52 Rúmfatalagerinn ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 52
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Starfsemi Smásala á húsgögnum í sérverslunum
Framkvæmdastjóri Björn Ingi Vilhjálmsson
Fyrri ár á listanum 2017–2023
Framúrskarandi 2024

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 5.012.352
Skuldir 1.211.089
Eigið fé 3.801.263
Eiginfjárhlutfall 75,8%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 2
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Smásala á húsgögnum, ljósabúnaði og öðrum ótöldum heimilisbúnaði í sérverslunum

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Markviss uppbygging og endurskipulagning hjá Jysk

„Í dag starfa um 210 manns hjá JYSK á Íslandi. Hér er starfsaldurinn hár og lífaldurinn lágur enda mikið af ungu fólki sem starfar fyrir okkur. Það er gaman að sjá marga stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum hjá okkur,“ segir Rósa Dögg Jónsdóttir, markaðsstjóri JYSK á Íslandi. Hún segir spennandi tíma fram undan. „Í þessu risastóra alþjóðlega mengi eru allir að leggja sig fram um að vera betri í dag en í gær og það á heldur betur við um okkar frábæra starfsfólk,“ segir Rósa Dögg.

Eins og margir vita er JYSK rótgróið fyrirtæki á íslenskum markaði sem hefur rekið verslanir hér á landi frá árinu 1987 eða í 37 ár. Lengst af undir merkjum Rúmfatalagersins en nú undir merkjum JYSK eftir nafnbreytingu í fyrra. „JYSK sérhæfir sig í vörum fyrir svefninn, heimilið og garðinn og rekur sjö verslanir víða um land ásamt því að vera með gríðarlega öfluga vefverslun. Við höldum einnig úti sterkri og sífellt stækkandi fyrirtækjaþjónustu. Við bjóðum ávallt upp á góð tilboð og þar sem við erum hluti af alþjóðlegu fyrirtæki sem rekur yfir 3.500 verslanir á heimsvísu getum við keypt inn á hagkvæmu verði í miklu magni og þannig tryggt viðskiptavinum okkar gott verð,“ segir hún.

Rósa Dögg segir gott að vinna fyrir JYSK. „Menningin er góð innan fyrirtækisins en mannauðssviðið okkar er ungt og einungis rúm fjögur ár síðan fyrsti mannauðsstjórinn var ráðinn til félagsins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og heilmikill árangur náðst en mikill tími hefur farið í að þróa ferla, byggja upp, breyta og bæta. Það hafa leynst áskoranir víða. Við leggjum mjög mikla áherslu á fræðslu og þjálfun starfsfólks og þá sérstaklega hvað varðar þjónustu og vöruþekkingu. Það er okkur mikið kappsmál að allt starfsfólk upplifi sig sem hluta af teyminu og að allir vinni saman að sömu markmiðum,“ segir hún.

Rósa Dögg Jónsdóttir markaðsstjóri JYSK á Íslandi.
Rósa Dögg Jónsdóttir markaðsstjóri JYSK á Íslandi.

Mannauðurinn mikilvægasta auðlindin

Landsmenn hafa án efa tekið eftir því að vöruúrvalið er að aukast í JYSK. „Við fáum reglulega góð og jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum okkar sem eru ánægðir með vörurnar og vöruúrvalið. Við höfum alltaf verið afar sterk í öllu sem snýr að svefninum hvort sem það eru rúm, dýnur, sængur, koddar eða sængurver og undanfarin ár hefur einnig verið mikill vöxtur í húsgagnasölunni okkar sem og í smávöru og heimilisvöru. Garðhúsgögnin hafa einnig heldur betur hitt í mark hjá landanum enda eru þau endingargóð og veðurþolin og henta vel fyrir íslenskar aðstæður. Viðskiptavinir okkar virðast vera sáttir við vöruúrvalið og ekki síst þjónustuna. Það er svo gaman að sjá hvað fólk er duglegt að láta vita af því sem vel er gert og senda okkur hróspóst. Við kunnum að meta það.“

Hver er lykillinn að árangri fyrirtækisins?

„Mannauðurinn er án efa mikilvægasta auðlind fyrirtækisins. Það er starfsfólkið sem drífur áfram vöxt og tekjur og við erum svo rík að góðu starfsfólki sem bæði skilur og tileinkar sér gildi vörumerkisins og stuðlar þannig að vexti og þeim árangri sem hefur náðst. Þegar allir stefna í sömu átt verður útkoman jákvæð.“

Hagnaðurinn 1.388 milljónir króna í fyrra

Félagið fjárfesti í ýmsum endurbótum á árinu með það að sjónarmiði að bæta upplifun viðskiptavina í verslunum. „Stærsta fjárfestingin var í verslun félagsins á Smáratorgi en nú er það einungis verslun okkar á Bíldshöfða sem á eftir að taka í gegn. Samhliða endurbótum var farið í markvissa uppbyggingu og endurskipulagningu innan fyrirtækisins, sem hefur haldið áfram að tryggja okkur sterkan og bættan rekstur. Samkvæmt rekstrarreikningi nam hagnaður félagsins á rekstrarárinu í fyrra 1.388 milljónum króna en heildareignir námu 4.719 milljónum við lok rekstrarárs og eigið fé þess samkvæmt efnahagsreikningi jákvætt sem nam 3.690 milljónum króna,“ segir Rósa Dögg og bætir við að rekstur félagsins sé nokkuð stöðugur og veltan hafi aukist lítillega eða um 1%.

Sem markaðsstjóri er hún ábyrg fyrir allri markaðssetningu fyrirtækisins og ímynd þess út á við. „Ég sé um að gera sértækar markaðsáætlanir, held utan um auglýsinga- og birtingaplön og er í miklum samskiptum við fólk alla daga varðandi birtingapantanir. Markaðsdeildin sér um alla auglýsingagerð innanhúss, hvort sem það er bæklingaumbrot, sjónvarpsauglýsingar, samfélagsmiðlaefni, blaðaauglýsingar, útvarpsauglýsingar, umhverfisauglýsingar eða markaðsefni fyrir allar verslanirnar. Ég er svo lánsöm að vera einnig með grafíska menntun í bakhöndinni sem nýtist vel og næ ég að hoppa inn í alla auglýsingavinnslu líka ef þess er þörf. Starfið er gífurlega fjölbreytt og spennandi og alltaf margir boltar á lofti enda mikið um góð tilboð hjá JYSK sem þarf að koma á framfæri,“ segir hún.

Sjaldan meiri þörf en núna að vera á tánum

Rósa Dögg segir markaðsmálin mjög spennandi í eðli sínu. „Það er sjaldan meiri þörf en núna að vera á tánum enda afar hraðar breytingar og þróun á stafræna auglýsingamarkaðnum og alltaf einhverjar nýjungar sem þarf að fylgjast vel með til að sjá hvert markaðsheimurinn fer næst. Það er ljóst að með tilkomu nýlegrar gervigreindar munu markaðsmálin taka örum og áhugaverðum breytingum á næstu misserum,“ segir hún.

Það eru afar spennandi tímar fram undan hjá JYSK en nýverið var gengið frá kaupum á lóð við Korputún sem verður nýtt atvinnu- og íbúðahverfi í Blikastaðalandi í Mosfellsbæ og jafnframt eitt af framtíðarbyggingarsvæðum höfuðborgarsvæðisins. „Þar hyggst JYSK byggja nýjar höfuðstöðvar ásamt samliggjandi vöruhúsi og nýrri JYSK-verslun og þjóna bæði þessu nýja svæði ásamt stórauknum fjölda íbúa í Grafarholti og Norðlingaholti. Við hlökkum til að vaxa og dafna, taka á móti nýjum viðskiptavinum og halda áfram að vera spennandi kostur fyrir heimili og fyrirtæki,“ segir Rósa Dögg Jónsdóttir, markaðsstjóri JYSK á Íslandi.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar
Ath.: Vegna mistaka í töflu er pdf-útgáfan öðruvísi en prentuð útgáfa blaðsins sem dreift var þann 30. október 2024.