Góður árangur náðist í sundkeppni Reykjavíkurleikanna sem fram fór í Laugardalslauginni um helgina. Sett voru sjö mótsmet, tvö unglingamet, og tvö aldursflokkamet.
Tobias B. Bjerg frá Danmörku setti þrjú mótsmet um helgina, Anton McKee átti eitt þeirra. Tobias B Bjerg sigraði örugglega í 50m bringusundi karla á nýju mótsmeti, 27,54. Gamla metið setti hann sjálfur á föstudaginn, þegar hann synti á 27,84.
Daði Björnsson úr SH varð annar á 29,27, sem er jafnframt nýtt unglingamet. Í þriðja sæti varð svo Snorri Dagur einnig úr SH á tímanum 29,45. Tobias fékk verðlaun fyrir stigahæsta sundið á mótinu, hann fékk 836 stig fyrir 50m bringusund.
Í 50m baksundi kvenna sigraði Steingerður Hauksdóttir úr SH á tímanum 29,77 í hörkukeppni við Karoline Sörensen frá Danmörku, sem synti á tímanum 29,83.
Í 50m flugsundi kvenna sigraði Emilie Beckman frá Danmörku á nýju mótsmeti 26,53, gamla metið var í eigu Therese Alshammar 26,72 sem hún setti á RIG árið 2005. Snæfríður Sól varð önnur á tímanum 28,56.
Dadó Fenrir Jasmínuson úr SH sigraði í 50m skriðsundi karla á tímanum 24,00. Rétt á eftir honum á 24,67 varð Bartal E Eidesgaard frá Færeyjum.
Í 400m skriðsundi kvenna sigraði Freyja Birkisdóttir 4:27,34, en önnur varð Var E Eidesgaard frá Færeyjum á tímanum 4:30,81. Karoline Sörensen frá Danmörku sigraði í 200m baksundi kvenna á tímanum 2:19,07. Í 100m baksundi karla sigraði Fannar Snævar á tímanum 1:00,45.
Eva Margrét Falsdóttir sigraði í 100m bringusundi á tímanum 1:14,52. Freydís Lilja úr ÍRB sigraði í 200m flugsundi kvenna á tímanum 2:42,09.
Rasmus Nickelsen sigraði í 100m flugsundi karla á tímanum 54,92, en hann var rétt við mótsmetið 54.43. Í 100m skriðsundi kvenna sigraði Snæfríður Sól á 57,10 og önnur varð Kristín Helga úr SH á tímanum 58,41.
Bartal E Eidsgaard sigraði í 200m skriðsundi karla sem var síðasta grein mótsins á tímanum 1:59,17. Rétt á eftir honum kom Veigar Hrafn úr SH á tímanum 2:00,44.