Síðustu tíu dagar hafa yfir tuttugu íþróttagreinar farið fram á Reykjavíkurleikunum, en leikunum lýkur í dag. Sjö íþróttagreinar fara fram í dag, en hægt er að nálgast miðasölu og streymi frá flestum þeirra á heimasíðu Reykjavíkurleikanna.
Frjálsíþróttir
Sterkir alþjóðlegir keppendur mæta í Laugardalshöllina í dag. Það má búast við spennandi keppni í blönduðu kúluvarpi þar sem karlar og konur keppa saman. Tvær konur sem eru á topp tuttugu á heimslistanum í kúluvarpi keppa því við kringlukastarann Guðna Val Guðnason.
Spretthörðustu konur landsins, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth fá góða keppni á brautinni, þegar þær mæta Naomi Sedney frá Hollandi og Milja Thureson frá Finnlandi í 60m hlaupi. Milja mun einnig keppa við Guðbjörgu og Tiönu í 200m hlaupinu.
Þá fær Kristján Viggó Sigfinnsson góða keppni frá Matias Mustonen frá Finnlandi í hástökki. Kristján á best 2,18 m og Matias 2,17, það má því búast við spennandi keppni. Kristján freistast þess að fara yfir 2,22m í dag.
Mótið hefst klukkan 12:50 en útsendingin á RÚV og RIG.IS hefst klukkan 16:00, miðasala og streymi á heimasíðu Reykjavíkurleikanna, RIG.IS.
Listskautar
Talsverður fjöldi erlendra keppenda tekur þátt um helgina. Reykjavíkurleikarnir er hluti af gildum mótum Alþjóðaskautasambandsins og því freistast margir skautarar að ná lágmörkum inn á alþjóðleg úrslitamót um helgina á RIG.
Hægt er að horfa á streymi af keppninni á heimasíðu Reykjavíkurleikanna.
Rafíþróttir
Seinni dagur rafíþróttakeppninnar hefst klukkan 12:00 í dag þegar leikmenn keppa í Dota 2. Klukkan 17:00 hefst svo keppni í Rocket League. Hægt verður að fylgjast með keppninni hér.
Skotfimi
Skotfimikeppni Reykjavíkurleikanna heldur áfram í aðstöðu Skotfélags Reykjavíkur í Egilshöll milli klukkan 10:00-16:00, keppt verður í loftriffli í dag. Hér er hægt að fylgjast með skotskífunum.
Skylmingar
Í dag heldur keppni áfram í alþjóðamóti í skylmingum með höggsverði fyrir karla og konur í Skylmingarmiðstöðinni í Laugardal. Keppnin byrjar klukkan 10:00
Þá fer einnig fram Unglingakeppni í badminton og parakeppni hjá Crossfit Reykjavík í dag.