Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 80 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta |
Starfsemi | Innheimtuþjónusta og upplýsingar um lánstraust |
Framkvæmdastjóri | Brynja Baldursdóttir |
Fyrri ár á listanum | 2010–2019 |
Eignir | 1.285.642 |
Skuldir | 546.109 |
Eigið fé | 739.533 |
Eiginfjárhlutfall | 57,5% |
Þekktir hluthafar | 2 |
Endanlegir eigendur | 9 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 0 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 0 |
Gengið hefur á ýmsu í íslensku efnahagslífi á þeim ellefu árum sem Creditinfo hefur veitt viðurkenningar fyrir Framúrskarandi fyrirtæki. Að sögn Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo, var hugmyndin með Framúrskarandi fyrirtækjum fyrst og fremst sú að búa til heilbrigðisvottorð fyrir fyrirtæki sem hafa sýnt fram á styrk og stöðugleika í rekstri. „Það hefur aldrei verið markmið að verðlauna fyrirtæki fyrir gróða eða skammtíma uppgrip,“ segir Brynja. „Það er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að vita hvernig fyrirtækin í landinu standa og hvaða fyrirtæki það eru sem standa sig vel. Á þessum ellefu árum hefur vottunin fest sig í sessi og sannað sig sem staðfesting á góðum rekstri, sem markaðurinn tekur gilda. Það þýðir að fyrirtækin á listanum nota vottunina til að fá betri fyrirgreiðslu, bæði hér innanlands og utan.
Það hefur kostað mikla vinnu að byggja upp traust á þessa vottun. Við skoðum fyrirtækin á listanum mjög vel og greinum út frá mörgum mælikvörðum áður en listanum er lokað. Skilyrðin hafa sannað sig gegnum árin og við höfum unnið margar greiningar til að vera þess fullviss að þau endurspegli þau fyrirtæki sem eru raunverulega í úrvalsdeild í rekstri. Þetta er eina vottunin á Íslandi sem leggur að grundvelli þriggja ára árangur auk þess sem við notum lánshæfismatið sem grípur það ef nýlega er tekið að halla undan fæti, þ.e. eftir að síðasta ársreikningi var skilað.
Nú þegar miklar áskoranir blasa við fyrirtækjum er slík vottun mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Við sáum það í síðustu kreppu að þau fyrirtæki sem uppfylltu Framúrskarandi skilyrðin komu mun betur út úr henni en meðaltalið. Það þýðir ekki að öll fyrirtæki á listanum verði hólpin, því miður, en þessi fyrirtæki hafa meira borð fyrir báru þegar á reynir.“
Spurð að því hvort eitthvað hafi komið á óvart við vinnslu listans þetta árið segir Brynja að það hafi komið skemmtilega á óvart hvað fyrirtækjum fækkaði lítið á listanum frá fyrra ári. „Áður en COVID-19-faraldurinn skall á var þegar orðið útlit fyrir að einhver samdráttur yrði í íslensku efnahagslífi,“ segir Brynja. „Það kom því skemmtilega á óvart við vinnslu listans í ár að sjá að fækkun fyrirtækja á listanum var hlutfallslega lítil frá árinu áður þrátt fyrir það sem á undan hefur gengið og þrátt fyrir þær áskoranir sem íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir um þessar mundir.
Einnig vakti það athygli okkar að ferðaþjónustufyrirtækjum fækkar á meðan fyrirtækjum í byggingar- og mannvirkjagerð fjölgar. Áhrifin af falli Wow air koma berlega í ljós í ársreikningum ferðaþjónustufyrirtækja fyrir árið 2019 auk þess sem einhverra áhrifa frá COVID-19-faraldrinum er þegar farið að gæta í rekstri þeirra. Þau ferðaþjónustufyrirtæki sem eftir standa á listanum eiga erfitt verk fyrir höndum næstu misseri en þau standa vissulega sterkari fótum en flest önnur.
Það er skemmtilegt að sjá þessa fjölgun byggingarfyrirtækja á listanum ár frá ári. Það ber vissulega vott um breyttar aðstæður í efnahagslífinu en einnig að það eru fleiri byggingarfyrirtæki sem standa stöðugum fótum og sýna ráðdeild í rekstri, sem eru mjög jákvæð merki. Það verður áhugavert að sjá hvaða áhrif innspýting stjórnvalda í innviðaverkefni mun hafa á þennan geira.
Það má líka nefna það að það eru jákvæð teikn á lofti í kynjasamsetningu í stjórnum og framkvæmdastjórnum Framúrskarandi fyrirtækja. Hlutfall kvenna í stjórnum Framúrskarandi fyrirtækja jókst um eitt prósentustig frá fyrra ári í 25%, sem er örlítið hærra en meðaltal allra fyrirtækja, og hlutfall kvenframkvæmdastjóra jókst úr 12% í 13%. Þetta hlutfall er auðvitað enn allt of lágt og við vonumst til að sjá að það haldi áfram að vaxa.“
Framúrskarandi fyrirtækjum hefur fjölgað nokkuð frá því viðurkenningin var fyrst veitt. Spurð að því hvort þróun á fjölda Framúrskarandi fyrirtækja hafi eitthvað að segja um stöðu og horfur í hagkerfinu segir Brynja að líta megi á Framúrskarandi-vottunina sem ákveðinn hitamæli á heilbrigði íslensks atvinnulífs. „Á þessum ellefu árum höfum við séð fjölda fyrirtækja sem uppfylla skilyrðin vaxa úr 178 árið 2010 upp í 842 í ár, sem endurspeglar efnahagsvöxtinn sem við höfum séð hér frá hruni og er auðvitað fagnaðarefni.
Það hvað fyrirtækin á listanum eru orðin mörg skiptir gífurlega miklu máli, því þetta eru fyrirtækin sem eru líklegust til að komast í gegnum kreppuna sem nú blasir við. Framúrskarandi fyrirtækjum hefur fækkað lítillega á milli ára og það gefur einhverja vísbendingu um að það hafi verið einhver kólnun í íslensku atvinnulífi óháð COVID. Sú staðreynd að fækkunin er hlutfallslega lítil er hins vegar gott merki um að íslenskt atvinnulíf stendur sterkum fótum, sem skiptir máli í því áfalli sem COVID-19-faraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf.
Við gerum svo ráð fyrir talsverðri fækkun á listanum á næsta ári þegar áhrif Covid munu koma betur í ljós. Við munum vonandi sjá sem flest af þeim fyrirtækjum á listanum aftur innan nokkurra ára.“
Brynja bætir því við að líta megi á fyrirtækin sem uppfylla skilyrðin sem þarf til að verða Framúrskarandi fyrirtæki sem bakbeinið í íslensku atvinnulífi. „Það skiptir máli að verðlauna fyrirtæki fyrir góðan árangur í rekstri, ekki bara fyrir eitt ár í einu heldur fyrir þrautseigju í rekstri yfir tíma,“ segir Brynja. „Vinna okkar við að útbúa lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki snýst ekki um að verðlauna fyrirtæki fyrir mikinn gróða, þótt myndarlegur hagnaður sé oft fylgifiskur framúrskarandi reksturs. Við viljum verðlauna fyrirtæki fyrir stöðugan rekstur og við finnum svo sannarlega fyrir því á tímum heimsfaraldurs hvað stöðugur og heilbrigður rekstur skiptir miklu máli þegar á reynir.
Reynsla okkar af efnahagshruninu 2008 sýnir að það eru Framúrskarandi fyrirtæki sem eru líklegust til að standa af sér erfiðleika á borð við þá sem við stöndum öll frammi fyrir núna vegna COVID-19-faraldursins. Það skiptir líka máli fyrir hagkerfið í heild að hér starfi öflug fyrirtæki sem skapa störf og verðmæti til langs tíma.
Við þetta má bæta að það skiptir máli að hafa sýnileg gögn um heilbrigði atvinnulífsins til að geta haft góða mynd af stöðunni hverju sinni. Við höfum lesið ótal fréttir síðastliðna mánuði um fyrirtæki sem hafa farið í gjaldþrot eða tapað miklu á faraldrinum en beinum ekki nógu oft sviðsljósinu á fyrirtæki sem standa sterkum fótum. Þess vegna skiptir okkur miklu máli að vera í samstarfi við Morgunblaðið um að vekja athygli á þessum Framúrskarandi fyrirtækjum sem eru mörg hver ekki í sviðsljósi fjölmiðla dagsdaglega.“
Spurð að því hvaða áhrif COVID-19-faraldurinn hafði á vinnslu listans yfir Framúrskarandi fyrirtæki segir Brynja að faraldurinn hafi haft í för með sér miklar áskoranir. „Á hverju ári fer mikil vinna hjá starfsfólki Creditinfo í að setja saman lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki,“ segir Brynja. „Við kappkostum að tryggja gæði listans og að hvert og eitt fyrirtæki á listanum stundi heilbrigðan rekstur. Vinnsla listans byggist að mestu á niðurstöðum ársreikninga en því til viðbótar bætum við skilyrðum um að fyrirtæki þurfi að vera með gott lánshæfismat. Þannig náum við að sigta út fyrirtæki sem voru kannski í góðum málum árinu áður en hafa lent í erfiðleikum á þessu ári.
Vegna COVID-19-faraldursins þurftum við að rýna öll fyrirtækin á listanum gaumgæfilega til að tryggja að á honum væru aðeins fyrirtæki sem stæðu sterkum fótum út þetta ár. Mörg fyrirtæki eru hins vegar búin að fá frystingu lána og njóta ýmissa úrræða frá stjórnvöldum sem gerir það að verkum að áhrifa faraldursins er enn ekki farið að gæta að fullu í lánshæfismatinu. Þess vegna þróuðum við í vor sérstakan mælikvarða á óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna COVID-faraldursins í samstarfi við Creditinfo í Eistlandi, Lettlandi og Tékklandi. Mælikvarðinn nefnist COVID-váhrifamat og með honum gátum við flokkað fyrirtæki eftir því hversu mikil áhrif faraldurinn gæti haft á rekstur fyrirtækjanna. Með því að greina fyrirtæki með tilliti til COVID-váhrifamats og lánshæfismats gátum við fengið glögga mynd af stöðu allra þeirra fyrirtækja sem komu til greina sem Framúrskarandi fyrirtæki.“
Samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki hefur Creditinfo veitt sérstök hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð og framúrskarandi nýsköpun. Brynja telur að íslensk fyrirtæki séu í auknum mæli farin að taka þessa þætti alvarlega. „Með því að veita sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð og framúrskarandi nýsköpun viljum við hvetja fyrirtæki til góðra verka í þessum efnum,“ segir Brynja. „Þar sem erfitt er að mæla þessa þætti með beinum hætti fórum við þá leið að setja saman dómnefnd í hvorum flokki fyrir sig sem greinir Framúrskarandi fyrirtæki með tilliti til þessara þátta. Okkur þótti mikilvægt að faglegasta nálgunin væri farin við að velja þau fyrirtæki sem fá verðlaunin og höfum átt frábært samstarf við Festu og Icelandic Startups um að skipa dómnefndirnar fagfólki og þróa mælikvarðana ár frá ári. Okkar von er líka sú að verðlaunin dragi fram fyrirmyndir í samfélagsábyrgð og nýsköpun í rekstri.
Við getum sagt frá því núna að frá og með næsta ári munum við bæta við mælikvörðum um sjálfbærni í rekstri sem verður eitt af skilyrðum þess að fyrirtæki teljist Framúrskarandi. Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum svo að til séu mælikvarðar fyrir sjálfbærni og að þeir verði aðgengilegir og nýttir til mats á fyrirtækjum á sama hátt og upplýsingar úr ársreikningum.
Við munum taka þetta í skrefum og byrja smátt en þegar fram líða stundir sjáum við fyrir okkur að mæla þessa þætti með umfangsmeiri hætti. Það skiptir miklu máli að fyrirtæki sem vilja ná árangri í sjálfbærni geti stuðst við mælikvarða og sett sér raunhæf markmið í þessum efnum.“
Algengt er að sjá íslensk fyrirtæki auglýsa það að þau séu Framúrskarandi fyrirtæki. Spurð að því hvort vitund fyrirtækja og almennings gagnvart viðurkenningunni hafi breyst á síðastliðnum árum segist Brynja finna fyrir því. „Nú eru ellefu ár liðin frá því að við fórum að veita viðurkenninguna fyrst og umfangið í kringum Framúrskarandi fyrirtæki hefur svo sannarlega aukist á þeim tíma. Á sama tíma og fyrirtækjum hefur fjölgað á listanum hefur hagkerfið vaxið umtalsvert, enda hófum við þessa vegferð stuttu eftir efnahagshrunið 2008. Það var algengur misskilningur hér á árum áður að viðurkenningin snerist um að verðlauna fyrirtækin sem græða mest en nú held ég að flestir séu meðvitaðir um að Framúrskarandi fyrirtæki eru fyrirtæki sem hafa sýnt fram á stöðugleika og ábyrgð í sínum rekstri. Framúrskarandi fyrirtæki vilja líka mörg hver flagga þessum árangri, ekki bara í auglýsingum heldur nota þau vottunina í samskiptum við erlenda birgja og í atvinnuauglýsingum svo dæmi séu tekin.
Það skiptir máli fyrir íslenskt efnahagslíf að sem flest fyrirtæki stundi heilbrigðan og stöðugan rekstur. Okkar von er sú að með því að veita þessa viðurkenningu náum við að draga fram jákvæðar fyrirmyndir fyrir íslenskt atvinnulíf svo það nái áfram að blómstra. Á þessum krefjandi tímum sem við stöndum frammi fyrir núna er sérstaklega mikilvægt að hvetja íslenskt atvinnulíf til dáða og fagna framúrskarandi árangri í rekstri.“