Frjálsíþróttamót Reykjavíkurleikanna 2025 fer fram í Laugardalshöllinni í kvöld en keppni hefst klukkan 19.30 og lýkur um klukkan 21.10.
Margt af besta frjálsíþróttafólki landsins tekur þátt í mótinu ásamt mörgum erlendum keppendum en flestir þeirra koma frá Bretlandi og munu veita Íslendingum harða keppni í mörgum greinum.
Kúluvarparinn og ólympíufarinn Erna Sóley Gunnarsdóttir og millivegalengdahlauparinn Baldvin Þór Magnússon eru á meðal þátttakenda en um síðustu helgi sló Baldvin Íslandsmet sitt í 3.000 metra hlaupi innanhúss. Hann tekur þátt í 1.500 metra hlaupi í Höllinni í kvöld.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir keppir í 400 metra hlaupi þar sem hún hefur náð góðum árangri undanfarið en Guðbjörg er Íslandsmethafi í bæði 100 og 200 metra hlaupi utanhúss.
Þá keppir Aníta Hinriksdóttir í 1.500 metra hlaupi og langstökkvararnir Birna Kristín Kristjánsdóttir og Irma Gunnarsdóttir fá harða keppni frá hinni bresku Molly Palmer.
Keppt er í níu greinum fullorðinna og nokkrum greinum í flokkum U18 ára.