Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 14 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Fjármála- og vátryggingastarfsemi |
Starfsemi | Starfsemi eignarhaldsfélaga |
Framkvæmdastjóri | Helgi Smári Gunnarsson |
Fyrri ár á listanum | 2014–2018 |
Eignir | 132.877.000 |
Skuldir | 90.853.000 |
Eigið fé | 42.024.000 |
Eiginfjárhlutfall | 31,6% |
Þekktir hluthafar | 10 |
Endanlegir eigendur | 65 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 26 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 0 |
Við erum bara mjög sátt við stöðuna hjá okkur og umhverfið sem við erum í. Við erum ungt félag, bara tíu ára gömul á þessu ári, en samt stórt félag á íslenskan mælikvarða. Okkur hefur tekist að byggja upp sterka einingu sem er að ná árangri fyrir hluthafa okkar, viðskiptavini og samfélagið,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins.
Það er óhætt að segja að félagið hafi vaxið ört. Fram kom í hálfsársuppgjöri Regins að virði fasteignasafns þess næmi 133,8 milljörðum króna. Þá eru í eignasafni Regins rúmir 377 þúsund fermetrar í 119 fasteignum á Íslandi.
„Þegar haft er í huga hvað þetta hefur gerst á skömmum tíma held ég að við megum vera virkilega sátt,“ segir Helgi.
Hafnartorg er líklega umtalaðasta verkefni Regins að undanförnu enda á áberandi stað í miðbænum og skiptar skoðanir um útlit og eðli, en það er alls ekki stærsta eða flóknasta verkefni félagsins, að sögn forstjórans. Hann segir verkefnin sem hafa verið krefjandi og umfangsmikil hafa fyrst og fremst verið þau sem komu til félagsins við stofnun þess á árunum eftir hrun.
„Það eru stóru verkefnin okkar – sem hefur tekist gríðarlega vel að snúa við úr erfiðri stöðu – að taka við þeim verkefnum sem Landsbankinn fékk í fangið. Í þessu samhengi má kannski nefna Egilshöll. Það er verkefni sem við fengum í fangið við mjög erfiðar aðstæður. Þar var allt í uppnámi, rekstur, starfsemi og hálfbyggð hús. Það hefur tekist að snúa því algjörlega við og byggja upp verkefni sem er einstakt á íslenskum markaði. Við erum mjög sátt við þá niðurstöðu.“
Um 1,4 milljónir gesta koma í Egilshöll á hverju ári, svarar Helgi er hann er spurður hvort það hafi verið áskorun að byggja grundvöll að svo umfangsmiklum rekstri í úthverfi.
„Þetta er samfélag sem er mjög skemmtilegt. Þarna er fjölbreytt íþróttastarfsemi. Fótbolti, handbolti, körfubolti, fimleikar, skautar, skotíþróttir og svo eru einkaaðilar með sterkan rekstur eins og World Class, Keiluhöllin, bíó og veitingarekstur. Svo er komin þarna endurhæfingarstöðin Hæfi. Þannig að þetta er fjölbreytt samfélag þar sem íþróttir, afþreying og skemmtun eru allsráðandi, þetta er alls ekki afskekkt heldur hringiðan í Grafarvogi.“
Þá kveðst hann sjá mikil tækifæri fram undan fyrir sterka viðskipta-, atvinnu- og íbúakjarna í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða í samfélagi okkar. Þar er lykillinn meðal annars að breyta samgöngumáta og þétting byggðar.
„Þetta snýst um að það eru ný viðhorf í samfélagi okkar sem snúast um að huga betur að því umhverfi sem við búum í. Minnka sóun, fækka ferðum, minnka eldsneytisnotkun, að fólk búi þar sem það vinnur, verslar og stundar afþreyingu.“
Telur forstjórinn þessar breytingar vinna með frekari uppbyggingu á svæðum sem áður voru hugsanlega talin jaðarsvæði í úthverfum höfuðborgarsvæðisins.
Helgi bendir á að Smáralind, sem er stærsta einstaka eign félagsins, hafi verið í erfiðri stöðu eins og Egilshöll.
„Eins og með Egilshöll keyptum við Smáralind í byrjun árs 2010 og tókum við henni í mjög erfiðu ástandi, tekjur voru hnignandi og nánast allir samningar að renna út eftir nokkur ár. Stærsti leigutakinn var Hagar, sem leigðu yfir 50% af því húsnæði en vildu minnka mikið við sig. Við byrjuðum strax að huga að stöðunni til framtíðar og hvernig við gætum snúið henni við. Á árinu 2014 var ákveðið að ráðast í endurreisnarferil sem taka myndi 4-5 ár. Núna sjáum við mjög skýrt að þessi fimm ára vegferð okkar, sem m.a. hefur þýtt að við fjárfestum fyrir sex milljarða, hefur tekist vel. Það kemur fram í aðsóknartölum og veltu leigutaka.“
Hann segir aðalmarkmið Regins hafa verið að ná inn nýjum sterkum leigutökum og vinna náið með þeim sterku aðilum sem fyrir voru, meðal annars með sterkri áherslu á fatamarkaðinn og vörumerki sem vinsæl eru hjá íslenskum neytendum.
„Það verkefni hefur tekist frábærlega. Í húsinu er nú samsetning alþjóðlegra vörumerkja sem neytendur sækja í, eins og Zara, H&M og Lindex og önnur sterk merki. Þau eru meirihlutinn af leigutökum okkar í Smáralind. Við erum algerlega ófeimin að segja að við höfum spilað stórt hlutverk í því að ná fataverslun heim.“
Það eru þó aðrar leiðir sem eru farnar á Hafnartorgi að sögn forstjórans, enda aðrar áherslur og að hluta annars konar markaður. „Þetta er miðbæjarverslun og við erum að endurvekja verslun í miðbænum.“
Aðspurður segir hann sterk vörumerki komin og á leið í verslunarrými Hafnartorgs.
„Já, þau koma hægt og bítandi, við erum á fínu róli þar. Við erum með sterk alþjóðleg merki og sterka innlenda verslunaraðila. Ný verslunarrými eru stöðugt að opnast,“ segir hann og bendir á að Rolex hafi nýlega opnað verslun á staðnum auk Optical Studio.
„Þetta er á fínni siglingu og erum ágætlega sátt við verkefnið.“ Helgi viðurkennir þó að hann hefði viljað sjá hlutina gerast hraðar, en að það sé nokkuð sem þurfi að sætta sig við þegar um sé að ræða alþjóðlegar keðjur og uppbyggingu stórrar nýrrar verslunareiningar í miðbæ. Það tekur allt mikinn tíma við aðstæður sem þessar, mikilvægt er að hafa þolinmæði og skýra framtíðarsýn.
Spurður hvort verslun Gucci sé væntanleg á Hafnartorg hlær hann og segir spurninguna orðið nokkuð þreytta.
„En auðvitað koma þessi merki einhvern tímann til Íslands og vilja vera í miðbænum, það er alveg á hreinu.“
„Við lærðum af Smáralind að maður þarf að vera reiðubúinn að bíða með leigurými til þess að fá réttu samsetninguna, þar vorum við með leigurými sem við biðum með í eitt og hálft ár fyrir ákveðna leigutaka. Það þýðir ekki að fylla rýmin af bara einhverju,“ útskýrir Helgi.
Þá sé mikilvægt að sýna þolinmæði og vera ekki of gráðugur í að hækka leiguverðið.
„Þetta snýst ekki um að hækka leiguverðið. Þetta snýst um réttu samsetninguna og réttu upplifunina fyrir viðskiptavininn þannig að hann komi aftur og aftur. Þannig byggist þetta upp hægt og rólega.“
Helgi telur að Laugavegurinn sé í tímabundnum erfiðleikum af tveimur tengdum orsökum.
„Gríðarlega mikil uppsveifla í ferðageiranum spennti upp fasteigna- og leiguverð á miklum hraða og út fyrir öll mörk, svo að þegar samdráttur kemur er ekki við neitt ráðið. Leiguverð var bara komið á einhver mörk sem þessir leigutakar þoldu ekki og þess vegna tæmast þessi rými.“
Hann ítrekar að mikilvægt sé að nýta tímann til að finna rétta leigutakann frekar en að hámarka afkomu með hárri leigu. „Þannig er markaðurinn og það þýðir ekkert að bjóða viðskiptavininum eitthvað sem hann vill ekki.“
Þó að Smáralind og Hafnartorg fái mikla umfjöllun eru tæplega 40% af eignasafni Regins í útleigu til opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga.
„Þar er stöðugleikinn sem við sækjumst eftir. Við erum að leigja gríðarlega mikið til Ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar, “ segir forstjórinn og bendir á að um fjölbreytt húsnæði sé að ræða.
„Þetta eru kjarnaviðskipti okkar. Þetta eru sterkir leigutakar og samningar til allt að 25 ára. Við teljum þetta gera okkur frábrugðin öðrum leigufélögum, m.a. gefur þetta allt annan og hagstæðari áhættu prófíl.“