57 Deloitte ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 57
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi
Starfsemi Reikningshald, bókhald og endurskoðun; skattaráðgjöf
Framkvæmdastjóri Þorsteinn Pétur Guðjónsson
Fyrri ár á listanum 2016–2022
Framúrskarandi 2023

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 3.176.336
Skuldir 2.006.402
Eigið fé 1.169.934
Eiginfjárhlutfall 36,8%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 6
Endanleg eign í öðrum félögum 8

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Reikningshald, bókhald og endurskoðun - skattaráðgjöf

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Framúrskarandi fólk hjá Deloitte

„Í þekkingar- og þjónustufyrirtæki eins og Deloitte byggir þetta mikið …
„Í þekkingar- og þjónustufyrirtæki eins og Deloitte byggir þetta mikið á traustu viðskiptasambandi og samskiptum við fólkið okkar, hvernig við miðlum ráðgjöf og þekkingu og hlustum á þarfir og áskoranir viðskiptavina. Framúrskarandi fyrirtæki byggja einfaldlega á framúrskarandi fólki sem við erum svo lukkuleg að vera með.“ Ljósmynd/aðsend

„Við erum auðvitað stolt af að tilheyra flokki framúrskarandi fyrirtækja og er sú viðurkenning merki um þá miklu og góðu vinnu sem okkar fólk leggur til á degi hverjum og hefur skilað sér í góðum árangri fyrir Deloitte,“ segir Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte. „Að vera framúrskarandi fyrirtæki er afrakstur margra þátta og til dæmis höfum við haft skýra stefnu og markmið sem byggja á gildum Deloitte. Stefna okkar snýr líka að því að vera leiðandi á markaðnum og þar eru þrjár grunnstoðir sem við horfum helst til. Það er starfsfólkið, viðskiptavinir og samfélagið sem við öll tilheyrum. Forsenda þess að ná árangri er að hlúa að þessum háttum,“ segir Þorsteinn og bætir við að Deloitte geri það svo sannarlega og ekki eingöngu í orði heldur líka á borði. „Við höfum lagt mikið upp úr því að láta gott af okkur leiða og til að mynda býðst starfsfólki okkar að nýta einn dag á ári til góðra verka út í samfélaginu. Síðan tökum við þátt í mörgum góðum verkefnum eins og að Rampa upp Ísland með Haraldi Þorleifssyni en við höfum stutt það verkefni frá upphafi. Mér finnst mikilvægt að við látum gott af okkur leiða í samfélaginu og við gerum það í reynd.“

Breið sérfræðiþekking innan Deloitte

Aðspurður hverjir séu helstu styrkleikar Deloitte segir Þorsteinn að hann leyfi sér að fullyrða að Deloitte sé frábær staður fyrir fólk að vaxa og dafna. „Við leggjum mikla áherslu á þekkingaröflun og þjálfun starfsfólksins auk þess að gefa fólki andrými til að finna sinn stað hjá okkur. Það eru miklir möguleikar til starfsþróunar enda vinnum við mikið þvert á svið til að ná sem bestum árangri fyrir viðskiptavini okkar. Það er þessi breiða sérfræðiþekking innan raða Deloitte sem er okkar sérstaða og aðgreinir okkur frá samkeppnisaðilum okkar,“ segir Þorsteinn sem sjálfur er gott dæmi um starfsmann sem fékk að vaxa og dafna hjá fyrirtækinu. „Ég byrjaði haustið 2000 hjá Deloitte þannig að ég er búinn að vera hér í 23 ár,“ segir Þorsteinn og hlær. „Ég byrjaði hjá Deloitte með skóla og var fyrst og fremst að læra hvað endurskoðun snýst um og læra að gera ársreikninga. Svo þróaðist ég og þroskaðist, var fyrst yfir reikningsskilunum hér innandyra og verð svo sviðsstjóri endurskoðunarsviðs árið 2014. Síðan tek ég við forstjórastöðunni árið 2019. Og ég er ekki einstakt dæmi heldur gerist þetta gjarnan hjá okkur, fólk kemur ungt til starfa og þroskast í starfi og tekur við stjórnendastöðu eftir einhver ár. Það eru mjög margir hjá Deloitte sem eru uppaldir hér.“

Fjölbreytt ráðgjafaþjónusta

Deloitte verður 30 ára í mars á næsta ári og hjá fyrirtækinu starfa um 280 manns. Þorsteinn talar um að í upphafi hafi Deloitte einblínt á endurskoðun, ársreikningagerð og bókhald en síðari ár hafi fyrirtækið líka sinnt alls kyns ráðgjöf og ráðgjafaþjónustu. „Við erum til að mynda með um fimmtíu manns sem starfa við upplýsingatækniráðgjöf þar á meðal forritara og annað frábært fólk með tæknilega sérþekkingu. Við sinnum því ekki bara endurskoðun heldur líka fjármálaráðgjöf, upplýsingatækniráðgjöf og áhætturáðgjöf. Þetta er mjög fjölbreytt þjónusta sem við bjóðum upp á.“

Traust viðskiptasamband

Þorsteinn talar um að til að vera framúrskarandi sé mikilvægt að vera ekki hræddur við breytingar. „Framúrskarandi fyrirtæki sætta sig ekki við óbreytt ástand og leita leiða til að gera eitthvað nýtt og spennandi, hvort sem það er í gegnum endurbætur á ferlum, tækniframfarir eða öðru. Við eigum ekki að hika við að gera breytingar. Það er svo sambland ýmissa þátta sem stuðla að viðvarandi vexti fyrirtækja og að sjálfsögðu er það ánægja viðskiptavina og starfsmanna sem er óumdeilanlega mikilvægasti þátturinn í rekstrinum. En það er líka mikilvægt að vera með framtíðarsýn, að vera með langtímastefnu og vita hver tilgangur félagsins er. Við þurfum líka auðvitað að veita starfsfólkinu okkar innblástur og hvatningu. Í þekkingar- og þjónustufyrirtæki eins og Deloitte byggir þetta mikið á traustu viðskiptasambandi og samskiptum við fólkið okkar, hvernig við miðlum ráðgjöf og þekkingu og hlustum á þarfir og áskoranir viðskiptavina. Framúrskarandi fyrirtæki byggja einfaldlega á framúrskarandi fólki sem við erum svo lukkuleg að vera með,“ segir Þorsteinn að lokum.

svanhvit@mbl.is

Þorsteinn Pétur Guðjónsson: „Stefna okkar snýr líka að því að …
Þorsteinn Pétur Guðjónsson: „Stefna okkar snýr líka að því að vera leiðandi á markaðnum og þar eru þrjár grunnstoðir sem við horfum helst til. Það er starfsfólkið, viðskiptavinir og samfélagið sem við öll tilheyrum. Forsenda þess að ná árangri er að hlúa að þessum háttum.“ Ljósmynd/aðsend
mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar