644 Verksýn ehf

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 325
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi
Starfsemi Starfsemi verkfræðinga og skyld tæknileg ráðgjöf
Framkvæmdastjóri Reynir Kristjánsson
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2021

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 203.075
Skuldir 109.745
Eigið fé 93.330
Eiginfjárhlutfall 46,0%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 4
Endanlegir eigendur 4
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Starfsemi verkfræðinga

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Styttu vinnuvikuna um fimm stundir

Verksýn er sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Helga Hauksdóttir, Reynir Kristjánsson, og Andri …
Verksýn er sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Helga Hauksdóttir, Reynir Kristjánsson, og Andri Már Reynisson stilla sér upp fyrir myndatöku en Birgir Rafn Reynisson var fjarverandi vegna fæðingarorlofs. Fjölskyldan starfar öll hjá fyrirtækinu sem stofnað var árið 2006. mbl.is/Unnur Karen

Í Síðumúla eitt er starfrækt fjölskyldufyrirtæki sem kemur að mörgum sýnilegum verkefnum í borgarlandinu og raunar víðar. Verksýn var stofnað árið 2006 af Reyni Kristjánssyni, múrarameistara og byggingafræðingi og í dag á hann fyrirtækið ásamt eiginkonu sinni og tveimur sonum.


Reynir segir að upphaf fyrirtækisins megi rekja til þess þegar hann áttaði sig á að stóru verkfræðistofurnar höfðu ekki gefið viðhaldsverkefnum, ekki síst fjölbýlishúsa, minni gaum en mörgum öðrum verkefnum.


„Ég réð mig til fyrirtækis sem hét Verkvangur árið 1999. Það fyrirtæki sérhæfði sig í viðhaldsmálum. Svo færði ég mig til Eignaumsjónar sem kemur að rekstri fjölbýlishúsa. Að lokum varð að samkomulagi milli mín og þáverandi eigenda fyrirtækisins að ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki og tæki viðhaldsmálin með mér.“


Þannig varð Verksýn til og stuttu síðar keypti Reynir viðhaldsdeild Verkvangs og lagði inn í Verksýn og þannig var hann á einhvern hátt kominn í hring.


„Það sem dreif mig áfram í þetta var að þessum markaði var ekki nægilega vel sinnt. Þessi viðhaldsmál voru að mörgu leyti afgangsstærð hjá stærri aðilum. Þá lét ég vaða og fór af stað. Fyrstu árin vorum við tveir til fjórir en í dag eru starfsmenn 21, að meðtöldum okkur eigendunum.“


Fastmótaðir verkferlar

Reynir segir að fyrirtækið byggi á mjög fastmótuðum ferlum sem skipti miklu til að tryggja gæði þjónustunnar.


„Þegar viðskiptavinur kemur til okkar þá er vegvísirinn mjög ljós. Við byrjum alltaf á ástandsskýrslu. Svo eru hugmyndir lagðar fyrir húsfundi. Þá er ráðist í útboð á grundvelli vandaðra útboðsgagna og svo fylgjum við verkum eftir til þess að eigendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af framkvæmdinni. Við köllum eftir og semjum við verktaka.“


Verksýn er ekki framkvæmdaaðili þegar kemur að viðahaldi húsa heldur er ráðgjafi og hefur umsjón með að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Þannig geta viðskiptavinir leitað til fyrirtækisins þegar komið er að viðhaldi og látið Verksýn, með fulltingi annarra sérfræðinga, sjá um málið frá a til ö.


Vanda val á samstarfsaðilum

Segir Reynir m.a. að mjög mikilvægt sé að hafa reynslu af þeim verktökum sem kallaðir eru til starfa.


„Það er partur af okkar gæðakerfi. Við erum mjög grimm við verktakana, t.d. hvað varðar fjárhagsstöðu þeirra. 99% af okkar verkefnum fara í lokuð útboð. Við bjóðum tilteknum verktökum að bjóða í verk. Við auglýsum ekki eftir samstarfsaðilum. Það hefur einfaldlega ekki reynst vel. Eftir áratugi í þessum geira þekkir maður markaðinn mjög vel og þannig er sérstaklega hægt að sigta út þá aðila sem við teljum ekki hæfa til samstarfs.“


Hann segir verkefnin sem fyrirtækið komi að af öllum stærðum og gerðum. Stærri verkefnin séu um 250 milljónir að umfangi.


„Við segjum svo auðvitað ekki nei við litlu húsfélögin og sum verkefnin eru einhvers staðar á bilinu 10 til 15 milljónir og svo þar upp úr.“


Þá hefur Verksýn einnig komið að nýframkvæmdum, m.a. að skólamannvirkjum í Grindavík.

„Við störfuðum talsvert fyrir Grindavík á sínum tíma og það samstarf gekk allt mjög vel. Við komum þannig að eftirliti með uppbyggingunni á íþróttamiðstöðinni og Hópskóla sem eru glæsilegar byggingar. Síðarnefnda byggingin var hönnuð af Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. Það var mjög gaman að vinna með honum að þessu verkefni. Hann er mjög röggsamur arkitekt. Það var einnig byggt við grunnskólann í Grindavík og við gerðum einnig úttektir á öllum eignum bæjarins og það var staðið að miklum endurbótum á þeim eignum á árunum eftir hrun. Þau nýttu þann tíma mjög vel til að koma sínum eignum í gott stand.“


Þá hefur Verksýn einnig komið að mjög stórum verkefnum í Mosfellsbæ á síðustu árum.

„Við höfum verið byggingarstjóri að Helgafellsskóla frá árinu 2017. Þetta er verkefni sem er upp á u.þ.b. 3,5 milljarða og þarna erum við bæði eftirlitsaðili fyrir sveitarfélagið og ég skrifa upp á það sem byggingarstjóri. Í fyrri áfanganum fórum við í gegnum þetta með Ístaki og nú með Flotgólfi. Seinni áfanginn verður afhentur á næstu dögum.“


Hann segir að fyrirtækið vinni einnig að mörgum verkefnum fyrir Reykjavíkurborg.


„Við höfum m.a. eftirlit með nýju íþróttahúsi fyrir ÍR í Mjódd. Það er mjög spennandi verkefni. Þá erum við einnig að prófa okkur áfram með nýja nálgun á byggingarmarkaði. Það er fyrir fjárfesathóp sem er að byggja 70 íbúða hús í Vogahverfinu. Sá aðili er með verktaka sem einnig er byggingarstjórinn. Við erum hins vegar með gæðaeftirlit með höndum. Þetta er dálítið ný nálgun, þ.e. að það sé sérstakt gæðaeftirlit með húsnæði sem verið er að byggja og selja. Þetta mun draga úr hættunni á því að menn þurfi að standa í eftirhreytum og lagfæringum sem hefði verið hægt að ráðast í og laga með minni tilkostnaði á framkvæmdatímanum.“

Verksýn hafði umsjón með viðamiklum endurbótum á fjölbýlishúsi í Blikahólum …
Verksýn hafði umsjón með viðamiklum endurbótum á fjölbýlishúsi í Blikahólum í Breiðholti. Ljósmynd/Verksýn


Ný nálgun og spennandi

Reynir segist ekki vita hvort þessi nálgun muni ryðja sér til rúms.


„Ég vona að reynslan af þessu verði góð og að menn átti sig á að þetta sé heppileg aðferðafræði. Þetta kostar eitthvað meira á framkvæmdatímanum en þetta á að draga úr kostnaði við lok framkvæmda og afhendingu.“


Hann segir að þótt fyrirtækið feti þarna nýja slóð þá haldi það þéttingsfast í viðhaldsmarkaðinn. Þar liggi sérþekking fyrirtækisins ekki síst. Sá markaður þróist þó á hverjum tíma og samstarfið við Jón Má Halldórsson líffræðing sé dæmi um það.


„Við efndum til samstarfs við hann og fengum hann til liðs við okkur til þess að fást við úrlausn myglumála í húsum. Við höfum reynt að nálgast þau mál út frá aðferðafræði sem Danir eru mjög framarlega í. Þeir nálgast þetta þannig að þótt mygla komi upp þá séu hlutirnir ekki ónýtir. Það má koma hlutum í samt horf á ný. Við erum í samstarfi við danskt fyrirtæki sem er gott enda er það svo að mygla er þrálátara og erfiðara vandamál viðfangs í Danmörku en hér á landi en þar hefur það aldrei gerst að hús hafi verið rifið vegna myglu. Stundum er gengið langt í þessum málum hjá okkur og okkur hefur gengið ágætlega í verkefnum sem þessum, þ.e. að uppræta myglu og komast alfarið fyrir vandann.“


Reynir segir erfitt að svara því hvað geri fyrirtæki á borð við Verksýn framúrskarandi. Það séu án efa margir þættir.


„Við erum með mjög öflugan hóp starfsmanna og starfsmannaveltan er mjög lítil. Þá langar mig að nefna að foreldrar mínir voru fæddir í kringum 1925 og þau kenndu mér að sýna ábyrgð í fjármálum. Þannig hef ég rekið mín fyrirtæki. Það þarf að byggja þau rólega upp. Erum í Síðumúla 1 og þar erum við í eigin húsnæði, skuldum lítið og tökum lítið út úr rekstrinum. Við rekum þetta einfaldlega eins og hagsýn húsmóðir.“

Styttingin skipti sköpum

Hann segir skipta öllu að vera með ánægt starfsfólk.


„Þá er fólk tilbúið til að hlaupa hraðar. Við erum ekki með stimpilklukku. Við gerð síðustu kjarasamninga þegar farið var að tala um styttingu vinnuvikunnar og við veltum vöngum yfir því hvað við gætum gert til þess að bregðast við því. Við vorum þá með vinnutíma milli átta og fimm nema til klukkan fjögur á föstudögum. Þetta voru í kringum 37 stundir á viku. Við erum með margt barnafólk í vinnu og við tókum þá ákvörðun að stytta tímann þannig að hann væri frá 8:30 til 16:00 og til 15:00 á föstudögum. Við skárum u.þ.b. 20 tíma á mánuði af hverjum starfsmanni og framlegðin minnkaði ekki. Þetta var mjög djarft skref en það heppnaðist fullkomlega. Það kann fólk að meta.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar