Hjó nærri 200 í bekk

Viktor í hnébeygjunni umkringdur stangarmönnum sem grípa inn í ef …
Viktor í hnébeygjunni umkringdur stangarmönnum sem grípa inn í ef stefnir í óefni. Akureyringurinn átti fínan sprett í dag og stefnir ótrauður á ÍM í mars. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég kom ekki með neinar brjálaðar væntingar inn í daginn, það er stutt í Íslandsmeistaramót og þannig séð stutt síðan ég var að keppa á Evrópumóti,“ segir Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður í samtali við mbl.is og norðlenska harðmælið heggur sem hvass atgeir í máli Akureyringsins.

Viktor átti góðan sprett á Reykjavíkurleikunum í dag og varð þar stigahæstur íslensku keppendanna sjö í karlaflokki en eini erlendi gesturinn sem lét sjá sig í kraftlyftingahluta dagsins, hinn geysiöflugi Carl Petter Sommerseth, hampaði gullinu er upp var staðið. Var öllu alþjóðlegra yfirbragð í ólympísku lyftingunum fyrri hluta dags þar sem lið fimm þjóða öttu kappi eins og mbl.is hefur fjallað um í dag.

„Ég er búinn að æfa vel en ætlaði bara að sjá hvað væri inni og meta það hægt og rólega,“ segir Viktor af upplifun sinni í dag.

Hugsa að 200 plús hefði verið inni

„Ég klikkaði á síðustu hnébeygjunni sem ég hefði viljað taka þannig að ég vissi að þetta væri smá brekka að vinna stigakeppnina en þetta gekk betur en ég bjóst við,“ heldur Norðlendingurinn áfram.

Hann var ekki viss um það fyrir fram hvort nýju bekkpressureglurnar, sem mbl.is hefur fjallað um, hvort tveggja í viðtali við Kristínu Þórhallsdóttur í dag og í frétt í gær, hefðu áhrif á hans frammistöðu í bekknum en svo reyndist ekki. „Ég breytti í raun ekki neinu, opnaði reyndar aðeins léttar en ég hefði viljað en ekkert var sagt svo ég er bara mjög jákvæður á komandi mót,“ segir Viktor.

Viktor í lokastöðu í réttstöðunni og svignar stöngin undan hlassinu.
Viktor í lokastöðu í réttstöðunni og svignar stöngin undan hlassinu. Ljósmynd/Sigurjón Pétursson/Kraft

Hann lyfti 275 kg í lyftu númer tvö í hnébeygjunni en hafði ekki 280 að þessu sinni. Í bekkpressu lyfti hann 180, 192 og 197,5. „Ég hjó svolítið nærri 200 og ég hugsa að 200 plús hefði verið inni í dag en ég vildi vera viss upp á nýju reglurnar að gera. Miðað við hvað síðasta lyftan var létt á ég nóg inni þar.“

ÍM og fjölgun í fjölskyldunni

Viktor tók þá 300 kg í fyrstu réttstöðulyftu og hækkaði svo í 315. „Ég var bara að hugsa um stigakeppnina við Alexander [Örn Kárason] frekar en stigin við Norðmanninn, hann tók svo stór stökk í réttstöðulyftunni að það var erfitt fyrir mig að sjá hvort hann ætti eitthvað inni. Þannig að ég vildi bara gulltryggja mér annað sætið og fór þess vegna úr 315 í 317,5 sem var það minnsta sem ég gat tekið en samt unnið silfur og það var mjög létt,“ segir Viktor.

Austmaðurinn Carl Petter Sommerseth er allur hinn hrikalegasti og reyndist …
Austmaðurinn Carl Petter Sommerseth er allur hinn hrikalegasti og reyndist Íslendingum óþægur ljár í þúfu. Ljósmynd/Sigurjón Pétursson/Kraft

Hann er á leið á Íslandsmeistaramótið eftir fimm vikur. „Nú er komin ný regla hjá Kraftlyftingasambandinu, til að vera gjaldgengur í landslið á næsta ári þarf maður að keppa á Íslandsmeistaramóti svo ég fer beint í undirbúning fyrir það,“ segir Viktor sem þó býr sig undir annað og meira en kalt stálið því hann á von á barni í lok mars.

„Ég reyni að ná inn Íslandsmeistaramóti og svo kemur drengurinn bara þarna í lok mánaðar,“ segir Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður sem á annasaman mars í vændum.

Efstu þrjú sæti í karlaflokki í dag:

  1. Carl Petter Sommerseth, Noregi
  2. Viktor Samúelsson
  3. Alexander Örn Kárason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert