Stærðarflokkur | Meðalstórt |
Röð innan flokks | 277 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum |
Starfsemi | Smásala á blómum, plöntum, fræjum og áburði í sérverslunum |
Framkvæmdastjóri | Kristín Helga Gísladóttir |
Fyrri ár á listanum | Engin |
Eignir | 234.898 |
Skuldir | 118.201 |
Eigið fé | 116.697 |
Eiginfjárhlutfall | 49,7% |
Þekktir hluthafar | 8 |
Endanlegir eigendur | 8 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 1 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 1 |
Það er leitun að litríkari og líflegri verslunum en Garðheimum og það virðist engu máli skipta hvaða árstíð er: Alltaf má finna blómailm og áminningu um að gróskan er á næsta leiti. Þannig er það einnig í rekstri fyrirtækisins sem hefur frá upphafi verið í eigu sömu fjölskyldunnar þótt fyrir nokkrum árum hafi orðið þar kynslóðaskipti.
„Við erum gamalt fjölskyldufyrirtæki og byggist á ákvörðun foreldra minna sem þau tóku árið 1991 um að kaupa verslun Sölufélags garðyrkjumanna sem var til húsa á Smiðjuveginum í Kópavogi. Það var svo átta árum síðar sem þau færðu sig yfir Reykjanesbrautina og stofnuðu Garðheima. Hér hefur fyrirtækið verið síðan.“
Með þessum orðum lýsir Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri og einn eigenda fyrirtækisins, tilurð þess. Hún hefur alla tíð staðið í rekstrinum með foreldrum sínum og þekkir hann því frá a til ö.
„Ég man í raun ekki eftir mér öðruvísi en fyrir aftan búðarborðið hjá þeim. Ég fékk líka snemma að axla ábyrgð og þegar þau fóru út eða í frí bar ég ábyrgð á rekstrinum á meðan. Það er því innan Garðheima sem ég hef fengið mína rekstrar- og stjórnunarreynslu.“
Kristín bendir hins vegar á að hún ber ekki ein hitann og þungann af rekstrinum.
„Það var fyrir á að giska fimm árum sem við systkinin tókum við rekstrinum af foreldrum okkar og erum nú aðaleigendur fyrirtæksins. Við vinnum öll hjá fyrirtækinu. Ég og bróðir minn höfum verið hér lengst en síðar bættust systur okkar tvær við.“
Stundum er því haldið fram að fyrirtæki fari halloka þegar önnur eða þriðja kynslóð taki við keflinu, ekki síst þegar fleiri en einn af nýjum stjórnendum koma úr sama ranni. Kristín segir það ekki reynslu þeirra.
„Þótt ég sé framkvæmdastjóri þá erum við saman í þessu og við fundum að minnsta kosti einu sinni í viku til þess að fara yfir málin. Þetta hefur gengið vel og við höfum náð að snúa stöðunni okkur í hag. Fyrirtækið hafði raunar alltaf gengið vel fram að hruni. Þá tóku við mjög krefjandi tímar, ekki síst vegna gríðarlegrar hækkunar húsaleigunnar en hún var til hálfs bundin gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Það hefur allt lagast mikið á síðustu árum og við komumst fyrir vind.“
Spurð út í góðan árangur fyrirtækisins á síðustu árum segir Kristín að það hafi reynst mikið lán hversu vel þeim hafi haldist á góðu starfsfólki.
„Hjá okkur starfa að jafnaði um 60 manns og starfsaldurinn er hár. Og hér er hugsunin sú að við vinnum hlutina í góðu samstarfi. Það á við um allan starfsmannahópinn, rétt eins og okkur systkinin,“ segir hún í léttum dúr.
Kristín segir að kórónuveiran hafi breytt starfseminni mikið og að þá hafi sannast mikilvægi þess að vera með stuttar boðleiðir innan fyrirtækisins.
„Það sem hefur verið einkennandi fyrir þetta ár og verið stærsta áskorunin er að maður þarf að vera mjög fljótur að taka ákvarðanir og frjór að finna nýjar lausnir til þess að leysa úr hlutunum. Það tvennt hefur staðið upp úr á þessu ári. Við höfum stöðugt þurft að gera breytingar á því hvernig við gerum hlutina og hvað við leggjum áherslu á. Okkur hefur tekist það ótrúlega vel þótt ég segi sjálf frá.“
Hún tekur dæmi af fyrstu vikum faraldursins og að þá hafi strax verið tekin ákvörðun um að leggja stóraukinn þunga í heimasíðu fyrirtækisins og vefverslun.
„Við vorum komin í gang með þessa vinnu þegar faraldurinn kom yfir en við settum alla áherslu á að setja sem flestar vörur þangað inn. Við vorum á tímabili með fjóra til fimm starfsmenn á fullu í þeirri vöruskráningu en alla jafna er bara einn starfsmaður í því verkefni. Það hjálpaði okkur heilmikið við að halda dampi þegar þetta var allt saman að fara úr skorðum í samfélaginu.“
Hún segir að veltan hafi aukist talsvert í netversluninni en að sveiflurnar á þeim vettvangi hafi verið töluvert miklar.
„Hún var heilmikil í apríl en þegar ástandið batnaði þá minnkaði veltan aftur gegnum netið. Það eru mjög margar heimsóknir á vefsíðuna og okkar viðskiptavinir nota hana greinilega sérstaklega til þess að skoða vörur og bera saman en svo koma þeir til okkar og kaupa vöruna á gamla mátann. Oft koma þeir með myndir af vefsíðunum og segja okkur með því hvað þeir vilja kaupa. Þegar ástandið versnaði svo aftur í september þá jókst salan aftur mjög hratt gegnum netið.“
Spurð út í áhrif faraldursins á afkomuna segir Kristín að þau liggi ekki að fullu fyrir en flest bendi til þess að hagnaðurinn muni tvö- eða þrefaldast og að veltuaukningin liggi á bilinu 20-30 prósent.
Meðal þess sem leynist í undraveröldinni á Stekkjarbakka er veitingahúsið Spíran sem nýtur mikilla vinsælda. Sú starfsemi er ekki beint á vegum Garðheima að sögn Kristínar.
„Við rákum þetta veitingahús fyrst sjálf en við komumst að því að veitinga- og verslunarrekstur er mjög ólíkur í eðli sínu. Við fengum því Kokkana í hús sem leigja af okkur rýmið og það samstarf hefur gengið mjög vel.“
Líkt og áður greinir lenti fyrirtækið í vanda vegna hárrar húsaleigu. Fyrir örfáum árum keyptu svo Hagar húsnæðið og beinast liggur við að spyrja af hverju Garðheimar hafi ekki tryggt sér húsnæðið til frambúðar með því að kaupa það.
„Verðmiðinn var alltof hár. Það er búið að breyta aðalskipulagi þessarar lóðar og hér má byggja mikið íbúðarhúsnæði. Það eru þau réttindi sem sprengdu verðið upp en ekki húsnæðið sem slíkt. Við höfum hins vegar fengið vilyrði fyrir lóð í Álfabakka og við vonumst til þess að geta kynnt fyrstu uppdrætti að nýju húsnæði þar á næstu vikum.“
Kristín segir að flutningur starfseminnar geti falið í sér mikil tækifæri. Gert sé ráð fyrir að verslunin stækki um 2.000 fermetra og að húsnæðið með öllu verði um 7.000 fermetrar að stærð.
„Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni og vonumst til þess að þetta verði komið í gagnið innan eins til tveggja ára. Við höfum verið með mjög góða arkitekta með okkur í þessu, bæði íslenska og svo hollenska ráðgjafa sem sérhæfa sig í hönnun húsnæðis undir starfsemi eins og okkar um allan heim. Við getum eiginlega ekki beðið eftir að geta kynnt þessar fyrirætlanir okkar,“ segir Kristín og ljóst að gróskan er ekki aðeins í blómapottunum í Garðheimum eða núverandi rekstri heldur einnig áætlunum framtíðarinnar. ses@mbl.is