Kraftlyftingamótið 29. janúar er á mótaskrá alþjóða kraftlyftingasambandsins, og framkvæmt eftir ströngustu reglum. Dómarar og kviðdómur hafa allir alþjóðleg réttindi og koma frá Finnlandi, Noregi, Þýskalandi og Lúxembourg auk Íslands.
Eitt heitasta umræðuefni í kraftlyftingaheiminum þessa dagana eru umdeildar, nýjar reglur um framkvæmd bekkpressulyftu, en reglurnar tóku gildi 1.janúar og þetta er fyrsta IPF mótið þar sem dæmt verður eftir þeim.
Keppendur keppa í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu og fá þrjár tilraunir í hverri grein. Samanlagður árangur af bestu lyftunum í greinunum þremur er reiknaður út í lokin og síðan er honum deilt í líkamsþyngd eftir ákveðinni formúlu. Þá kemur út svokallað IPF-GL stig og stigahæstu keppendur í karla- og kvennaflokki sigra. Það þýðir að það er ekki endilega sá/sú sem lyftir mest sem vinnur, heldur sá/sú sem lyftir mest miðað við eigin líkamsþyngd. Nákvæm vigtun skiptir því miklu máli, en vigtun hefst tveimur tímum fyrir mót.
Keppt er í svonefndum “klassískum” kraftlyftingum. Það þýðir að notkun stuðningsbúnaðar, eins og t.d. hnévafninga og bekkpressuslopps er óheimil.
Sterkasti keppandi í kvennaflokki er án efa Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingakona ársins 2022. Hún vann silfur og EM og HM í fyrra og setti Evrópumet fjórum sinnum á árinu. Hún á gildandi Evrópumet í hnébeygju í -84kg flokki kvenna: 230kg. Það er langt síðan Kristín keppti á Íslandi svo nú er tækifæri til að sjá þessa afrekskonu sem varð áttunda í kjöri á íþróttamanni ársins 2022.
Í karlaflokki ber fyrst að nefna Carl Petter Sommerseth, sterkur norskur keppandi, sem vann bronsverðlaun í -120kg flokki á HM í fyrra. Ef allt fer sem horfir verða hans helstu keppinautar Alexander Örn Kárason og Viktor Samúelsson. Alexander var stigahæsti íslendingurinn í karlaflokki í fyrra og er í miklum bætingarham. Viktor fylgir fast á hæla honum og er reynslumesti keppandinn í hópnum.
Hægt er að kynna sér alla keppendur betur á instagramsíðu KRAFT.
Kraftlyftingamótið hefst kl. 14.00 sunnudaginn 29. janúar, en á undan er keppti í ólympískum lyftingum með sterkum keppendum frá Norðurlöndunum.
Frekari upplýsingar um keppendur og kraftlyftingarkeppnina má finna hér, og sýnt verður frá keppninni í streymi á RIG.IS/LIVE.