Stærðarflokkur | Meðalstórt |
Röð innan flokks | 154 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum |
Starfsemi | Smásala á íþrótta- og tómstundabúnaði í sérverslunum |
Framkvæmdastjóri | Jón Pétur Jónsson |
Fyrri ár á listanum | 2010–2019 |
Eignir | 656.889 |
Skuldir | 144.246 |
Eigið fé | 512.643 |
Eiginfjárhlutfall | 78,0% |
Þekktir hluthafar | 1 |
Endanlegir eigendur | 1 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 0 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 0 |
Þetta er mjög gamaldags fyrirtæki. Ein kennitala, einn eigandi, og ekkert vesen,“ segir Jón Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Arnarins. Félagið var í hópi þeirra fyrstu sem fengu viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki og hefur í gegnum árin tekist að hrista af sér hvers kyns upp- og niðursveiflur í efnahagslífinu:
„Allt sem heitir kreppa eða hrun virðist hafa þau áhrif að viðskiptin hjá okkur glæðast,“ segir Jón Pétur en Örninn selur reiðhjól og líkamsræktartæki auk þess að reka eina stærstu golfvöruverslun landsins og barnavöruverslunina Fífuna. „Þegar hægir á hagkerfinu vill það gerast að fólk byrjar að hugsa betur um heilsuna og stunda holla líkamsrækt og útiveru. Þá kalla niðursveiflur líka á það að sýna aðhald í heimilisrekstrinum og margir sem grípa til þess ráðs að t.d. fækka um einn bíl á heimilinu og nota reiðhjólið sem samgöngutæki ef það er möguleiki.“
Fyrirtækið kom nokkuð vel út úr bankahruninu fyrir röskum áratug og segir Jón Pétur að þar hafi hjálpað að félagið var lítið sem ekkert skuldsett. Eftir hrunið jukust síðan vinsældir hjólreiða mikið og var salan lífleg. Á þessu ári hafa aðstæður verið mjög óvenjulegar og salan gengið betur en nokkru sinni. „Birgðastaðan var mjög góð í byrjun árs en um miðjan apríl rann það upp fyrir okkur að það stefndi í að verslunin yrði vörulaus og búið að selja jafnmikið á fyrstu mánuðum ársins og við ætluðum okkur að selja á árinu öllu. Reiðhjól og rafmagnsreiðhjól nánast seldust upp og svipaða sögu að segja af líkamsræktartækjunum.“
Þessi óvenjumikla sala skýrist vitaskuld af því að röskun varð á starfsemi líkamsræktarstöðvanna og margir sem sáu sig knúna til að koma upp sinni eigin þrek- og styrktaræfingaaðstöðu á heimili sínu. „Landsmenn hafa verið mjög duglegir að hreyfa sig og ekki á þeim buxunum að ætla að láta kórónuveirufaraldurinn standa í vegi fyrir því að stunda reglulega líkamsrækt,“ útskýrir Jón Pétur en hlaupabretti og þrekhjól hafa rokið út auk styrktaræfingastöðva. „Mikil breidd er í því að hverju neytendur eru að leita, og höfum við selt allt frá einföldum þrekhjólum á 150.000 kr. upp í þrekhjól af sömu gerð og finna má í bestu líkamsræktarstöðvum á um og yfir 750.000 kr.
Góð hjólreiðasala skýrist bæði af þörf fólks fyrir aðgengilega og ánægjuleg útivist og eins af miklum áhuga í samfélaginu á að nýta fjölbreyttari, samfélagsvænni og umhverfisvænni samgöngumáta. „Rafmagnsreiðhjólin hafa komið mjög sterkt inn í ár og biðröð eftir hverju einasta hjóli, um það bil fimm árum eftir að rafmagnsreiðhjólabyltingin hófst af alvöru í Evrópu.“
Ástæða þess að rafmagnsreiðhjólamenningin fór hægar af stað á Íslandi en á meginlandinu segir Jón Pétur að sé að sumir innflytjendur hafi hlaupið á sig fyrir fimm árum og flutt inn rafmagnsreiðhjól sem reyndust ekki nógu vel. „Það má kalla þau byrjendamistakahjól og voru t.d. rafhlöðurnar ekki nógu góðar. Nú eru byrjendamistökin að baki og allt annar staðall á þeim rafmagnsreiðhjólum sem eru fáanleg á markaðinum í dag.“
Hafa rafmagnsreiðhjólin sótt svo hratt á að þegar komið var fram á mitt sumar seldist u.þ.b. eitt rafmagnsreiðhjól fyrir hver þrjú hefðbundin reiðhjól. „Algengt verð fyrir vandað rafmagnsreiðhjól er á bilinu 350-600.000 kr. sem er töluvert hærra en verðið á dæmigerðu reiðhjóli, og þýðir að þrátt fyrir að seld eintök séu færri þá er veltan töluverð og áhrifin í rekstrinum greinileg.“
Jón Pétur segir að skipta megi kaupendum rafmagnsreiðhjóla í tvo meginhópa: „Annars vegar er fólkið sem vill nota reiðhjólið til daglegra samgangna og finnur hvað það hjálpar mikið að vera á rafmögnuðu hjóli í mótvindi. Á rafmagnsreiðhjóli er lítil hætta á að maður komi löðrandi sveittur í vinnuna en engu að síður þarf að stíga á pedalana og fólk fær létta hreyfingu á leið til og frá vinnu,“ útskýrir hann. „Hins vegar er fólk sem vill nota reiðhjólið sem leiktæki og finnur að með rafmótornum verður mun auðveldra að þeysast um holt og hæðir.“
Athygli vekur að Örninn hellti sér ekki út í raf-hlaupahjólamarkaðinn og segir Jón Pétur að þar ætli fyrirtækið enn um sinn að halda sig til hlés. „Við skoðuðum þetta vel og fannst vissara að sitja hjá þegar alls konar fyrirtæki voru farin að koma inn á þennan markað. Rafhlaupahjól eru áhugavert samgöngutæki en við ætlum að sjá hvernig tæknin þróast.“
Jón Pétur skrifar árangur fyrirtækisns ekki síst á það hve gott fólk hefur valist til starfa hjá Erninum. „Öll þessi ár hef ég verið með eindæmum heppinn með starfsfólk og starfsmannaveltan verið sama sem engin.“
Hann kann enga sérstaka skýringu á þessu láni, en segist þó gæta þess að borga fólki ekki lægstu taxtalaun og sýna svigrúm þegar kemur að því t.d. að hliðra vinnutíma í takt við þarfir hvers og eins.
Verst þykir Jóni Pétri að launatengd gjöld skuli vera eins há og raun ber vitni og þannig minnka svigrúm hans til að hækka laun eða fjölga starfsfólki: „Tryggingagjaldið verðskuldar sérstaka athygli enda gjald sem er ætlað að fjármagna atvinnuleysistryggingasjóð ef skortur er á störfum í landinu, nema hvað að ef ekki væri fyrir þetta gjald væri svigrúm hjá mínu fyrirtæki til að bæta við tveimur stöðugildum.“