311 Miðbaugur ehf

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 107
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Starfsemi Smásala á gleraugum og sjóntækjum í sérverslunum
Framkvæmdastjóri Hulda Guðný Kjartansdóttir
Fyrri ár á listanum 2018–2020
Framúrskarandi 2021

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 291.332
Skuldir 130.009
Eigið fé 161.323
Eiginfjárhlutfall 55,4%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Önnur smásala á nýjum vörum í sérverslunum

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Ferðamennirnir elska merkjavöru

Hulda Guðný Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Optical Studio.
Hulda Guðný Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Optical Studio. Kristinn Magnússon

Hulda Guðný Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Miðbaugs ehf., rekstraraðila gleraugnaverslana Optical Studio, var ung að árum þegar faðir hennar, sjóntækjafræðingurinn Kjartan Bragi Kristjánsson, stofnaði Gleraugnaverslun Keflavíkur á Hafnargötunni í bænum árið 1982. „Pabbi lærði sjóntækjafræði hjá Herbert Pietsch, þýskum optikermeistara í Gleraugnaversluninni Optik í Reykjavík. Hann starfaði svo í eitt ár við fagið í Þýskalandi og lauk seinna sjónfræðinámi (námi í sjónmælingum) frá Háskólanum í Kongsberg í Noregi,“ segir Hulda.

Fyrirtækið rekur nú fjórar verslanir en þær eru auk verslunarinnar í Keflavík í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Smáralind og á Hafnartorgi í Reykjavík.

Spurð um nafn fyrirtækisins segir Hulda að faðir hennar hafi keypt gleraugnaverslunina Optical Studio af bandaríska hernum sem hafði rekið gleraugnaverslun með því nafni á varnarsvæðinu. Það nafn hafi í framhaldinu þótt hentugt til að nota áfram, enda eigi birgjar erlendis erfitt með að bera fram íslenskt nafn eins og „Gleraugnaverslun Keflavíkur“ bendir Hulda á.

Skrautfjöður á Hafnartorgi

Verslunin á Hafnartorgi er skrautfjöðrin í hatti Optical Studio að sögn Huldu. „Þar erum við með allar flottustu vörurnar okkar. Sem dæmi, þegar við fáum mjög glæsilega vöru í einu eintaki komum við henni fyrir á Hafnartorginu.“

Hulda mælir með að fólk komi á Hafnartorgið ef það vill láta dekra við sig. „Starfsfólkið þar hefur góðan tíma til að snúast í kringum viðskiptavini. Þar er aðeins rólegra en í hinum verslunum okkar.“

Boðið er upp á fríar sjónmælingar í öllum verslunum og hægt er að panta á heimasíðu. „Við leggjum upp með að bjóða jafn góða þjónustu í öllum verslununum. Hjá okkur starfa ellefu sjóntækjafræðingar,“ segir Hulda en alls starfa þrjátíu manns hjá félaginu.

Aðspurð hvort það hafi ekki verið áfall þegar kórónuveirufaraldurinn brast á skömmu eftir opnun verslunarinnar á Hafnartorgi árið 2019 játar Hulda því. „Það var samt ótrúlegt hvað rættist úr því. Íslendingar eru spenntir fyrir nýjungum og þegar þeir voru búnir að átta sig á að það væri ekkert vandamál að leggja í miðbænum, jafnvel auðveldara en við verslunarmiðstöðvarnar, þá var eftirleikurinn auðveldur.“

Að sögn Huldu er hægt að leggja í bílakjallara undir Hafnartorginu og ganga svo nánast beint inn í verslunina. Slíkt sé mjög þægilegt á veturna þegar veður er slæmt.

Hlakka til að fá meira líf

„Við hlökkum til að fá meira líf á torgið og bíðum spennt eftir fleiri ferðamönnum. Við erum vongóð um að flæðið niðri í bæ verði gott, enda er mikil og spennandi uppbygging þar.“
Spurð hvað það sé helst sem ferðamennirnir kaupi í verslunum fyrirtækisins segir Hulda að þeir elski merkjavöru. „Þeir koma sérstaklega til okkar að kaupa lúxusvöru frá stóru tískuhúsunum eins og Gucci, Saint-Laurent, Cartier og Crome Hearts. Bandaríkjamenn og Kínverjar eru sérstaklega hrifnir af Crome Hearts, sem er vel þekkt gæðamerki. Fólk kemur langar leiðir til að kaupa þær vörur.“

Hulda segir aðspurð að þau hjá Optical Studio leggi sig fram um að halda verði á merkjavörunni samkeppnishæfu við útlönd. „Verðið er skör lægra ef eitthvað er.“
Spurð um ákvörðun hennar sjálfrar að feta í fótspor föður síns segir Hulda að áður en hún tók við stjórnartaumunum í fyrirtækinu hafi hún starfað sem lögmaður. „Ég vann m.a. í héraðsdómi og við lagastofnun Háskóla Íslands og síðar meir í eigin rekstri. Árið 2017 fór ég að hugsa um að prófa að gera eitthvað tengt viðskiptum og rekstri. Ég hafði áður komið að rekstri fyrirtækisins sem ráðgjafi en eitt leiddi af öðru og ég ákvað að minnka við mig í lögmennskunni og auka aðkomuna að Optical Studio. Ég er með lögmannsréttindin og tek að mér eitt og eitt mál, en tíminn er orðinn af skornum skammti.“

Optical Studio rekur glæsilega verslun á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.
Optical Studio rekur glæsilega verslun á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. Kristinn Magnússon

Skemmtilegra í fyrirtækjarekstrinum

Spurð hvort sé skemmtilegra, fyrirtækjareksturinn eða lögmennskan, segir Hulda að fyrirtækjareksturinn hafi vinninginn. „Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Þó að lögmennskan sé fjölbreytt og skemmtileg þá er fyrirtækjareksturinn enn fjölbreyttari. Mér finnst líka gaman að geta unnið við tískubransann og fylgst náið með straumum og stefnum, farið á sýningar og séð hvað er að gerast. Það er líka gaman að sinna markaðssetningu og auglýsingum fyrir verslanirnar. Þetta heillar mig meira en lögmennskan.“

Hulda segir að lögfræðin nýtist mjög vel í fyrirtækjarekstri svo sem við samningagerð og ákvarðanatökur í rekstrinum.

Í faraldrinum fóru öll samskipti við birgjana yfir á netið. „Teams-fundirnir virkuðu ótrúlega vel en það kemur ekkert í staðinn fyrir að hitta fólk í eigin persónu. Á dögunum fórum við í fyrsta sinn í tvö ár á sýningu í París. Það var gaman að hitta fólkið aftur eftir tveggja ára hlé og máta og handleika vöruna á nýjan leik. Það skiptir gríðarlegu máli því tískubransinn þróast svo hratt.“

Eins og aðrar verslanir í Leifsstöð varð Optical Studio fyrir miklu raski þegar faraldurinn stöðvaði öll ferðalög milli landa. Nú er umferð um völlinn aftur að aukast. „Það er allt í mikilli uppsveiflu núna. Fólk er aftur farið að ferðast til útlanda. Það er líf og fjör að færast í húsið á ný.“

Hagnaður jókst milli ára

Fyrirtækið var rekið með 83 milljóna króna hagnaði á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um rúmar 25 milljónir frá fyrra ári. „Ég er mjög ánægð með niðurstöðu síðasta árs. Við náðum að halda sjó í gegnum faraldurinn. Við vorum passasöm og héldum kostnaði í lágmarki. Við erum stöðugt á tánum og fylgjumst vel með öllum tölum. Það má aldrei sofna á verðinum. Þó að við höfum lokað í flugstöðinni þá kom á móti að meira var að gera í hinum verslununum okkar. Verslunin færðist heim þegar Íslendingar komust ekki til útlanda og við nutum góðs af því. Reksturinn hefur gengið framar vonum í faraldrinum, sem var ekki fyrirséð.“

Optical Studio hefur meðal annars nýtt tímann til að uppfæra heimasíðuna. Hún er nú að sögn Huldu öflugri og flottari en áður. Þangað inn fari allar vörur og fólk geti skoðað úrvalið og verslað.

Þarf að hemja sig í fjölskylduboðum

Auk Huldu starfar bróðir hennar hjá félaginu auk annarra fjölskyldumeðlima. „Bróðir minn sér um tæknimálin. Svo hefur nýstúdentinn dóttir mín unnið hér. Hún fór með mér á sýninguna í París um daginn og aðstoðaði við innkaupin. Það er gott að fá unga fólkið inn til að aðstoða við tískuna. Þá hefur bróðursonur minn unnið hér og móðir mín starfaði í félaginu um árabil. Maðurinn minn, sem er lögmaður, kemur líka að stjórnun félagsins og sinnir ráðgjöf. Þetta er því sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Maður þarf að hemja sig í fjölskylduboðunum að tala ekki bara um fyrirtækið, enda er það aðaláhugamálið,“ segir Hulda að lokum og brosir.

Keðjur þykja flottar í dag

Spurð um stefnur og strauma í gleraugnatískunni segir Hulda að í dag sé í tísku að vera með keðjur í gleraugunum. „Það þykir flott í dag. Við sjáum þetta til dæmis í gleraugum frá Gucci. Þá hangir keðjan niður á bringu eins og hálsmen. Svo er hægt að taka keðjuna af ef maður vill.“

Hulda hvetur fólk til að prófa gleraugu af mörgum stærðum og gerðum. „Fólk á ekki að vera feimið við að vera með alls konar gleraugu. Það fer til dæmis litlu andliti vel að vera með stór gleraugu.“

Hún segir að fólk ætti að hafa mörg gleraugu til skiptanna, enda er andlitið mest áberandi partur líkamans. „Þú átt kannski mörg skópör fyrir mismunandi tilefni en aðeins ein gleraugu. Þú ættir að leyfa þér að eiga til dæmis ein létt og þægileg til að nota heima, en önnur þegar þú ert að fara út sem eru þá í stíl við aðra skrautmuni eða fatnað.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar