ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

75 Keahótel ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 74
Landshluti Norðurland eystra
Atvinnugrein Rekstur gististaða og veitingarekstur
Starfsemi Hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu
Framkvæmdastjóri Páll Lárus Sigurjónsson
Fyrri ár á listanum 2011–2018
Framúrskarandi 2019

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 1.802.366
Skuldir 770.070
Eigið fé 1.032.296
Eiginfjárhlutfall 57,3%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 6
Eignarhlutur í öðrum félögum 3
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu

pila

Miðlungi áhættumikil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

„Þetta hefur verið krefjandi ár“

Kristján Daníelsson er framkvæmdastjóri rekstrar hjá Keahótelum.
Kristján Daníelsson er framkvæmdastjóri rekstrar hjá Keahótelum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

undanförnum árum hafa miklar breytingar orðið á rekstri Keahótela sem í dag er ein af stærstu hótelkeðjum landsins.

„Áhersla hefur verið á aukinn fjölda hótela sem falla vel að rekstrinum og styrkja enn frekar rekstrargrundvöll félagsins með það að leiðarljósi að auka hagkvæmni og verðmætasköpun,“ segir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Keahótelum.

Upphaf Keahótela í hótelrekstri má segja að hafi verið árið 2000 en það ár tók félagið yfir og sameinaði gistirekstur Hótels Kea og Hótels Hörpu á Akureyri. Ekki leið á löngu þar til fleiri hótel bættust við og á næstu árum bættust Hótel Norðurland, Hótel Gígur og Hótel Björk í Reykjavík við reksturinn. Árið 2005 tóku Keahótel svo yfir reksturinn á Hótel Borg í Reykjavík „sem er eitt glæsilegasta hótelið okkar og má segja að hafi verið ákveðin vatnaskil í rekstri félagsins. Síðan hefur orðið enn meiri vöxtur“, segir Kristján.

Meðal hótela sem Keahótel reka er hin fornfræga Hótel Borg.
Meðal hótela sem Keahótel reka er hin fornfræga Hótel Borg. mbl.is/Styrmir Kári

Þá bættust við þrjú hótel árið 2018. Í júlí það ár tóku Keahótel við rekstrinum á Hótel Kötlu við Vík í Mýrdal og var ráðist í miklar endurbætur á hótelinu, bæði gistirýmum og veitingasal, og mun endurbótum verða haldið áfram í vetur. Exeterhótel var opnað í ágúst 2018 en það er nýtt hótel við Tryggvagötu í Reykjavík. Sama mánuð tók hótelkeðjan yfir reksturinn á Sandhóteli á Laugavegi. Hótelin eru nú orðin ellefu með samtals 911 herbergi og eru á fimmta hundrað starfsmenn hjá keðjunni.

„Þannig að þetta hefur vaxið mjög mikið og því fylgja eðlilegir vaxtarverkir. Svo erum við að koma inn í öðruvísi tíma núna og það eru öðruvísi verkefni sem koma með því,“ útskýrir framkvæmdastjórinn.

Kristján kveðst ekki geta sagt til um hvort félagið hyggi á frekari vöxt og fjölgun hótela að svo stöddu.

„Ég held við munum fylgjast vel með markaðnum. Óneitanlega myndast tækifæri í svona umhverfi og við höfum vaxið mjög hratt, en við erum í innviðastyrkingu núna.“

Breytt stefna vegna fækkunar ferðamanna

Árið 2019 hefur verið krefjandi fyrir hótelkeðjuna eins og önnur fyrirtæki í ferðamannaiðnaðinum, en í sumar komu 678 þúsund erlendir ferðamenn til landsins borið saman við 803 þúsund ferðamenn sumarið í fyrra.

„Samhliða hlutfallslegri hækkun rekstrarkostnaðar og fækkun ferðamanna til landsins þarf að horfa í öll horn. Ef við skoðum bara sumarið þá er heildarfækkunin 16% og fækkun Bandaríkjamanna 35%. Við höfum verið með mikinn fjölda af bandarískum ferðamönnum og höfum þess vegna þurft að breyta okkar stefnu til að mæta þessu,“ útskýrir Kristján sem jafnframt bendir á að um 28% allra ferðamanna sem hingað koma hafi verið frá Bandaríkjunum.

Þá hefur ferðamönnum frá Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Kanada fækkað nokkuð. Á móti hefur ferðamönnum frá Kína fjölgað um 11,5% frá sama tíma í fyrra en þeir eru um 5% ferðamanna sem koma til landsins. Jafnframt var herbergjanýting í sumar minni en á sama tíma í fyrra eða um 4 til 5,2% eftir mánuðum, en hún hefur þó ekki minnkað alveg í takt við fækkun ferðamanna.

Er hann er spurður um framtíðarhorfur greinarinnar og þróun í komu ferðamanna á næstu árum segist hann því miður ekki eiga kristallskúlu.

„En það sem stendur aðallega í vegi fyrir því að horfa til framtíðar er óvissa. Ef við lítum bara til næsta árs er óvissa um fjölda ferðamanna og framboð á flugi. Þetta eru mjög stórir óvissuþættir fyrir reksturinn og það þarf að hafa það í huga þegar horft er fram á við, þetta gerir alla áætlanagerð og skipulag erfitt.“

Meðal hótela sem keahótel reka er hið nýja og glæsilega …
Meðal hótela sem keahótel reka er hið nýja og glæsilega Exeter-hótel í hjarta miðbæjarins. Karl Smith

Harðnandi samkeppni

Spurður hvort það sé áskorun að kljást við slíkt rekstrarumhverfi segir hann svo vera.

„Já, það er krefjandi, en þessu mætum við með því að að styrkja innviði, efla þjónustu og vera tilbúin að mæta breyttum aðstæðum. Þetta hefur verið krefjandi ár.“

Þá hafi í kjölfar fækkunar ferðamanna orðið harðnandi samkeppni sem hafi leitt til lækkunar á verði. Bókunarglugginn hefur styst talsvert og hefur afbókunum með stuttum fyrirvara fjölgað, að sögn Kristjáns.

„Þrátt fyrir þetta hefur nýting hjá okkur verið nokkuð í takt við áætlanir,“ bætir hann við. „Við teljum að lykillinn að áframhaldandi árangri þegar eftirspurn minnkar felist í þjónustu og upplifun gesta ásamt tækninýjungum og þróun kerfa sem gerir okkur enn frekar kleift að veita ferðaskrifstofum, fyrirtækjum og einstaklingum framúrskarandi þjónustu. Góð þjónusta og að skila því sem lofað er eru mikilvægustu þættirnir í þessum geira.“

Starfsfólkið mikilvægur þáttur

Framkvæmdastjórinn segir grundvöllinn að því að mæta breyttu markaðsumhverfi vera að styrkja innviði félagsins. „Félagið stendur traustum fótum og er með gott bakland. Félagið leggur mikinn metnað í það að vera með faglegan rekstur. Það sem gerist í þessu umhverfi í dag er að maður þarf að horfa inn á við og við leggjum mikla áherslu á að styrkja innviði fyrirtækisins núna. Við erum að fjárfesta í nýrri tækni og nýjum kerfum til að mæta aukinni samkeppni.“

Hann telur hins vegar ekki líklegt að ný tækni muni draga verulega úr launakostnaði.

„Í raun er ekki auðvelt fyrir fyrirtæki í hótelrekstri að fækka starfsfólki til þess að auka afköst þar sem þetta er þjónustuumhverfi og það breytist líklega ekki. Styrking tæknilegu innviðanna eru til þess að mæta þessum breyttu markaðsaðstæðum, sjá fyrir hornin og vera tilbúin fyrir þær breytingar sem fram undan eru.“

Kristján segir starfsfólkið mikilvægan þátt í því sem hótelin selja. „Það sem er mikilvægt fyrir okkur eru verkefni eins og þau sem eru þegar í gangi. Við erum að bæta í þjónustuna, við erum að bæta þjálfun starfsmanna og leggjum áherslu á upplifun til þess að vera samkeppnishæfari. Starfsfólkið er aðaldrifkrafturinn í þeirri vinnu vegna þess að við erum með svo mikið af fólki sem er í beinum samskiptum við viðskiptavininn eða það sem hann er að upplifa. Við erum mjög stolt af því að við höfum vaxið mjög mikið í ánægju, upplifun og þjónustu meðal gesta.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar