Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 63 |
Landshluti | Suðurnes |
Atvinnugrein | Rafmagns-, gas- og hitaveitur |
Starfsemi | Viðskipti með rafmagn |
Framkvæmdastjóri | Júlíus Jón Jónsson |
Fyrri ár á listanum | 2013–2021 |
Eignir | 31.083.485 |
Skuldir | 16.167.060 |
Eigið fé | 14.916.425 |
Eiginfjárhlutfall | 48,0% |
Þekktir hluthafar | 3 |
Endanlegir eigendur | 19 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 3 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 3 |
Í kringum 80.000 manns reiða sig á að fá rafmagn og heitt vatn frá HS veitum en fyrirtækið þjónustar heimili og vinnustaði allt frá Reykjanesi til Vestmannaeyja, í Hafnarfirði og Garðabæ vestan Hraunholtslækjar. Á Suðurnesjunum og í Vestmannaeyjum dreifir þetta 95 manna fyrirtæki heitu og köldu vatni og rafmagni, en í Árborg, Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi dreifa HS veitur rafmagni eingöngu.
HS veitur hafa verið í hópi Framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010. Heyra má á Júlíusi Jónssyni, forstjóra félagsins, að ýmsar áskoranir séu fram undan á íslenskum orkumarkaði. Hann segir ljóst að rafbílavæðingin muni kalla á töluverða fjárfestingu í raforkudreifikerfum landsins en HS veitur hafa búið í haginn fyrir þessa þróun með innleiðingu snjallra rafmagnsmæla.
„Það tók okkur um það bil fimm ár að snjallvæða kerfið og kostaði vel á annan milljarð króna, en snjallmælar eru forsenda þess að geta betur stýrt álagi í dreifikerfinu og boðið raforku á lægra verði á vissum tímum dagsins,“ útskýrir Júlíus.
Nýverið hóf orkusalan Straumlind að bjóða viðskiptavinumá dreifisvæði HS veitna að kaupa raforku á nóttunni með afslætti. Geta viðskiptavinirnir þá stillt hleðslustöðvar sínar og rafmagnsbíla þannig að hleðslan fari fram löngu eftir að búið er að slökkva á eldavélum, þvottavélum og sjónvörpum og rafmagnsnotkun heimilanna er í lágmarki.
Vaxandi drægni mun breyta álaginu
Júlíus bendir á að með þessu móti nýtist innviðir dreifikerfisins betur og ekki verði eins brýnt að fjárfesta í meiri flutningsgetu.
„Snjallmælarnir hafa líka þann kost að það nægir að votta þá á tólf ára fresti, en gömlu rellumælarnir verða að fara í vottun með fimm ára millibili. Við getum líka vaktað dreifikerfið mun betur og ef bilun kemur upp getum við strax séð hvað olli henni.“
Þó að snjallmælarnir hjálpi mikið segir Júlíus að ljóst sé að rafbílavæðingin kalli á að komið verði upp öflugri tengingum.
„Hönnunarforsendur kerfisins, eins og það hefur verið til þessa, eru að dæmigert hús noti í mesta lagi 2-3 kílóvött en nú vilja margir setja upp hjá sér hleðslustöðvar sem eru 20 kílóvött eða meira.“
Hvort það þýði að grafa þurfi upp allar götur og tvö- eða þrefalda rafmagnstengingar heimilanna skal ósagt látið.
„Vaxandi drægni rafbíla mun breyta álaginu á kerfið og ekki sama þörfin fyrir að stinga bíl með 400 km drægni í samband oft í viku. Þá eru ýmsir möguleikar fyrir hendi við að koma fyrir öflugri hleðslustöðvum á völdum stöðum, en það að koma upp 2-3 megavatta hraðhleðslustöð kallar á að leggja nýja strengi og koma fyrir nýrri spennistöð og er framkvæmd sem hleypur á 30-40 milljónum,“ segir Júlíus.
„Fyrirtæki eins og okkar þarf að vakta þróunina vel, koma snemma auga á veikleikana og huga að því hvar við þurfum að efla okkur og styrkja.“
Höfum lært að meta orkuna
Orkumál hafa verið mjög í deiglunni undanfarna mánuði. Íbúar á meginlandi Evrópu eru ekki öfundsverðir af því að standa straum af þeim verðhækkunum sem komu í kjölfar innrásar Rússlandshers í Úkraínu. Hefur orkuvandi Evrópu minnt rækilega á hve miklu það skiptir fyrir lífsgæði fólks og fyrir þrótt heilu hagkerfanna að hafa greiðan aðgang að orku sem kaupa má á góðu verði og í því magni sem samfélagið þarf. Júlíus tekur undir að það virðist kominn breyttur tónn í umræðuna á Íslandi og virðast bæði almenningur og kjörnir fulltrúar betur meðvitaðir um að nálgast þurfi orkumálin af skynsemi og framsýni.
„Umræðan um orkumál hefur verið erfið, og því miður eiga stjórnmálamenn það til að sneiða hjá óþægilegum verkefnum. Við, sem störfum í orkugeiranum, höfum talað um það lengi að auka þyrfti orkuframboðið og huga tímanlega að framkvæmdum,“ segir Júlíus.
Hann segir að sums staðar á landinu sé lítið svigrúm til að útvega þá raforku sem atvinnulífið kallar eftir. Annars staðar hafi yfirvöld rekið sig á að framboðið á heitu vatni hélt ekki í við íbúafjölgun.
„Þegar þessi vandamál koma upp þá er ekki hægt að laga þau með því að segja hókus pókus. Það að ætla t.d. að sækja meira af heitu vatni kallar á rannsóknir á jarðhitasvæðum sem taka langan tíma. Hvort sem um er að ræða rafmagnsvirkjun eða heitavatnsvirkjun þá er vel sloppið ef það tekur tíu ár að hefja starfsemi.“