Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 126 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum |
Starfsemi | Heildverslun með fast, fljótandi og loftkennt eldsneyti og skyldar vörur |
Framkvæmdastjóri | Guðrún Ragna Garðarsdóttir |
Fyrri ár á listanum | 2014 |
Eignir | 4.229.967 |
Skuldir | 3.065.506 |
Eigið fé | 1.164.461 |
Eiginfjárhlutfall | 27,5% |
Þekktir hluthafar | 1 |
Endanlegir eigendur | 2 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 1 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 0 |
Það má eflaust fullyrða að enn þann dag í dag njóti Atlantsolía sérstakrar velvildar hjá hópi neytenda fyrir það að hafa stóraukið samkeppni á íslenskum eldsneytismarkaði. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 og opnaði sína fyrstu bensínstöð í lok árs 2003. Á þeim tíma skiptu þrjú stór olíufélög markaðinum á milli sín, en Atlantsolía ruddi brautina fyrir aukna samkeppni og eru seljendur eldsneytis á bíla núna orðnir sex talsins.
Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að upphafsmenn Atlantsolíu hafi hvergi verið bangnir, þó að mótbyrinn hafi verið mikill.
„Upphaflega stóð til að félagið sinnti fyrst og fremst sölu eldsneytis á skip en nánari skoðun leiddi í ljós að það yrði mun erfiðara að fara inn á þann markað en inn á markaðinn fyrir bifreiðaeldsneyti,“ segir hún. „Þá vildi svo heppilega til, þegar fyrirtækið er að taka á sig mynd, að einstaklingur sem átti bensínstöð við Kópavogsbraut var tilbúinn að selja hana til Atlantsolíu þegar eftir því var leitað. Sú stöð var því fyrsta bensínstöðin sem félagið opnaði.“
Eins og gefur að skilja var smæðin til trafala í fyrstu og var eldsneytið flutt inn með gámaskipum, í sérstökum tönkum.
„Á þeim tíma var hvorki hægt að komast að í þeim olíugeymslum sem fyrir voru í landinu, né heldur að nýta dreifingarnetið, en það hefur breyst m.a. vegna aðgerða samkeppniseftirlitsins til að lækka aðgangshindranir inn á markaðinn. Við þurftum hins vegar að byggja okkar eigin birgðastöð, koma upp okkar eigin dreifikerfi, og gera það allt frá grunni.“
Atlantsolía markaði sér strax þá sérstöðu að reka aðeins sjálfsafgreiðslustöðvar, lausar við allt prjál.
„Við kynntum líka dælulykilinn til leiks og var það í fyrsta skipti sem einstaklingar áttu kost á afslætti af eldsneyti sem umbun fyrir að halda tryggð við fyrirtækið. Varð það til þess að okkur tókst nokkuð hratt að byggja upp góðan viðskiptavinagrunn.“
Olíufélagið hefur stækkað tiltölulega jafnt og þétt en fjöldi bensínstöðva tók þó nýlega kipp þegar samkeppnisyfirvöld úrskurðuðu að samruni olíufyrirtækis og matvöruverslanakeðju yrði háður sölu á fimm bensínstöðvum. Atlantsolía keypti þær allar og byggði eina nýja til viðbótar, svo að samtals bættust við sex stöðvar á þessu ári. Eru benínstöðvar Atlantsolíu núna 25 talsins og dreifast um alla landshluta að Vestfjörðum undanskildum. Flestar eru bensínstöðvarnar á stór-höfuðborgarsvæðinu og selur Atlantsolía eldsneyti eingöngu í þéttbýli. Markaðshlutdeild fyrirtækisins er um 10%.
Samkeppnin er hörð, og sala á eldsneyti er enginn dans á rósum. Aðspurð hvað hafi hjálpað til að halda rekstrinum á réttri braut segir Guðrún að það hafi breytt miklu að hafa skýra stefnu allt frá upphafi: að félagið myndi eingöngu selja eldsneyti, og þá eingöngu í sjálfsafgreiðslu.
„Það var aldrei inni í myndinni að vera með einhvern hliðarrekstur, s.s. matsölu eða smurþjónustu. Í staðinn höfum við einbeitt okkur 100% að þessum tveimur vörutegundum: bensíni og dísilolíu,“ útskýrir Guðrún.
„Vitaskuld einfaldar það reksturinn á vissan hátt að hafa vöruframboðið ekki flóknara, en um leið þá fylgja þessari stefnu töluverðar áskoranir enda eru allir samkeppnisaðilar okkar að selja sömu vöruna, og þá spurning hvað hægt er að gera til að laða viðskiptavinina til okkar og missa þá ekki annað.“
Hún segir það líka mun auðveldara fyrir nýja aðila að koma inn á olíumarkaðinn í dag en árið 2003, en þó séu enn til staðar hindranir sem getur verið erfitt að yfirstíga. „Stærsta hindrunin er að fá lóð undir bensínstöð, og rekstrarforsendurnar allt aðrar hjá þeim sem hafa fengið lóðum úthlutað frá sveitarfélögum og hjá hinum sem þurfa að leigja lóðir,“ upplýsir Guðrún.
Er breytilegt á milli sveitarfélaga hversu snúið er að fá hentuga lóð. Á sumum stöðum eru sveitarstjórnirnar ólmar að fá meiri samkeppni á bensínmarkaðinn á sínu svæði á meðan annars staðar er illgerlegt að komast að.
„Í langan tíma hefur verið mjög erfitt að fá lóð í Reykjavík. Þar hefur nú verið ákveði að fækka bensínstöðvum, og var þó á brattann að sækja löngu áður en sú stefna var mörkuð. Samkeppniseftirlitið hefur beint tilmælum til sveitarfélaganna að horfa til samkeppnisþátta við lóðaúthlutun, en getur ekki gert meira en það.“
Ýmsar áskoranir eru framundan og verður áhugavert að sjá hvernig Atlantsolía mun t.d. bregðast við nú þegar hlutfall rafmagnsbíla í bílaflota landsmanna hækkar ár frá ári. Guðrún segir það vitaskuld hafa áhrif á söluna að bílar verða sífellt sparneytnari en á móti hjálpi það olíufélögunum að ferðamenn streyma til landsins og þurfa að fylla á tankinn á leið sinni um hringveginn.
„Við höfum ekki fengið svo stóran bita af túrista-kökunni, enda ekki með margar stöðvar úti á landi,“ segir Guðrún og bætir við að þótt rafmagnsbílar kroppi í markaðinn séu bensín- og dísilbílar ekki að fara að hverfa af götunum í bráð.
Hún á ekki von á að Atlantsolía taki þátt í rafvæðingunni, s.s. með því að setja upp hraðhleðslustöðvar, enda má vænta þess að flestir eigendur rafbíla stingi í samband heima hjá sér og í vinnunni, og helst þörf á hraðhleðslustöðvum við hringveginn.
Ýmsar hugmyndir hafa komið til skoðunar, s.s. að nýta tilteknar lóðir Atlantsolíu með öðrum hætti, og mögulega hleypa þar að annarri starfsemi. Þá sé stöðugt leitað leiða, í sífellt harðnandi samkeppni, til að hagræða og þannig hætti Atlantsolía t.d. að reka eigið dreifikerfi.
„Nýir aðilar hafa komið til sögunnar og hrist upp í markaðinum. Við fórum út í þann slag af fullum krafti og fundum leiðir til að hagræða enn meira í rekstirnum. Vorum við áður með 19 starfsmenn og 19 stöðvar, en rekum í dag 25 stöðvar með 10 starfsmenn.“