Síðustu tíu daga hefur verið keppt í 23 íþróttagreinum á Reykjavíkurleikunum, sem lýkur í dag.
Frjálsíþróttir
Met gætu fallið á frjálsíþróttamóti RIG þar sem búast má við spennandi keppni í ýmsum greinum.
Kolbeinn Höður Gunnarsson og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafa bæði bætt Íslandsmetin í 60 metra hlaupi nýlega og verður forvitnilegt að fylgjast með hvort þau bæti metin aftur í dag.
Einn af hápunktum mótsins verður blandaða kúluvarpið þar sem ríkjandi heimsmeistari í kúluvarpi kvenna, Chase Ealey frá Bandaríkjunum, mætir til leiks.
Mótið er í Laugardalshöll og hefst klukkan 13.30 en bein útsending á RÚV hefst klukkan 14.
Listskautar
Norðurlandamótið í listskautum heldur áfram í Skautahöllinni í Laugardal. Keppni hefst í hádeginu og lýkur með verðlaunaafhendingu í fullorðinsflokkum um miðjan daginn. Hægt er að horfa á streymi á RIG.IS/LIVE.
Akstursíþróttir
Keppt er í hermiakstri í dag. Frá klukkan 16 til 19 er keppt í SimRacing og frá klukkan 19 til 22 munu eSport deildir RÍSÍ keppa í Gran Turismo og F1-22.
Hægt er að fylgjast með streymi á RIG.IS/LIVE.
Rafíþróttir
Keppt verður í League of Legends í rafíþróttakeppni RIG í dag, en hún hefst klukkan 13 og lýkur um 16. Hægt verður að fylgjast með í Arena og horfa á beint streymi á RIG.IS/LIVE.
Skotfimi
Skotfimikeppni RIG heldur áfram í Egilshöll í dag. Klukkan 10 hefst keppni í loftriffli og hægt er að fylgjast með hér.
Skylmingar
Keppni í skylmingum heldur áfram í dag, keppnin fer fram á Laugardalsvellinum undir stúkunni og er á milli klukkan 9 og 16.
Badminton unglinga
Badmintonkeppni unglinga fer fram í TBR-húsinu. Margir af okkar efnilegustu unglingum eru að keppa, en keppni hófst klukkan 9 og verður leikið fram eftir degi. Hægt er að fylgjast með leikjunum hér.