Irma Gunnarsdóttir úr FH reyndist hlutskörpust í langstökki kvenna innanhúss á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna í frjálsíþróttahöllinni í Laugardalshöll í dag.
Irma var hársbreidd frá sínum besta árangri þegar hún stökk lengst 6,34 metra.
Á stórmóti ÍR í síðasta mánuði stökk hún 6,36 metra, sem er næstbesti árangur íslenskrar konu í greininni í sögunni.
Í öðru sæti var Íslandsmethafinn Hafdís Sigurðardóttir, sem stökk lengst 6,17 metra. Íslandsmet hennar frá árinu 2016 er 6,54 metrar.
Birna Kristín Kristjánsdóttir hafnaði í þriðja sæti með því að stökkva lengst 6,04 metra.
Karla megin var Bretinn James Lelliott sterkastur þegar hann stökk lengst 7,45 metra,
Í öðru sæti var annar Breti, Alexander Farquharson, sem stökk lengst 7,38 metra, sem er hans besti árangur á ferlinum.
Þar á eftir kom Daníel Ingi Egilsson úr FH, sem stökk lengst 7,22 metra. Besti árangur hans er 7,35 metrar.