Reykjavíkurleikarnir 2025 voru settir í átjánda skipti klukkan níu í morgun í TBR-húsunum þegar keppni í badminton hófst og standa leikar þar til klukkan 21 í kvöld.
Keppni heldur áfram í badminton á morgun, föstudaginn 24 janúar, en þá hefst einnig keppni í sundi og rafíþróttum.
Keppni í sundi fer fram í Laugardalslauginni en keppni í rafíþróttum fer fram í Laugardalshöll. Laugardagurinn 25. janúar verður stærsti dagurinn á Reykjavíkurleikunum, en keppt verður í átta íþróttagreinum og ætti íþróttaáhugafólk að finna eitthvað við sitt hæfi.
Reykjavíkurleikarnir fara fram í ár í átjánda sinn, en það er Íþróttabandalag Reykjavíkur sem stendur að leikunum í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafélögin í Reykjavík ásamt dyggum samstarfsaðilum.
Reykjavíkurleikarnir eru mikil íþróttahátíð þar sem keppt er í þrettán einstaklingsíþróttagreinum. Flestir mótshlutarnir fara fram í Laugardalnum og nágrenni hans. Keppnin stendur yfir til 8 febrúar.
Frekari upplýsingar um Reykjavíkurleikana má finna á rig.is