Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 200 |
Landshluti | Suðurland |
Atvinnugrein | Rekstur gististaða og veitingarekstur |
Starfsemi | Hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu |
Framkvæmdastjóri | Sigríður Vilhjálmsdóttir |
Fyrri ár á listanum | 2012–2021 |
Eignir | 2.444.051 |
Skuldir | 1.417.015 |
Eigið fé | 1.027.036 |
Eiginfjárhlutfall | 42,0% |
Þekktir hluthafar | 1 |
Endanlegir eigendur | 1 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 3 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 3 |
Hótel Geysir í Haukadal er fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið í uppbyggingu í hartnær heila öld, eða allt frá því að Haukadalsskólinn var og hét. Ein og sama fjölskyldan hefur byggt upp svæðið frá árinu 1927 og rekur hótel og aðra þjónustu á svæðinu.
Elín Svafa Thoroddsen, sem rekur hótelið ásamt manni sínum, Sigurði Mássyni, og tengdafjölskyldu, segir árið hafa gengið mjög vel, enda fyrsta heila sumar hótelsins án heimsfaraldurs.
„Þetta er bara búið að vera mjög gott ár,“ segir Elín en fyrirtækið opnaði hið nýja og glæsilega hótel síðsumars 2019 – um átta mánuðum áður en heimsfaraldur skall á. Elín segir að enn sé stærsti kúnnahópurinn Íslendingar; bæði séu fyrirtækjaheimsóknir vinsælar og einnig séu smærri vinahópar og einstaklingar tíðir. Af erlendum ferðamönnum eru Bandaríkjamenn stærsti hópurinn.
„Þeir voru þeir fyrstu til þess að fá að ferðast og heimsækja Ísland, það er náttúrulega uppsöfnuð ferðaþrá,“ segir hún.
„Það er aftur á móti gaman að sjá hvað Íslendingar eru enn duglegir að vilja ferðast hér heima. Covid var líka ákveðin útivistarbylting, fólk er að mæta með hjólin og taka smá hring áður en farið er að njóta.“
Greiða fyrir íslenskukennslu
Hjarta hótelsins kveður Elín vera kjarnahóp starfsfólksins, og hápunkt ársins þegar afhent var húsnæði fyrir starfsfólkið, sem hefur verið í byggingu um tíma.
„Þau voru að flytja inn í sumar og það sem hefur verið ánægjulegast á árinu er að hafa getað afhent þetta húsnæði svo fólk geti fest rætur og komið sér vel fyrir,“ segir hún, en byggt var í Reykholti þar sem finna má skóla, sundlaug, verslun og annars konar þjónustu.
„Það hafa verið nokkur hjónabönd hjá okkur og nokkur börn,“ segir Elín og hlær en auk húsnæðisuppbyggingarinnar hefur hótelið greitt niður íslenskukennslu fyrir starfsfólk sitt af erlendum uppruna.
„Okkur finnst það mjög mikilvægt að fólki líði vel hjá okkur og geti komið sér vel fyrir.“
Á móti hótelinu má finna þjónustukjarna þar sem finna má veitingastaði og verslanir. Elín segir að á meðan hótelið hafi sloppið vel út úr faraldrinum hafi höggið verið meira á þjónustukjarnann.
„Það var meira högg þar sem við vorum ekki með neina erlenda ferðamenn [í heimsfaraldrinum], en við reyndum að hafa opið eins og hægt var miðað við takmarkanir og vorum með mikið af Íslendingum, sem var alveg frábært. Það eru svo skemmtilegir gestir og gaman að þeir séu ennþá svona stór hluti.“
Í fyrrasumar opnaði fyrirtækið síðan aftur fataverslunina Geysi í þjónustukjarnanum, eftir að keðjan hafði lagt upp laupana í borginni. Áður hafði hótelið rekið búðina en leigði hana út árið 2006 þegar umfangið í kringum hana stækkaði.
Elín kveðst gríðarlega þakklát að hótelið hafi náð þeim árangri sem raun ber vitni, en hótelið hefur verið á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki í 13 ár.
„Við erum allavega mjög ánægð að hafa náð því, sem hótel,“ segir hún en heimsfaraldurinn setti vitanlega stórt strik í reikninginn stuttu eftir opnun.
„Maður vissi náttúrulega ekki hvernig þetta myndi fara, eftir þessa risastóru fjárfestingu. Við fórum mjög rólega af stað, því við höfðum aldrei rekið svona stóra einingu áður. Við vildum prófa okkur áfram, þjálfa starfsfólkið og svoleiðis. Við fórum ekkert af fullum krafti strax í þetta, vorum ekki að auglýsa okkur eða þannig.“
Áður samanstóð hótelið af 28 smáhýsum við ána í Haukadal en hið nýja hótel er risavaxið og glæsilegt, byggt frá grunni þar sem gamli veitingastaðurinn var.
„Við rifum alveg gamla veitingastaðinn og byggðum nýtt hótel þar. Framkvæmdir hófust 2015 þannig að við tókum góðan tíma í þetta,“ segir hún en svæðið á sér ríka sögu.
Sú saga hefst árið 1927 þegar Sigurður Greipsson stofnaði Haukadalsskólann, íþróttaskóla á svæðinu þar sem íslenska glíman var höfð í öndvegi. Tæpri hálfri öld síðar, árið 1972, hóf sonur Sigurðar og tengdafaðir Elínar heitinn, Már Sigurðsson, uppbyggingu á ferðaþjónustu við Geysi ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Vilhjálmsdóttur. Enn má finna gamla útveggi íþróttaskólans í veitingasal hótelsins.
„Við erum ennþá að fá heimsóknir frá gömlu nemendunum úr skólanum sem koma hingað inn og segja: „Hérna varð ég að manni“ og rétta svo úr sér,“ segir Elín og bætir við að enn sé arfleifðin heiðruð með myndum af nemendum og sögu glímunnar á veggjum hótelsins.
„Við erum með gömlu hestana úr íþróttaskólanum og náttúrulega glímumyndir úti um allt. Sigurður Greipsson var svo mikill glímukappi og hlaut mörg verðlaun fyrir starf sitt í glímunni, ungmennaforingi líka.“
Hún segir útlendingana oft furða sig á því hvað sé eiginlega um að vera á myndum og myndskeiðum af glímunni auk muna sem finna má víðsvegar um hótelið og veitingastaðinn, sem ber einmitt nafnið „Geysir glíma“. Þar má nefna Grettisbeltið, einn elsta verðlaunagrip Íslandssögunnar, sem er í brynvörðu gleri á veitingastaðnum.
„Það má segja að þetta sé eina þjóðaríþrótt Íslendinga,“ segir Elín og hlær.
Það er því ljóst að haldið er upp á söguna á hótelinu.
„Það er alls konar saga hérna sem hægt er að rekja alla leið til Ara fróða,“ segir hún og bætir við að bæði erlendum ferðamönnum, sem og Íslendingum, komi það oft í opna skjöldu, enda sé Geysir helsta aðdráttaraflið. Fólk fái því ríkulega sögu í kaupbæti.
Rétt er að halda til haga að Haukdælir voru ein helsta valdaætt landsins frá landnámi fram undir lok Sturlungaaldar.
„Það er í kortunum hjá okkur að gera aftur safn, því það er svo mikil saga hérna, ekki bara hverinn,“ segir Elín og á þar að sjálfsögðu við hinn eina sanna Geysi sem finna má í bakgarðinum nánast, svo nálægt hótelinu er hann.
Byggja 40 svítur til viðbótar
Varðandi framtíðarplön hótelsins segir Elín Svafa að þau vinni nú í að stækka við hótelið, sem er nú með 77 herbergi.
„Framundan er að bæta við 40 herbergjum sem verða eingöngu svítur,“ segir hún en mun meiri eftirspurn var eftir svítum en þau bjuggust við.
„Og svo förum við í það að gera spa. Það er mjög mikið spurt um þetta spa og hvenær það verður tilbúið,“ segir hún glettin.
„Þannig að það verður rúsínan í pylsuendanum. Við erum mjög spennt fyrir því og okkur mun greinilega ekki leiðast á næstunni.“