Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 146 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi |
Starfsemi | Starfsemi verkfræðinga og skyld tæknileg ráðgjöf |
Framkvæmdastjóri | Sveinn Ingi Ólafsson |
Fyrri ár á listanum | 2010, 2011, 2012, 2017, 2018, 2019 |
Eignir | 1.613.762 |
Skuldir | 865.785 |
Eigið fé | 747.977 |
Eiginfjárhlutfall | 46,3% |
Þekktir hluthafar | 9 |
Endanlegir eigendur | 8 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 24 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 31 |
Það má heyra á Sveini Inga Ólafssyni að það gleður hann að Verkís skuli hafa verið valið Framúrskarandi fyrirtæki sjö ár í röð. „Þessi viðurkenning sýnir að rekstur fyrirtækisins er traustur og stöðugur og er til marks um að við eigum að hafa þann kraft sem þarf til að halda ótrauð áfram,“ segir hann.
Verkís var stofnað í núverandi mynd árið 2008 með sameiningu nokkurra verkfræðistofa. Rætur verkfræðistofunnar liggja aftur á móti allt aftur til ársins 1932 þegar Sigurður Thoroddsen stofnaði fyrstu verkfræðistofu landsins. Í dag starfa um 300 manns hjá Verkís og felst þjónusta fyrirtækisins einkum í hönnun en einnig í ráðgjöf á ýmsum sviðum. Hefur Verkís m.a. sérhæft sig í samfélagslega mikilvægum verkefnum á borð við hönnun jarðhita- og vatnsaflsvirkjana, veitukerfa, skóla- og heilsugæslumannvirkja, sund- og baðstaða og alls kyns íþróttamannvirkja. „Í dag er sjálfbærni í forgrunni í öllum okkar verkefnum enda ætlar Ísland að ná kolefnishlutleysi innan tveggja áratuga,“ útskýrir Sveinn en hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Verkís árið 2008.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á Verkís rétt eins og önnur fyrirtæki. Sveinn segir að verkefnastaðan geti breyst með nokkurra mánaða fyrirvara og að aðeins stærstu verkefni vari lengur en eitt til tvö ár. „Eins og við var að búast hafa verkefni tengd ferðaþjónustu gufað upp í bili en áður var töluvert um að við tækjum þátt í hönnun hótela, og alls konar upplifunarmannvirkja fyrir ferðamenn. Á móti kemur vöxtur í verkefnum í samgöngum og öðrum innviðum samfélagsins,“ segir hann. „Ríki og sveitarfélög eiga hrós skilið fyrir að hafa blásið til átaks í innviðaframkvæmdum í kórónuveirufaraldrinum. Hið opinbera hefur tekið vel á nú þegar þörfin er mest með því að ráðast í verkefni sem lengi hafa setið á hakanum og örva með því hagkerfið til að hjálpa viðspyrnu atvinnulífsins.“
Gaman er að segja frá því að alþjóðleg verkefni vega líka nokkuð þungt í starfsemi Verkís og stóðu undir milli 30 og 40% af veltu félagsins á árunum 2013 til 2016. „Löngu fyrir þann tíma höfðum við tekið þátt í verkefnum erlendis, einkum á sviði orkuuppbyggingar, og nýttum þar þá þekkingu og reynslu sem við höfum byggt upp með vinnu okkar fyrir stóra og öfluga verkkaupa á Íslandi,“ segir Sveinn en þegar verkefnastaðan innanlands var með versta móti eftir bankahrunið sótti Verkís af meiri krafti út í heim og fékk m.a. fjölda verkefna í Noregi.
Hefur Verkís m.a. tekið þátt í framkvæmdum í Asíu, Austur-Afríku, í Karabíahafinu, og allt frá Alaska í vestri til Kamchatka í Rússlandi í austri en Verkís á hlut í dótturfélögum sem halda utan um verkefni í Noregi, á Grænlandi og í Georgíu. Segir Sveinn að það sem af er þessu ári myndi erlend verkefni um 15% af veltunni og skipta bæði Grænlands- og Noregsmarkaður miklu fyrir verkfræðistofuna.
Veiking krónunnar gaf Verkís mikið forskot erlendis á árunum eftir bankahrun en Sveinn segir að nú þegar gengið er sterkara standi stofan enn vel að vígi í krafti reynslu og sérhæfingar. „Í verkfræðigeiranum skiptir reynsla mestu máli. Verkefni fást einkum í gegnum útboð og þar er algengt að þekking og reynsla verkfræðistofa vegi 80% á meðan kostnaður vegur 20% við mat á tilboðum. Við fáum því iðulega verkefni í okkar hlut út á reynsluna þó við séum ekki alltaf með lægsta verðið,“ segir Sveinn og bætir því við að í stórum byggingarframkvæmdum nemi hönnunarkostnaður oft innan við 10% af heildarkostnaðinum en að snjallir hönnuðir og verkfræðingar geti aftur á móti haft mikil áhrif á heildarkostnaðinn með ákvörðunum sínum. „Hönnuðurinn leikur lykilhlutverk í því að tryggja að framkvæmdin verði hagkvæm og að mannvirkið endist vel, svo það borgar sig ekki að ætla að spara í hönnunarhlutanum.“
Sveinn bendir á að Ísland eigi öflugar sjálfstæðar verkfræðistofur m.a. vegna þess að stóru verkkauparnir á innanlandsmarkaði hafa flestir markað þá stefnu að kaupa þjónustu sérfræðinga frekar en að koma upp sínum eigin verkfræði- og hönnunardeildum. Bæði sé það á margan hátt hagkvæmara fyrir rekstur hins opinbera að útvista hönnun mannvirkja en um leið gerist það að þekking safnast í atvinnulífinu og flyst mun greiðar á milli geira en ef stórfyrirtæki og stofnanir myndu hanna sín mannvirki innanhúss. „Það ýtir síðan undir það að íslensk verkfræðiþekking geti orðið útflutningsvara enda byggir árangur okkar á erlendri grundu fyrst og fremst á því að búa að sterkum heimamarkaði.“
Sveinn er bjartsýnn á framtíðina og vonast m.a. til að íslenskar verkfræðistofur muni geta leikið stórt hlutverk við að hjálpa þjóðum víða um heim að virkja fallvötn og jarðhita og færa almenningi hreina og áreiðanlega orku. Hann segir íslenska aðila búa yfir dýrmætri sérþekkingu á sviði hagnýtingar jarðhita og að víða um heim megi finna heita reiti þar sem virkja mætti mikið magn orku með hagkvæmum hætti. „Við viljum endilega halda áfram að flytja út sérhæfingu Íslendinga á þessu sviði og lítum á það sem mikilvægt framlag til að stuðla að minni losun kolefnis í heiminum.“ ai@mbl.is