Stærðarflokkur | Stórt |
Röð innan flokks | 194 |
Landshluti | Höfuðborgarsvæði |
Atvinnugrein | Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta |
Starfsemi | Almenn þrif bygginga |
Framkvæmdastjóri | Pálmar Óli Magnússon |
Fyrri ár á listanum | 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2023 |
Eignir | 2.635.622 |
Skuldir | 1.678.996 |
Eigið fé | 956.626 |
Eiginfjárhlutfall | 36,3% |
Þekktir hluthafar | 11 |
Endanlegir eigendur | 11 |
Eignarhlutur í öðrum félögum | 0 |
Endanleg eign í öðrum félögum | 0 |
Dagar eru rótgróið en framsækið fyrirtæki, sem á rætur sínar að rekja til ársins 1980. Hjá okkur starfa tæplega 800 manns. Starfsstöðvar eru í Garðabæ, á Reykjanesi og á Akureyri,“ segir Ingigerður Erlingsdóttir, byggingarverkfræðingur og sviðstjóri á sviði fasteignaumsjónar hjá Dögum, sem eru umsvifamikið fyrirtæki á markaði. „Sérhæfing okkar byggist á áratugareynslu, framsækni og frábæru starfsfólki. Við höfum einsett okkur að vera í fremstu röð í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Upphaflega sérhæfðum við okkur í ræstingum en áherslurnar hafa þróast mikið á síðustu árum. Dagar eru nú leiðandi þjónustufyrirtæki í heildrænni fasteignaumsjón og öðrum daglegum rekstri fyrirtækja. Allt frá ISO14001 og Svans-vottuðum ræstingum til tæknimála, viðburðahalds, húsvörslu og umsjónar með grænu bókhaldi. Verkefni okkar eru mjög fjölbreytt,“ segir Ingigerður og bætir við:
„Undir fasteignaumsjón fellur húsvarsla, húsumsjón, fasteignarekstur, eldvarnir og þjónustuvefurinn okkar. Við erum með iðnaðarmenn á okkar snærum sem vinna að ýmsum verkefnum fyrir viðskiptavini okkar. Sérverkefnadeildina okkar þekkja vel þau fyrirtæki sem eru í daglegum ræstingum hjá okkur en meðal sérverkefna má nefna bón og bónleysingu, glugga- og glerþvott og aðrar hreingerningar svo eitthvað sé nefnt.“
Ingigerður færði sig til Daga frá Icelandair í febrúar á þessu ári og sér ekki eftir því. „Við erum einn stærsti aðilinn á okkar sviði og erum stöðugt að finna leiðir til að bæta upplifun viðskiptavina okkar. Við viljum auðvelda þeim lífið og gera meira fyrir þá sem við vinnum fyrir þannig að þeir þurfi ekki að huga að þeim málum sem við sérhæfum okkur í.“
Ingigerður var ásamt tveimur öðrum konum ráðin í framkvæmdastjórn og segir að það sé eðlilegt miðað við að fyrirtækið sé kvennafyrirtæki. „Við erum um 50 einstaklingar á Fasteignaumsjónarsviði, þar sem mikið er um að vera og mörg verkefni sem leysa þarf með skömmum fyrirvara. Við erum mjög stolt af þjónustustiginu okkar,“ segir Ingigerður og bætir við að þau séu mest á fyrirtækjamarkaði.
„Viðskiptavinir okkar eru yfirleitt fyrirtæki eða stofnanir. Til dæmis sjáum við um rannsóknasetrið Borgir á Akureyri sem er við hliðina á háskólanum. Í húsnæðinu eru fjöldinn allur af mismunandi aðilum. Við útvegum húsvörð í fullt starf sem sér um að laga það sem kemur upp í húsnæðinu auk þess að veita leigjendum þjónustu svo sem að bóka fundarherbergi. Eigandi hússins er Reitir sem með okkar þjónustu geta sett athyglina á daglega umsýslu sína og við sjáum um allan daglegan rekstur fyrir leigjendur.“
Ingigerður segir dýrmætt fyrir viðskiptavini að geta treyst þeim fyrir verkefnunum. „Fyrir smærri fyrirtæki bjóðum við upp á innlit eins oft og óskað er eftir mánaðarlega. Þjónustuáskriftin getur verið margvísleg, eftir stærð viðskiptavinarins. Markmiðið er að eigandinn þurfi með okkar þjónustu ekki að hugsa um húsið sitt. Í raun getur þú átt húsið og við hugsum um það fyrir þig.“
Hún segir ánægjulegt að starfa í fasteignaumsjón á Íslandi. „Við Íslendingar erum svo miklir reddarar í okkur og oft erum við komin í vesen með fasteignirnar okkar. Við einblínum vanalega ekki á fyrirbyggjandi aðgerðir. Að gera við lekann áður en myglan er komin,“ segir Ingigerður og bætir við: „En það horfir til betri vegar hjá okkur. Við viljum að húsnæði okkar sé í lagi og að starfsfólkinu okkar líði vel og að lekinn á þakinu sé ekki vanræktur. Mörg fyrirtæki hafa lent í heilsufarsveseni með starfsfólkið sitt vegna skemmda í húsnæði sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi. Það er bagalegt,“ segir hún.
Dagar eru í stöðugum vexti samhliða auknu þjónustuframboði við viðskiptavini sína og hefur velta félagsins aukist úr fimm milljörðum í sjö á síðastliðnum fjórum árum. „Undirliggjandi rekstur er góður og afkoman ásættanleg fyrir félag í okkar geira. Við sjáum áfram mikil tækifæri í eftirspurn eftir þjónustu í fasteignaumsjón og tengdri þjónustu,“ segir hún.
Talið er að deild Ingigerðar muni vaxa hratt á næstu árum. „Við viljum öll starfa í fyrirtæki sem gengur vel en það sem mér finnst áhugavert við Daga er sú staðreynd að við erum stundum fyrsti vinnustaður þeirra sem eru að festa rætur í landinu. Við lítum á það sem samfélagslega skyldu okkar að taka vel á móti þeim sem eru að flytja til landsins og sameinast fjölskyldum sínum. Við hjálpum okkar starfsfólki og lítum á það sem jákvæðan hlut ef við getum gert eitthvað til að leggja okkar af mörkum,“ segir hún.
Það sem hefur komið Ingigerði hvað mest á óvart í þessu samhengi er að þeir sem flytja til landsins, sem oft og tíðum eru vel menntaðir, virðast ekki fá störf sem hæfir menntun þeirra. „Við viljum vera þetta jákvæða fyrsta stopp og hjálpa svo starfsfólki að komast áfram á næsta stað. Hvort heldur sem er að vaxa í starfi hér eða að fá annað starf sem passar menntun þeirra betur.“
Í þessu samhengi er gaman að nefna að margir hafa byrjað í ræstingum en eru nú orðnir þjónustustjórar. „Við notum Bara tala, stafræna íslenskukennarann sem gengur mjög vel. Mér finnst það jákvætt og uppbyggilegt fyrir starfsfólk að fá stuðning við að læra tungumálið okkar. Við leggjum mikið upp úr því að allt starfsfólk sé ánægt í vinnunni og notum mánaðarlegar mælingar frá Moodup til að fylgjast með starfsánægjunni.“
Ingigerður telur mikilvægt að vanda til nýbygginga. „Við erum að flýta okkur allt of mikið að byggja. Svo mikið að stundum er betra að eiga við gömlu einbýlishúsin en þau nýju. Ástæðan fyrir þessu er margþætt. Kannski var vandað meira til verka hér áður og meiri tími gefinn til að byggja húseignir. Svo er gott að hafa í huga að eldri húsin voru ekki eins einangruð og þétt og byggingar í dag, sem gerði það að verkum að það loftaði betur um húsin.
Að mínu mati eiga opinberar stofnanir ekki að vera heilsuspillandi, né nokkrar aðrar húseignir. Við sjáum þó áberandi dæmi um þetta í skólahúsnæði þar sem mygluvesen er að koma upp. Við þurfum að leggja meiri áherslu á fyrirbyggjandi viðhald og eftirlit með fasteignum frá fyrsta degi til að koma í veg fyrir þrálátan rekstrarvanda svo sem myglu og kostnaðarsamt viðhald á síðari stigum, sem truflar starfsemina og rýrir notagildi og gæði eigna.“
Tölvukerfi Daga er sniðið að fasteignaumsjóninni þar sem viðskiptavinir geta skráð sig inn og lagt inn pöntun fyrir verkefnum sem þarf að sinna. „Við erum ótrúlega stolt af þeim flottu viðskiptavinum sem nýta sér þjónustu okkar og finnum fyrir gríðarlegri ánægju með samstarfið. Ég hlakka mikið til að halda áfram að aðstoða fólk og fyrirtæki í að fjárfesta í sínu húsnæði með þessum markvissa og hagkvæma hætti því fyrirbyggjandi viðhald margborgar sig til lengri tíma,“ segir Ingigerður Erlingsdóttir, sviðsstjóri á sviði fasteignaumsjónar hjá Dögum.