Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 97 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum |
Starfsemi | Blönduð heildverslun með matvæli, drykkjarvöru og tóbak |
Framkvæmdastjóri | Lísa Björk Óskarsdóttir |
Fyrri ár á listanum | 2010–2013 |
Eignir | 1.288.189 |
Skuldir | 803.310 |
Eigið fé | 484.879 |
Eiginfjárhlutfall | 37,6% |
Þekktir hluthafar | 2 |
Endanlegir eigendur | 4 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 0 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 0 |
Það var í ársbyrjun 1912 sem tveir danskir athafnamenn, Fritz Nathan og Carl Olsen, stofnuðu heildsöluna Nathan & Olsen, eitt rótgrónasta verslunarfyrirtæki landsins.
Nathan & Olsen er nú dótturfyrirtæki rekstrarfélagsins 1912 ehf. og eru höfuðstöðvarnar í Klettagörðum 19.
Ásamt því að flytja inn nauðsynjavörur flutti fyrirtækið út fisk og landbúnaðarafurðir. Það starfrækti útibú víða um land, að því er segir á vef fyrirtækisins, og átti um tíma flutningaskip í siglingum milli hafna innanlands og erlendis. Voru millilandaviðskiptin fyrst og fremst við Bandaríkin og Danmörku.
Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Nathan & Olsen, segir fyrirtækið hafa frá upphafi stundað innflutning og sölu á matvörum og dagvörum.
„Nú sérhæfir Nathan & Olsen sig í innflutningi, sölu og markaðssetningu á vörum á matvöru- og snyrtivörumarkaði. Þannig er aðalstarfsemi okkar að bjóða upp á gæðavörur fyrir dagvörumarkað ásamt því að bjóða upp á nýjar vörur og fylgja straumum hvers tíma. Í faraldrinum snerist allt um að birgja sig upp og eiga varning. Nú horfum við fram á veginn og getum aftur sett orku í að bjóða upp á eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Lísa Björk.
Lísa Björk varð framkvæmdastjóri árið 2019. Hún er rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst og með langa reynslu af verslun. Hún var framkvæmdastjóri Provision, deildarstjóri hjá heildsölu í matvörugeiranum í áratug, starfaði sem fjármálastjóri og síðar markaðsstjóri hjá IKEA í sex ár og starfaði jafnframt í tæknigeiranum og banka.
En hvað skyldi gera Nathan & Olsen að framúrskarandi fyrirtæki?
„Það eru auðvitað margir samverkandi þættir eins og heilbrigður rekstur, skýr markmið, framsækni og almenn skynsemi. Lykilþáttur er auðvitað okkar frábæra starfsfólk, sem vinnur eftir skýrum ferlum og ástríðan og metnaðurinn í því sem við gerum saman sem heild.“
Hvernig myndirðu lýsa vinnustaðamenningunni?
„Hún einkennist af liðsheild, krafti og framsækni. Hér er samansafn af öflugu fólki sem hefur metnað og ástríðu til að gera vel. Þau eru sannir Íslendingar; það er ekki hætt fyrr en markmiðunum hefur verið náð. Hér eru margir snjallir sérfræðingar sem eru sjálfstæðir í sínum störfum en vinna samt allir vel saman og allir eru tilbúnir að hjálpa hver öðrum.“
Allir þurfa að leggjast á eitt
Hvernig heldurðu uppi góðum starfsanda?
„Stjórnendur þurfa að tryggja góða umgjörð en þetta er teymisvinna. Allir í hópnum þurfa að leggjast á eitt í að viðhalda góðum starfsanda og hafa gaman saman. Við erum með mannauðsstjóra og erum hluti af samstæðu með mörgu öðru starfsfólki. Við reynum að hlúa vel að fólkinu og hittast reglulega sem var erfitt í faraldrinum. Við gerðum það sem við gátum þrátt fyrir takmarkanir. Við erum líka með reglulegar mannauðsmælingar sem eykur virkni starfsmanna og hjálpar okkur að bregðast við. Við erum þétt og samstæð heild og störfum í opnu umhverfi. Við hittumst á formlegum og óformlegum fundum og spjöllum og náum vel saman.“
Hver er stefna ykkar í jafnréttismálum?
„Lögð er áhersla á að gæta jafnréttis í hvívetna og unnið er eftir mannauðsstefnu, jafnlaunastefnu og persónuverndarstefnu, svo dæmi séu tekin. Við erum einnig jafnlaunavottuð og stefnan er að sjálfsögðu að viðhalda því og passa upp á að allir hafi sömu tækifæri og að það sé engin mismunun.“
Hvernig er því framfylgt?
„Við erum með mannauðsstjóra sem tekur út allar vísitölurnar í þeim efnum. Hér hafa allir jafnan rétt til að sækja um ný störf. Við pössum upp á launin og reynum að hafa kynjahlutföllin sem jöfnust meðal yfirmanna, millistjórnenda og innan hvers sviðs, eins og kostur er. Við erum reyndar með snyrtivörusvið þar sem afgerandi meirihluti starfsfólksins er konur en því er tekið fagnandi þegar karlmaður sækir um starf þar,“ segir Lísa Björk.