudagur á Reykjavíkurleikunum

Keila á Reykjavíkurleikunum 2022.
Keila á Reykjavíkurleikunum 2022. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Á dagskrá Reykjavíkurleikanna í dag gætum við séð Evrópumet falla, Norðurlandameistara fagna sigri, HM lágmörk og fleiri mótsmet. 

Sex greinar fara fram í dag, en hægt verður að fylgjast með allri dagskránni á RIG.IS

Kraftlyftingar

Sterkir keppendur mæta til leiks með mismunandi markmið. Það má sjá Matthildi Óskarsdóttur reyna við Evrópumet unglinga í bekkpressu. Tony Cliffe frá Bretlandi ætlar að reyna við Evrópumet. Hilmar Símonarson stefnir á lágmark fyrir HM á þessu ári. Streymt verður frá keppninni á RÚV.is og RIG.is klukkan 14:00.

Ólympískar lyftingar

Keppni hefst kl. 10:00 í ólympískum lyftingum, Þuríður Erla Helgadóttir mætir til leiks ásamt Úlfhildi Unnarsdóttur sem er Íslands-, Svíþjóðar- og Norðurlandameistari 2021. Þá mun Brynjar Logi Halldórsson keppa, en hann mun keppa á heimsmeistara-, Evrópumeistara- og Norðurlandamóti unglinga á þessu ári. Streymi og frekari upplýsingar má finna á RIG.IS.

Karate

Karatekeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöll. Fyrir hádegi er keppt í kata og kumite hjá fullorðnum og eftir hádegi er keppni hjá 13-15 ára. Keppendur koma frá Svíþjóð og Skotlandi, sterkasta landsliðsfólk landsins mun keppa á mótinu, þar með talin karatemaður og kona Íslands 2021. Bein útsending á RIG.IS.

Skák

Landskeppni Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fer fram í Laugardalshöll, þar kemur í ljós hverjir standa uppi sem Norðurlandameistarar. Hvert lið er samansett af karli og konu og tefldar eru atskákir (10+5) eftir útsláttarfyrirkomulagi. Keppnin verður frá kl. 13:00-16:00 og verður í beinni á RÚV og streymt á RIG.is.

Sund

Lokadagur sundkeppninnar fer fram í dag. Búast má við frekari metum í dag, á dagskrá eru úrslit í flestum greinum, þar á meðal 100m og 200m skriðsund. Dagskrá mótsins má nálgast hér, og streymi hefst á RIG.is klukkan 9:45.  

Keila

Riðlarnir í forkeppninni halda áfram. Alls eru um þrír tugir erlendra keppenda að keppa frá níu löndum, þar á meðal 3 atvinnukonur í keilu, en þær keppa allar á bandarísku atvinnumótaröðinni, þeirri stærstu í heimi. Hægt er að fylgjast með keilukeppninni á heimasíðu RIG.IS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert