Byggingageirinn staðið nokkuð vel

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í miðborg Reykjavíkur á …
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í miðborg Reykjavíkur á undanförnum árum. mbl.is/​Hari

Undanfarin ár hafa reynst mörgum fyrirtækjum erfið sökum hárrar verðbólgu og viðvarandi hás vaxtastigs. Þrátt fyrir það hefur byggingageirinn staðið nokkuð vel ef marka má þróun ársreikningastærða í gagnagrunni Creditinfo á Íslandi.

Samkvæmt greiningu Creditinfo hefur fyrirtækjum sem skila hagnaði fjölgað í greininni, en hlutfallið fór úr tæpum 69% árið 2018 í 76% árið 2023. Þá hefur nýskráningum fyrirtækja í greininni á vanskilaskrá síðustu 12 mánuði fækkað í samanburði við 12 mánuðina á undan.

Creditinfo á Íslandi hefur um árabil haldið lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki sem uppfylla ströng skilyrði um hagnað, eigið fé og fleira sem skilur framúrskarandi fyrirtæki að frá öðrum.

Stöðugleiki að aukast í greininni

„Gögnin sýna að byggingageirinn stendur nokkuð vel. Skilyrði Framúrskarandi fyrirtækja gefa fyrst og fremst merki um stöðugleika í rekstri og þar sem byggingarfyrirtækjum hefur fjölgað á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki síðustu ár gefur það til kynna að stöðugleiki sé að aukast í greininni,“ segir Kári Finnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Creditinfo á Íslandi.

Kári Finnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Creditinfo á Íslandi.
Kári Finnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Creditinfo á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Greining Creditinfo sýnir að árlegur rekstrarhagnaður er að jafnaði 15 til 22 sinnum hærri hjá Framúrskarandi fyrirtækjum 2024 en hjá fyrirtækjum almennt í virkri starfsemi.

Framúrskarandi fyrirtæki eru að jafnaði með um tólf- til þrettánfaldar rekstrartekjur á við önnur fyrirtæki eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Vinstri ásinn sýnir miðgildi rekstrartekna Framúrskarandi fyrirtækja en sá hægri miðgildi rekstrartekna fyrirtækja í virkri starfsemi. Þróunin hefur verið sams konar frá 2018 og tekjurnar vaxið þó nokkuð. Þannig hafa tekjur vaxið árlega að meðaltali um 9,3% hjá fyrirtækjum í virkri starfsemi en um 11,9% hjá Framúrskarandi fyrirtækjum 2024.

Þróun EBITDA-framlegðar (EBITDA/Sala) hefur verið nokkurn veginn í takt hjá Framúrskarandi fyrirtækjum 2024 og fyrirtækjum í virkri starfsemi þó að framlegðin hafi að jafnaði verið um 5 prósentustigum hærri hjá Framúrskarandi fyrirtækjum 2024. Bilið milli samanburðarmengjanna hefur þó verið að minnka frá 2022.

Minni munur er á miðgildi eiginfjárhlutfalls í þessum samanburðarmengjum. Eiginfjárhlutfall hefur verið nokkuð hátt undanfarin ár og á bilinu 45% til 48% hjá fyrirtækjum í virkum rekstri en 54% til 60% hjá Framúrskarandi fyrirtækjum 2024.

Nýskráningum á vanskilaskrá fækkað

Hafa ber í huga að upplýsingar í ársreikningum eru vissulega gamlar, þær nýjustu fyrir rekstrarárið 2023, og endurspegla ekki endilega núverandi stöðu mála. Þróun nýskráninga á vanskilaskrá síðustu 12 mánuði gefur þó vísbendingu um að staðan sé síst að versna.

Nýskráningum í byggingageiranum fór að fækka á haustmánuðum 2023 og eru nú nokkuð færri en árin 2019 til 2021 sem dæmi. Um 2,6% fyrirtækja í byggingageiranum hafa farið inn á vanskilaskrá á síðastliðnum 12 mánuðum.

1.400 fyrirtæki í virkri starfsemi

Greining Creditinfo á byggingariðnaðinum tekur til fyrirtækja sem skilgreind eru í virkri starfsemi í atvinnugreinaflokkum sem teljast til ISAT-bálksins „Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð“ en þessir atvinnugreinaflokkar eru til að mynda. „Bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis“, „Málningarvinna“, „Múrhúðun“, „Raflagnir“ og „Pípulagnir, uppsetning hitunar- og loftræsikerfa“.

Í greiningunni er þróun ársreikningastærða skoðuð hjá fyrirtækjunum frá 2018 til 2023 og einungis þeim fyrirtækjum sem eiga ársreikning fyrir öll árin 2018 til 2023. Til samanburðar var skoðuð þróun þeirra fyrirtækja í byggingargeiranum sem eru þegar komin á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2024 en þeim verður veitt viðurkenning við hátíðlega athöfn í Hörpu 30. október næstkomandi.

Um 1.400 fyrirtæki eru í virkri starfsemi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og af þeim eru 116 komin á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2024. 

Listinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki Creditinfo er unninn í samstarfi við Morgunblaðið og fleiri aðila. Miðvikudaginn 30. október fylgir Morgunblaðinu sérblaðið Framúrskarandi fyrirtæki þar sem listinn er birtur ásamt áhugaverðri tengdri umfjöllun.

mbl.is
Samstarfsaðilar