Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 12 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Fasteignaviðskipti |
Starfsemi | Leiga íbúðarhúsnæðis |
Framkvæmdastjóri | Bjarni Þór Þórólfsson |
Fyrri ár á listanum | 2021–2022 |
Eignir | 77.472.306 |
Skuldir | 41.764.293 |
Eigið fé | 35.708.013 |
Eiginfjárhlutfall | 46,1% |
Þekktir hluthafar | 1 |
Endanlegir eigendur | 1 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 1 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 1 |
„Framtíðarsýn okkar er að skapa félagsmönnum og búseturéttarhöfum virði til framtíðar í formi húsnæðis af gæðum og góðrar þjónustu. Búseti er húsnæðissamvinnufélag og markmið félagsins er að byggja, reka og viðhalda íbúðarhúsnæði til langs tíma í þágu félagsmanna,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson,framkvæmdastjóri Búseta sem á sér einkar farsæla sögu og fagnar 40 ára afmæli á þessu ári. „Með því að gerast félagsmaður Búseta þá áttu þennan möguleika að geta keypt búseturétt. Því fyrr sem þú gerist félagsmaður því betra og til að mynda þekkist að foreldrar skrái börn sín sem félagsmenn. Þau geta vitanlega ekki keypt búseturéttinn sinn fyrr en þau ná aldri til en hins vegar er það þannig að því eldra númer því betra. Félagsmenn geta svo sótt um hvaða íbúð Búseta sem auglýst er til sölu og sá sem er með elsta númerið getur keypt búseturéttinn á íbúðinni. Búseturétturinn sjálfur er því skilgreind eign sem er alltaf tengd sama fastanúmerinu og það er réttur viðkomandi að búa í eigninni eins lengi og hann vill. Það er einungis eigandi búseturéttarins sem getur ákveðið að selja búseturéttinn,“ segir Bjarni og bætir við að búseturéttur sé mjög þekkt fyrirkomulag á Norðurlöndunum og um það bil fjórðungur af sænsku þjóðinni býr í svipuðu kerfi.
Farsæll kostur fyrir fyrstu kaupendur
Bjarni talar um að félagið hafi í gegnum árin reynst fyrstu kaupendum farsæll kostur enda er oft erfitt að koma sér inn á fasteignamarkaðinn.Sérstaklega skipti það miklu máli í dag þegar verðbólgan er mjög há. „Segjum sem svo að þú borgir fimm milljónir fyrir búseturétt. Þegar þú selur búseturéttinn eftir fimm ár þá er þessi eign uppreiknuð út frá vísitölu neysluverðs og fylgir þar með alltaf verðlagi. Þessa dagana er til dæmis fasteignaverð að gefa eftir og gæti mögulega lækkað áþreifanlega eins og gerist á einhverra ára millibili, sérstaklega þegar það er einhver bólumyndun eins og hefur verið upp á síðkastið. Búseturétturinn gefur hins vegar ekki eftir því hann heldur í við verðlagsþróun sem skiptir gríðarlega miklu máli þegar verðbólga er mjög há.“ Þá talar Bjarni um að Búseti bjóði upp á fjölbreytt úrval fasteigna fyrir einstaklinga og fjölskyldur í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. „Við bjóðum upp á um1.400 íbúðir sem allar eru á höfuðborgarsvæðinu. Þar af eru um 400 íbúðir leigðar út með hefðbundnum hætti á vegum dótturfélags Búseta sem kallast Leigufélag Búseta.“
Allt ytra viðhald innifalið
Búseti hefur byggt ötullega á síðustu árum og hafa fasteignaverkefnin vakið athygli, til að mynda byggingarverkefni félagsins við Einholt, Þverholt og Keilugranda í Reykjavík. Bjarni talar um að á síðustu sex árum hafi íbúðum félagsins fjölgað um ríflega 100 á ári að meðaltali. „Í síðustu nýbyggingarverkefnum félagsins má finna minni íbúðir á hagkvæmum kjörum sem höfða til fólks sem er að kaupa sína fyrstu eign. Og Búseti sér um allt ytra viðhald á húsunum sem fólk býr í án aukakostnaður fyrir íbúa. Íbúar þurfa því ekki að óttast óvænt útgjöld vegna kostnaðarsamra utanhússviðgerða. Félagsmenn eru vitanlega eigendur Búseta og við erum svo heppin að fá góð kjör á öllu viðhaldi. Ég líki þessu stundum við það að við hjá Búseta séum að reka eitt risastórt heimili því í krafti magns þá njótum við betri kjara. Þannig getum við rekið fyrirtækið með hagkvæmum hætti sem síðan allir íbúar njóta góðs af.“
Sterk fjárhagsstaða
Aðspurður hvað það sé helst sem geri fyrirtæki framúrskarandi segir Bjarni að framúrskarandi fyrirtæki byggi á mismunandi kjarnahæfni. „Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að stunda góða stjórnarhætti um leið og lagður er grunnur að ábyrgri stjórnun og ákvarðanatöku. Þau eiga það sameiginlegt að vera með rekstur sem byggir á sterkum stoðum, er í jafnvægi og almennt með sterka eiginfjárstöðu. Við bætast svo auðvitað þau hlutlægu viðmið þeirra sem leggja mat á framúrskarandi félög eins og Creditinfo gerir mjög vel,“ segir Bjarni og bætir við að það sé mikils virði fyrir samstæðu Búseta að vera á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki en bæði móðurfélagið og dótturfélagið eru á þessum lista. „Skilgreiningin endurspeglar heilbrigðan og traustan rekstur og á við um félög sem njóta trausts. Rekstur Búseta hefur gengið vel undanfarin ár og hefur félagið vaxið og dafnað. Á undanförnum fimm árum hafa heildareignir samstæðu félagsins til dæmis vaxið úr um 38,8 milljörðum króna í um 77,5 milljarða og eigið fé vaxið úr um 13,2 milljörðum króna í um 35,7 milljarða. Á sama tíma hefur íbúðum í rekstri félagsins fjölgað úr 850 í um 1.400. Nýframkvæmdir hafa gengið vel sem og rekstur félagins og er fjárhagstaða þess mjög sterk en eiginfjárhlutfallsamstæðunnar í árslok 2022 nam 46,1%. Á þessu sama tímabili hefur verið mikil eftirspurn eftir íbúðum félagsins og ekki útlit fyrir að breyting verði þar á. Það má því segja að staða Búseta sé mjög góð og framtíðin björt.“
Gleymum ekki að fagna sigrunum
Bjarni segir að það sé ekki auðvelt að ná svona árangri og þar skipti mannauðurinn höfuðmáli en hjá Búseta starfa 18 manns. „Við búum svo vel hérna að fólk er sumt hvert búið að vera mjög lengi hjá okkur og þetta er svo heppileg blanda af fólki sem er með mikla þekkingu og reynslu og nýrra starfsfólki sem kemur inn með nýja strauma og dýnamík. Það sem skiptir öllu máli er kjarnahæfnin, liðsheildin og andinn sem ríkir í teyminu. Þetta samspil auðlinda er svo grunnurinn að því að búa til hæfni og kjarnahæfni sem og forskot í samkeppnisumhverfi,“ segir Bjarni auðmjúkur og bætir við að það sé ekki nóg að hafa góðan mannauð heldur þarf líka að halda í þennan góða mannauð. „Þá þarf að hlúa vel að starfsfólki og gera það sem hægt er til að skapa jákvætt hlaðna menningu og dýnamík í öllu samstarfi þannig að fólk langi til þess að vera í þessum hópi fólks sem dregur saman vagninn og lætur gott af sér leiða í þágu einhvers málstaðar. Þetta er svolítið eins og að þjálfa íþróttafélag eða hóp íþróttamanna. Fólk þarf alltaf að hafa sameiginleg markmið, það þarf að vita hvert maður stefnir til að allir hlaupi í sömu átt og svo má aldrei gleyma að fagna sigrunum. Það er svo hvetjandi fyrir starfsfólkað hafa náð markmiðum sínum og fagna því.“
svanhvit@mbl.is