Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 12 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Fjármála- og vátryggingastarfsemi |
Starfsemi | Starfsemi eignarhaldsfélaga |
Framkvæmdastjóri | Helgi Smári Gunnarsson |
Fyrri ár á listanum | 2014–2021 |
Eignir | 166.032.000 |
Skuldir | 112.989.000 |
Eigið fé | 53.043.000 |
Eiginfjárhlutfall | 31,9% |
Þekktir hluthafar | 20 |
Endanlegir eigendur | 98 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 19 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 27 |
Það fyrirtæki sem hlýtur hvatningarverðlaun Creditinfo og Festu fyrir framúrskarandi sjálfbærni árið 2022 er fasteignafélagið Reginn hf.
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri fyrirtækisins og segist hann gleðjast mjög yfir því að þessi viðurkenning skuli falla því í skaut.
„Við lítum á þetta sem mikla viðurkenningu fyrir okkur og staðfestingu á að sú mikla vinna sem við höfum lagt í þessi mál sé þess virði,“ segir Helgi.
„Fasteignir og rekstur þeirra eru mjög stór liður í kolefnislosun í samfélaginu. Það á líka við hér á landi þótt við búum við græna orku sem við nýtum í gegnum rafmagn og til húshitunar. Losunin hér í tengslum við fasteignir er mikil og þess vegna skiptir miklu máli að taka þessi mál föstum tökum. Við rekum mjög stórt eignasafn og erum líka í þeirri einstöku stöðu að við sjáum um rekstur á u.þ.b. þriðjungi safnsins.“
Vísar Helgi þar til stórra eigna á borð við Smáralind, Egilshöll og Höfðatorg, auk aðkomu að rekstri skólabygginga, t.d. í Hafnarfirði og í Garðabæ.
„Þetta gefur okkur tækifæri. Við getum haft mikil áhrif. Þetta birtist í því hvernig við högum ræstingum, öryggisgsælu, húshitun, kælingu og rafmagnsnotkun. Við erum einnig með marga veitingastaði, svo dæmi sé tekið, í okkar eignum og þar eins og í ýmsum öðrum rekstri skiptir máli hvernig farið er með úrgang, rusl og annað af þeim toga. Allt þetta hefur áhrif. Og við eigum að gera þær kröfur til okkar að vera fremst í flokki í þessum efnum.“
En Reginn er ekki aðeins leigusali. Fyrirtækið kemur að fasteignaþróun í margvíslegum skilningi og hefur t.d. haft gríðarleg áhif á mótun miðborgarinnar á síðustu árum. Fermetrarnir sem það hefur umleikis frá Hörpu og niður á Lækjartorg eru um 20 þúsund talsins og þar er að finna starfsemi af margri og ólíkri gerð.
„Við erum mjög stolt af því að 26% af húsnæði sem nú þegar er í notkun hjá okkur hefur fengið vottun sem er byggð á grundvelli BREEAM In-use-vottunar. Við erum jafnt og þétt að taka húsnæðið í gegnum þetta ferli en við viljum tryggja að sem mestur árangur náist sem fyrst og þá þarf að horfa á eldra húsnæði en tryggja um leið að nýja húsnæðið, sem fjárfest er í, uppfylli allar þessar kröfur allt frá upphafi. Því ætlum við okkur að votta þær nýbyggingar sem við erum og munum byggja. Þetta á t.d. við um mjög spennandi verkefni við Dvergshöfða 4. Þar tókum við yfir grunn og bílakjallara, réðumst í samkeppni um útfærslur og hönnun á húsnæðinu. Við erum núna að ganga frá leigusamningum og vonandi geta framkvæmdir hafist fljótlega.“
Markmiðið er að 50% af eignasafni Regins verði vottað BREEAM-In use-vottun fyrir lok árs 2025.
Helgi viðurkennir að áhersla á sjálfbærni auki flækjustigið í rekstri fyrirtækisins og viðfangsefnið sé oft krefjandi.
„Þessu fylgja miklar kvaðir en þar liggja líka mikil tækifæri. Það þarf fólk með reynslu af þessum málum til að keyra þessa umbreytingu áfram. Og þá dugar ekki að treysta aðeins á utanaðkomandi ráðgjafa þótt við séum í sambandi við slíka bæði hér heima og erlendis. Það verður að byggja upp þekkinguna innanhúss og það höfum við gert. Hjá okkur starfar fólk sem hefur heimildir til þess að taka eignir í gegnum vottunarferli sem þetta og það eru réttindi sem fólk hefur þurft að afla sér erlendis.“
Segir Helgi að áherslan á sjálfbærni í rekstri fyrirtækja, bæði þá sem lúti að umhverfinu en ekki síður efnahags- og félagshlið rekstursins, sé eitt dæmi af mörgum um það breytingaferli sem fyrirtæki standa ætíð frammi fyrir.
„Við sáum þetta um miðjan 10. áratug síðustu aldar. Þá var mikil áhersla á ferla og það leiddi til byltingar í rekstri margra fyrirtækja. Svo var það breytingatímabil tengt stjórnskipulagi og stjórnháttum fyrirtækja sem stóð frá 2004 og má segja til 2015 eða 2020. Þetta hefur allt mikil áhrif á fyrirtæki og menn verða einfaldlega að taka þátt í þessari þróun. Annars verða fyrirtækin bara út undan.“
Segir Helgi að á komandi árum verði sífellt fleiri fyrirtæki að feta sömu slóð og Reginn hefur gert á undanförnum árum. Sjálfbærni hafi t.a.m. síaukin áhrif á fjármögnunarmöguleika fyrirtækja.
„Við vorum fyrsta fyrirtækið til þess að gefa út græn skuldabréf. Við finnum fyrir því í útboðum núna að okkur gengur betur í þeim vegna þess að við höfum á að skipa stóru safni grænna skuldabréfa. Fjárfestar líta á það sem mikinn kost. Og það kemur ekki aðeins fram á skuldahliðinni heldur einnig gagnvart eigendum fyrirtækisins. Lífeyrissjóðir eru stórir leikendur á þessum markaði og þeir leggja mikla áherslu á þessi mál. Fleiri fjárfestar hafa svo fylgt í kjölfarið. Ég er ekki sannfærður um að græn skuldabréf eða áhersla á sjálfbærni muni endilega skila betri fjármögnunarkjörum fyrir fyrirtæki í framtíðinni. Það verður einfaldlega erfitt að selja skuldabréf sem uppfylla ekki skilyrðin,“ segir Helgi.
Og markaðurinn er á sífelldri hreyfingu og Reginn sækir fram á ýmsum sviðum þar sem sjálfbærni leikur mikilvægt hlutverk.
„Við erum t.d. inni í verkefninu hjá Klasa fasteignaþróunarfélagi sem lýtur að uppbyggingu í kringum Borgarhöfðann. Það er skipulag sem er BREEAM-vottað og þar verða reist mannvirki á grundvelli þeirrar hugsunar. Það er ný nálgun og við erum mjög spennt fyrir aðkomu að uppbyggingunni, sem horfir til sjálfbærni, bæði efnahagslega og umhverfislega,“ útskýrir Helgi og bendir á að nú sé með öllu horfið frá uppbyggingu „svefnhverfa“.
„Nú er horft til þess hvar fólk ætlar að búa og starfa og hvert fólk sækir þjónustuna. Þetta er í raun allt ný hugsun sem er að umbylta Reykjavík eins og mörgum öðrum borgum. Þetta hefur mikil áhrif t.d. á fyrirtæki eins og okkar sem er með mörg bílastæði í sínu eignasafni. Þarna eigum við eftir að sjá mun meiri breytingar en ég held að margir átti sig á,“ segir Helgi.
Hann hefur trú á því að íslenskt efnahagslíf sé í góðri stöðu til að halda áfram á þessari vegferð enda séu undirstöðurnar góðar þótt óveðursský séu við sjóndeildarhringinn í hagkerfinu og í löndunum í kringum okkur.
„Fyrirtæki eru að skila góðri afkomu hér á landi og það er heilbrigðismerki og hagkerfið náði að sigla ótrúlega sterkt í gegnum faraldurinn. Það voru vissulega ákveðnir geirar sem urðu fyrri þungu höggi en þeir eru að rísa mjög hratt upp að nýju. Ég held að efnahagslegur styrkur þjóðfélagsins sé gríðarlegur og að fyrirtæki séu í annarri og betri stöðu en áður til að fylgja sjónarmiðum um sjálfbærni eftir.“
Hann segist ekki hafa áhyggjur af mögulegri lækkanahrinu á fasteignamarkaði.
„Hér urðu miklar hækkanir á húsnæðisverði. Þar réð lóðaskortur miklu og þegar miklar vaxtalækkanir koma ofan í slíkt ástand verður einfaldlega sprenging á markaðnum. Ég held að það hafi þurft einhverja hækkun á markaðnum en þetta var sennilega fullhressilegt. Svo jafnar þetta sig í rólegheitum yfir eitthvert tímabil. Ég held því að sveiflurnar verði ekki öfgakenndar.“
Nýverið tók Reginn í gagnið nýjustu og glæsilegustu mathöll landsins í Hafnartorgi og Helgi segir að viðtökurnar hafi verið mjög góðar.
„Þetta hefur fengið mjög góða dóma og er að mörgu leyti síðasti áfanginn í þessari miklu uppbyggingu okkar í miðborginni. Nú þegar Landsbankinn tekur nýjar höfuðstöðvar í gagnið þá er komin góð heildarmynd á þetta en aðsóknin í verslanir og á veitingahúsin er nú þegar gríðarlega góð.“
Enn hefur ekki sést til sérverslana á borð við Gucci og Luis Vuitton sem mikið var skrafað um að væru á leiðinni í dýrmæt verslunarrými í eigu Regins á svæðinu.
„Stór og þekkt merki munu koma hingað. Það er bara spurning um tíma og þau voru reyndar komin með tærnar inn fyrir þröskuldinn þegar faraldurinn skall á. Við erum komin með góða reynslu af þessu og það má nefna að H&M kom til landsins fyrir tilstilli Regins og breytti með því markaðnum til frambúðar. Það var langt og strangt ferli en það hafðist. Það er mikilvægt að fipast ekki og hætta við þótt hlutirnir gangi ekki alltaf eftir plani. Það þarf að vera hægt að laga sig að breyttum aðstæðum. Við erum í stakk búin til þess,“ segir Helgi.