Stærðarflokkur | Meðalstórt |
Röð innan flokks | 91 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi |
Starfsemi | Starfsemi arkitekta og skyld tæknileg ráðgjöf |
Framkvæmdastjóri | Elínbjörg Gunnarsdóttir |
Fyrri ár á listanum | 2010, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019, 2020 |
Eignir | 343.664 |
Skuldir | 98.076 |
Eigið fé | 245.588 |
Eiginfjárhlutfall | 71,5% |
Þekktir hluthafar | 8 |
Endanlegir eigendur | 7 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 5 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 5 |
Verk THG arkitekta blasa við víða í borgarlandslaginu; hótel, hjúkrunarheimili, íbúðarhús, skrifstofur og verslanir svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtækið hefur að sögn Freys Frostasonar arkitekts og meðeiganda alltaf lagt áherslu á góðan og stöðugan rekstur. Velta félagsins var svipuð árin 2019 og 2020 þrátt fyrir samdrátt vegna veirufaraldursins.
„Við höfum alltaf passað vel upp á okkar rekstur,“ segir Freyr. „Við reynum að spenna bogann ekki of hátt. Fyrirtækið er nánast skuldlaust og við forðumst áhættu í rekstri. Þessi geiri sveiflast dálítið mikið upp og niður í takt við efnahagslífið hverju sinni og margar stofur fóru til dæmis illa út úr hruninu. En við höfum reynt að hafa bæði belti og axlabönd hvað fjármál og rekstur varðar og horfum til framtíðar.“
Rekstur stofunnar gekk nokkuð vel í fyrra að sögn Freys. „Afkoman var góð í fyrra. Við erum með mjög trausta viðskiptavini og gott samstarfsfólk í verkefnum, bæði einkaaðila og opinbera aðila sem bera mikið traust til okkar. Þó að ákveðin verkefni hafi verið sett í bið í faraldrinum héldu önnur áfram þrátt fyrir ástandið. Það hjálpaði okkur að fara í gegnum tímabilið með nánast óbreyttan starfsmannafjölda milli ára. Árangurinn er góðu starfsfólki og viðskiptavinum okkar að þakka,“ útskýrir Freyr.
THG arkitektar skera sig frá flestum öðrum arkitektastofum að því leyti að innan stofunnar er sérstök tæknideild sem sér um verkefnastjórnun og eftirlit. „Við fylgjum verkefnum eftir alla leið þar til byggingar eru komnar í notkun. Verkefnin eru mjög fjölbreytt, allt frá skipulagstengdum hönnunarverkefnum að deiliskipulagi og allt niður í innréttingar húsa, hvort sem það er atvinnu- eða íbúðarhúsnæði.“
Freyr segir að verkefnin séu því bæði stór og smá og nefnir sem dæmi að THG arkitektar séu aðalhönnuðir Kringlunnar. „Þegar einstaka verslun er breytt í verslunarmiðstöðinni fer það alltaf í gegnum okkur. Svo erum við með stór verkefni eins Curio by Hilton-lúxushótelið á Landsímareitnum og Sléttuna, lífsgæðakjarna fyrir aldraða við Sléttuveg.“
Eins og Freyr útskýrir snúa 25-30% af verkefnum fyrirtækisins að verkefnastjórnun og eftirliti. „Við erum með óvenjumarga tæknimenn og byggingarfræðinga innan okkar vébanda. Við skiptum félaginu í raun upp í THG arkitekta og THG ráðgjöf. Við viljum skapa ráðgjöfinni aukna sérstöðu.“
Spurður um gildi þessa fyrirkomulags segir Freyr að það að hafa allt ferlið undir sama þaki auðveldi öll samskipti. „Það hefur reynst bæði hagkvæmara fyrir verkkaupa og sparað talsverðan tíma. Ef þetta er hvort í sínu lagi, þ.e. að ráðgjöfinni sé sinnt af öðrum aðilum, getur komið upp ágreiningur.“
THG arkitektar hafa hannað fjölda hótela á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Hótel Marina og Konsúlathótelið. Verið er að leggja lokahönd á fyrrnefnt lúxushótel á Landsímareit.
Þá er fyrirtækið með talsvert af íbúðalóðum í byggingu í Vogabyggð í Reykjavík, á Héðinsreit og á fleiri stöðum.
Spurður um þátttöku í samkeppnum segir Freyr að stofan reyni að taka þátt í einni slíkri á hverju ári. „Síðast lentum við í öðru sæti í samkeppni um miðborgarleikskóla fyrir aftan Austurbæjarbíó. Nú erum við nýbúin að skila tillögu okkar að höfuðstöðvum Icelandair á Völlunum í Hafnarfirði.“
Freyr hefur starfað hjá THG arkitektum um árabil. „Ég hóf störf hjá stofnanda stofunnar, Halldóri Guðmundssyni, árið 1997, eftir nám hjá Architectural Association í London og SCI-Arc í Los Angeles.“
Skólinn í Los Angeles var framúrstefnulegur að sögn Freys, sem kaus að fara ekki til Danmerkur í nám eins og flestir gerðu á þessum tíma. „Ég heyrði af þessum skóla í gegnum kunningja og ákvað að láta slag standa. Ég fór svo í framhaldsnám til Lundúna en Architectural Association er einn elsti arkitektaskóli í heimi. Ég stundaði þar nám í rannsóknararkitektúr. Við vorum einkum að skoða þarfir tölvufyrirtækja til framtíðar.“
Rannsókn Freys og skólasystkina snerist þannig um samvinnurými starfsmanna og það hvernig hin hefðbundna skrifstofa heyrði sögunni til. Fólk myndi í framtíðinni vinna í opnu rými og í samvinnukjörnum.
Blaðamaður spyr hvernig þau fræði hafi elst.
„Þetta hefur þróast á svipaðan hátt og við vorum að skoða þarna á þessum tíma. Opið skrifstofurými er orðið ráðandi. Áhersla er orðin á að einu lokuðu rýmin séu fundarrými eða svona tímabundin verkefnatengd samverurými þar sem nokkrir samstarfsaðilar koma saman.“
Spurður um strauma og stefnur í dag í þróun skrifstofuhúsnæðis segir Freyr að aukin krafa sé nú gerð um næði í vinnu. Það að geta einbeitt sér betur að vinnunni þyki mikilvægt og sé að koma sterkar inn, eins og Freyr orðar það. Fólk vilji geta lokað sig af til að vinna verkefnin í algjörri þögn. „Sá möguleiki fyrir t.d. 2-3 starfsmenn að loka sig af í nokkrar vikur í vinnuumhverfi sem þeir geta lagað að sínum þörfum fyrir ákveðið verkefni er það sem koma skal.“
Um helstu tískustrauma í öðrum tegundum bygginga minnist Freyr á hótelhönnun. „Í dag er áhersla lögð á að á jarðhæð hótela sé blanda af menningarstarfsemi og verslun, að jarðhæðin sé eins konar almenningsrými til að auka fjölbreytileika í upplifun ferðamanna. Að hótelin séu lifandi rými en ekki bara móttökusalur sem gengið er inn í af götunni. Reykjavíkurborg ætti að taka svona þróun fagnandi í stað þess að berjast á móti hótelstarfsemi í miðbænum. Svona fyrirkomulag ýtir undir líf og menningu og skapar mannlegt flæði í miðbænum.“
Gott dæmi um þetta að sögn Freys er nýja Marriot Edition-hótelið á hafnarbakkanum í Reykjavík. Sami hátturinn er einnig hafður á í Curio by Hilton sem THG eru að ljúka við.
„Í dag er orðið algengt að fólk hittist á fundum eða í kaffi í hótellobbíum, til að eiga samtal. Flæði almennings inn í hótelrýmin er að aukast og því ber að fagna.“
Freyr segir að ferðamenn vilji komast í nána snertingu við íbúa á hverjum stað. „Ef þú ert ferðamaður viltu vera í sama rými og fólkið sem býr á staðnum og notar rýmið frá degi til dags,“ segir Freyr.
Um það hvort einhver ákveðinn stíll sé ráðandi í hönnun stofunnar segir Freyr að svo sé ekki. Stíllinn sé fjölbreyttur. Það eigi reyndar við um flestar arkitektastofur hér á landi, enda sé markaðurinn lítill og nauðsynlegt að geta sinnt ólíkum úrlausnarefnum. „Við þurfum að geta sinnt allt frá endurgerð friðaðra húsa upp í stórar glerbyggingar eða háhýsi. Leiðarljós í okkar starfsemi er frekar að hafa fjölbreytni og staðaranda ofarlega í huga. Stíllinn er því mjög breytilegur eftir því hvert verkefnið er og hvar það er staðsett.“