ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

30 Vörður tryggingar hf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 30
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Fjármála- og vátryggingastarfsemi
Starfsemi Skaðatryggingar
Framkvæmdastjóri Guðmundur Jóhann Jónsson
Fyrri ár á listanum 2012–2019
Framúrskarandi 2020

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 24.988.565
Skuldir 16.869.922
Eigið fé 8.118.643
Eiginfjárhlutfall 32,5%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 2
Endanlegir eigendur 81
Eignarhlutur í öðrum félögum 3
Endanleg eign í öðrum félögum 33

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni FJÁRMÁLA- OG VÁTRYGGINGASTARFSEMI

pila

Mjög áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Sjálfbærnin kom frá grasrótinni

„Þessi verðlaun eru fyrst og fremst mikil hvatning fyrir starfsfólk félagsins,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, spurður um þýðingu þess að fá verðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð.

„Við höfum unnið að þessum málum í um áratug og fólki finnst eiginlega aldrei nóg að gert. Þetta er afskaplega góð viðurkenning fyrir það starfsfólk sem hefur unnið að þessum málum allan þennan tíma. Verðlaunin hvetja okkur áfram til góðra verka.“

Guðmundur segir að fyrst þegar félagið fór að huga að sjálfbærni og samfélagsábyrgð hafi það snúist um að flokka rusl og úrgang frá fyrirtækinu. „Það þótti kannski ekki merkilegt alveg í byrjun, en síðar fylgdu jafnréttismálin í kjölfarið. Við höfum alltaf tekið jafnréttismálin föstum tökum og árið 2014 urðum við fyrsta fjármálafyrirtækið til að fá jafnlaunavottun.“

Spratt innan úr fyrirtækinu

Guðmundur segir að vinnan er snýr að sjálfbærni og samfélagsábyrgð hafi upphaflega verið unnin af grasrótarhópi innan Varðar, sem sé mjög skemmtileg staðreynd. Þannig hafi þessi mál sprottið innan úr fyrirtækinu, en ekki komið að ofan, frá framkvæmdastjórum eða forstjóra. „Þeir sem brunnu mest fyrir þessu tóku þátt og þróuðu málaflokkinn áfram, sem síðar varð hluti af stefnu félagsins. Nú höfum við skýra stefnu um sjálfbærni sem sett er af stjórn og tryggir hún innleiðingu stefnunnar. Forstjóri og framkvæmdastjórn bera ábyrgð á innleiðingu sjálfbærnistefnunnar og að eftir henni sé farið en allt starfsfólk tekur þátt í vegferðinni. Ég er stoltur af því að þetta skuli hafa gerst með þessum hætti.“

En hvaða sérstöku sjálfbærniverkefnum geta tryggingafélög, umfram önnur fyrirtæki, unnið í?

„Fyrir utan það sem gert er innan vinnustaðarins, þá erum við að feta okkur lengra áfram í átt að samfélagslega ábyrgum fjárfestingum. Við erum að móta nýja fjárfestingarstefnu um þessar mundir þar sem þetta spilar inn í fjárfestingarákvarðanir. Þar er lögð áhersla á að beina fjárfestingum til útgefenda verðbréfa sem sýna samfélagslega ábyrgð í sinni starfsemi.“

Ekki nægt úrval af verðbréfum

Spurður hvort nægt úrval sé af samfélagslega ábyrgum fjárfestingarkostum segir Guðmundur að svo sé kannski ekki. Enn sem komið er sé ekki nægt úrval af verðbréfum sem henti í eignasafn tryggingafélags, en markaðurinn þróist hratt til betri vegar og svari kröfum fjárfesta.

Guðmundur segir að einnig sé það mat félagsins að það geti haft áhrif til góðs í gegnum tjónastarfsemina, enda sé Vörður stór kaupandi að viðgerðum á bílum og húsum. Þar sé hægt að horfa til þess hvernig birgjarnir standi sig í umhverfismálum og samfélagsábyrgð, eins og með förgun, jafnrétti og annað. „Það er mikilvægt til að koma góðu til leiðar og vinna með aðilum, í stað þess að koma fyrirvaralítið með grjótharðar kröfur í þessum efnum.“

Hann bætir við að í einhverjum tilfellum þurfi fyrirtæki sem vilja vera samfélagslega ábyrg að sætta sig við að vera ekki að „hámarka krónuna“ í öllum tilvikum, eins og Guðmundur orðar það. Í staðinn fáist til lengri tíma betra samfélag og umhverfi. „Stundum er ég spurður hvað við græðum á þessu, en þá svara ég að til lengri tíma sé heimurinn undir og velferð okkar allra.“

Allir vilja gera vel

Eru fyrirtæki almennt að gera nóg í sjálfbærnimálum?

„Ég held að allir séu á vagninum og vilji gera vel. Það getur verið erfitt að breyta fyrirtæki í einu vetfangi sem starfað hefur í áratugi, en þetta kemur stig af stigi. Þetta á ekki að vera markaðs- og kynningarmál heldur þarf að vera raunverulegur vilji til að láta verkin tala.“

Getur Vörður beitt sér til að ná fram sjálfbærni hjá einstaklingum?

„Tryggingafélög eru sífellt að þróa áhættumat sem snýr að einstaklingum jafnt og fyrirtækjum. Almennt er það þannig að ábyrgir einstaklingar sem gæta að umhverfi sínu og öryggi eru áhættuminni viðskiptavinir og njóta þess þegar í verðlagningu á tryggingum.“

Vörður er eitt af fjórum stærstu tryggingafélögum á landinu á eftir TM, Sjóvá og VÍS. „Þegar ég hóf störf hjá fyrirtækinu í árslok 2006 vorum við með sex prósent hlutdeild á tryggingamarkaði, en núna 14 árum síðar er hlutdeildin komin upp í 17%,“ segir Guðmundur.

Nýjungar í þjónustu

Spurður um nýjungar í rekstrinum segir Guðmundur að tryggingageirinn taki ekki hröðum breytingum, en í dag snúi það helst að því hvernig viðskiptavinurinn er þjónustaður. „Þessi misserin eru tryggingafélögin öll að fjárfesta mikið í stafrænni vegferð. Við fórum seinna af stað en íslensku bankarnir, og erum enn dálítið eftir á þar. En okkar markmið er ekki að vera alfarið stafræn, heldur leyfa viðskiptavinum að velja hvort þeir vilji eiga við okkur viðskipti á stafrænan máta eða eiga samtal við starfsmann. Vegferð Varðar markast af því að við viljum vera stafræn en mannleg.“

Byggt upp sjálfbærnimenningu

Hvatningarverðlaun Creditinfo og Festu fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð 2020 fær Tryggingafélagið Vörður, en í dómnefnd sátu Sæmundur Sæmundsson formaður, Gréta María Grétarsdóttir og Gunnar Sveinn Magnússon.

Sæmundur segir í samtali við ViðskiptaMoggann að dómnefnd hafi verið verulegur vandi á höndum þetta árið þar sem mikil vitundarvakning hafi átt sér stað meðal eigenda og stjórnenda íslenskra fyrirtækja síðustu misseri um mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar, sem nú er oftar vitnað til sem sjálfbærni.

„Það er afar ánægjulegt að sjá hversu mörg fyrirtæki taka sjálfbærni sífellt fastari tökum, enda sýna ótal kannanir að þeim fyrirtækjum sem vefa sjálfbærni inn í sinn

daglega rekstur og taka á samfélagslegri ábyrgð á öllum sviðum síns rekstrar

vegnar betur en öðrum. Þetta skilar sér einfaldlega í betri niðurstöðum í rekstrarreikningnum þegar upp er staðið,“ segir Sæmundur.

Sæmundur segir að fyrirtækið Vörður, sem hlýtur viðurkenninguna í ár, beri það með sér að þar á bæ geri stjórnendur og starfsfólk sér grein fyrir að samfélagsleg ábyrgð er vegferð og langhlaup þar sem stöðugt þarf að gera betur, rétt eins og í öðrum þáttum rekstrarins.

„Unnið hefur verið markvisst með samfélagslega ábyrgð frá árinu 2012 og með tímanum hefur sjálfbærni náð inn í fleiri þætti rekstrarins.“

Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar tekur við viðurkenningu Creditinfo fyrir …
Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar tekur við viðurkenningu Creditinfo fyrir framúrskarandi árangur á sviði samfélagsábyrgðar. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Kolefnisjöfnun frá 2016

Eins og Sæmundur útskýrir þá hefur kolefnisspor fyrirtækisins verið reiknað frá 2013 og starfsemin kolefnisjöfnuð frá 2016. „Þetta fyrirtæki hefur sett sér skýra stefnu í þessum málaflokki þar sem horft er til allra þátta, ekki bara umhverfismála, og það tengir kjarnastarfsemi sína við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.“

Fyrirtækið hefur að sögn Sæmundar í nokkur ár sett sér mælanleg og tímasett markmið og birtir opinberlega niðurstöður á hverju ári þar sem auðvelt er að sjá hvort markmiðin nást eða ekki. Þar sé horft til sjálfbærnisjónarmiða, bæði við fjárfestingar og í samstarfi við birgja. „Verði hefur tekist að byggja upp sjálfbærnimenningu með breiðri þátttöku starfsfólks.“

Sæmundur Sæmundsson er formaður dómnefndarinnar sem veitir verðlaunin fyrir framúrskarandi …
Sæmundur Sæmundsson er formaður dómnefndarinnar sem veitir verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsábyrgðarmálum. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar