Badmintonmótið RSL Iceland International 2023 hófst í TBR húsinu í dag og stendur yfir til sunnudags.
Hátt í 300 keppendur frá 40 þjóðum keppa um helgina, en aðeins 30 Íslendingar taka þátt.
Margir sterkir keppendur mæta til leiks. Alls eru 15 einstaklingar og 17 pör sem eru skráð ofar en 200 á heimslista.
Af Íslendingunum eru tvenndarparið Daníel Jóhannesson og Sigríður Árnadóttir efst á heimslistanum í tvenndaleik. Þau hafa keppt saman undanfarið, nú síðast í janúar í Eistlandi á Estonian International.
Í tvíliðaleik karla eru Kristófer Darri Finnsson og Davíð Bjarni Björnsson efstir á heimslista af þeim íslensku í tvíliðaleik. Þeir kepptu nýlega á Norwegian International þar sem þeir komust í átta liða úrslit.
Efst á heimslista í einliðaleik á mótinu er hin 22 ára Tereza Švábíková frá Tékklandi, en hún situr í 67 á heimslista í einliðaleik kvenna. Tereza hefur spilað vel á mótum síðasta árs, núna síðast spilaði hún á Welsh International í desember þar sem hún komst í 16 manna úrslit. Þar áður komst hún í átta manna úrslit á Norwegian International.
Þá eru þær Kati-Kreet Marran og Helina Rüütel númer 49 á heimslistanum. Síðast komust þær í undanúrslit á Estonian International.
Búast má því við spennandi keppni í TBR í dag, en hægt er að fylgjast með dagskrá og úrslitum hér.
Þá verður hægt að fylgjast með í streymi á laugardag og sunnudag hér.