Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 134 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Framleiðsla |
Starfsemi | Vélvinnsla málma |
Framkvæmdastjóri | Rögnvaldur G Einarsson |
Fyrri ár á listanum | 2010–2019 |
Eignir | 2.117.609 |
Skuldir | 963.871 |
Eigið fé | 1.153.738 |
Eiginfjárhlutfall | 54,5% |
Þekktir hluthafar | 11 |
Endanlegir eigendur | 12 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 3 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 3 |
Í dag hlýtur Héðinn hf. hvatningarverðlaun Creditinfo og KLAK- Icelandic Startups fyrir Framúrskarandi nýsköpun 2023 en þrátt fyrir að vera 101 ársgamalt fyrirtæki eftir örfáa daga þá hefur Héðinn ætíð stundað nýsköpun af krafti. Til að mynda reisti Héðinn fyrstu íslensku síldarverksmiðjuna á Seyðisfirði árið 1936 og árið 1951 þróaði fyrirtækið og framleiddi fyrstu íslensku heimilisþvottavélina, Mjöll, í samvinnu við Rafha. Rögnvaldur Einarsson, framkvæmdastjóri Héðins, segir að starfsfólk Héðins leggi mikinn metnað í vinnu sína og þar á meðal í nýsköpun en Héðinn er leiðandi fyrirtæki í málmiðnaði og véltækni og sinnir fjölbreyttri þjónustu við sjávarútveg, stóriðjufyrirtæki og orkuframleiðendur innanlands og utan. „Hin síðari árhefur áhersla á nýsköpun orðið meiri og markvissari hjá okkur. Síldarverksmiðjan sem við reistum hefur varla verið talin sérstaklega til nýsköpunar á þeim tíma, þó hún hafi svo sannarlega verið það. Þá þurfti að reisa upp verksmiðju í einum grænum sem var og gert. Sú þekking sem varð til við eina verksmiðju færðist svo yfir í þá næstu og tíðarandi hvers tíma leggur mat á hvað telst til nýsköpunar hverju sinni,“ segir Rögnvaldur og bætir við að í dag sé nýsköpun mun meira skilgreind en áður var. „Héðinn fór að huga markvisst að nýsköpun og grænum lausnum um aldamótin með að mynda sér fyrst stefnu í þessum málum og fylgja henni eftir, meðal annars með rekstrarfé. Aðkoma opinberra aðila með tilkomu skattaafsláttar af þróun, gefur nýsköpun í fyrirtækjum enn meira vægi en áður.“
Prótein og lýsi úr fiskafurðum
Eitt lífseigasta verkefni Héðins í nýsköpun hefur varað í yfir áratug en það er hönnun á nýrri vinnsluaðferð við að framleiða prótein og lýsi úr fiskafurðum. „Þessi þekking byggðist á áratugasamstarfi okkar við íslenska sjávarútveginn og úr varð til vél, svokölluð Héðins Protein Plant eða HPP,“ segir Rögnvaldur og heldur áfram. „Verksmiðjur okkar eru ólíkar hefðbundnum fiskimjölsverksmiðjum að því leitinu að engin vökvahlið er til að dreifa í þeim. Þessar verksmiðjur eru orkulega hagkvæmar og nota um helming þeirrar orku sem hefðbundnar fiskimjölsverksmiðjur nota. Við höfum lagt okkur fram við að þróa ýmsan búnað til að gera hefðbundnar fiskimjölsverksmiðjur orkulega hagkvæmari og þar með umhverfisvænari. Aðallega með að beisla svokallaðan glatvarma sem verður til við uppgufun í gufuþurrkurum, sem við nýtum meðal annars við suðu á hráefni og eimingu í eimingartækjum, sem annars þyrfti olíu eða rafmagn til. Í Noregi erum við í samstarfi við tvær fiskimjölsverksmiðjur, báðar þessar verksmiðjur nota búnað og tækni frá okkur til að beisla glatvarma. Þessar tvær verksmiðjur sýna lægstu orkunotkunina fyrir hvert hráefnistonn í Noregi.“
Aðstoða við gerð frumgerða
Þá talar Rögnvaldur um að Héðinn sé ekki eingöngu með sína eigin nýsköpun heldur hefur fyrirtækið stutt frumkvöðla á ýmsan máta, smáa sem stóra.„Við erum til dæmis afar stolt af aðkomu okkar að nýsköpunarfyrirtækinu VAXA Technologies á Hellisheiði en þar tókum við að okkur hönnun, smíði og uppsetningu vélbúnaðar, í samráði við Vaxa. Á móti fengum við lítinn hluta af kostnaði greiddan og það sem upp á vantaði sem hlutafé í félaginu sem er vonarpeningur sem getur orðið að einhverju eða orðið að engu. Þá ákváðum við nýverið að styðja við íslenska frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í gegnum frumkvöðlakeppnina Gulleggið. Og við höfum líka boðið íslenskum frumkvöðlum aðstoð og aðstöðu fyrir gerð frumgerða,“ segir Rögnvaldur með stolti.
Nýsköpun á hverjum degi
Í röksemd dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna kemur fram að „mat dómnefndar sé sú að Héðinn hf sé einstakt dæmi um rótgróið íslenskt fyrirtæki sem hefur fjárfest í nýsköpun alla sína tíð og þannig hjálpað íslensku þjóðfélagi og fyrirtækjum að halda í við þróun heimsins. Nýsköpun er ekki einskorðuð við lítil ný fyrirtæki heldur á hún erindi við öll fyrirtæki sem vilja dafna og stuðla að efnahagslegri uppbyggingu á Íslandi, og á það sérstaklega við á þessum tímum þar sem tækniþróun er sífellt örari. Áskoranir nútímans verða einungis leystar með tækni og nýsköpun, og Héðinn sýnir það í verki á hverjum degi.“ Enda er nýsköpun Héðins engan veginn hætt og Rögnvaldur talar um nýjasta verkefni fyrirtækisins með mikilli tilhlökkun. „Aldan er þjónustugátt fyrir viðskiptavini en við höfum þróað þessa tækni með viðskiptavinum okkar úr sjávarútveginum. Viðskiptavinurinn getur nálgast öll gögn sín um vélbúnað, rafbúnað, viðhaldsskýrslur og annað á einum stað í þjónustugáttinni en hún gengur meðal annars út á að við skönnum rými viðskiptavinarins í þrívídd, til að mynda vélarrúm í skipi. Þegar eitthvað kemur upp á í skipinu, til dæmis bilun í búnaði sem þarfnast sérfræðiaðstoðar, þá getur viðkomandi tengt sig beint við sérfræðing frá Héðni sem tengir sig þá rýminu í sýndarveruleika og getur þá leiðbeint viðkomandi þannig.“
Nýr framkvæmdastjóri eftir áramót
Aðspurður um framtíðarsýn segir Rögnvaldur að það sé margt framundan.Til að mynda séu skipti á framkvæmdastjóra en Rögnvaldur hættir hjá fyrirtækinu um áramótin og þá tekur Eðvarð Ingi Björgvinsson við sem framkvæmdastjóri. „Svo ætlum við að stækka okkur inn á rafmagnssvið sem tengist þessari þjónustugátt okkar. Hingað til höfum við aðstoðað viðskiptavini okkar í fiskmjölinu með vélarnar en við ætlum að athuga hvort við getum sinnt þeim líka meðallsherjarþjónustu. Það er því nóg að gera,“ segir Rögnvaldur að lokum.
svanhvit@mbl.is