328 Alþjóðasetur ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 1
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Fræðslustarfsemi
Starfsemi Önnur ótalin fræðslustarfsemi
Framkvæmdastjóri Sigríður Vilhjálmsdóttir
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2024

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 184.984
Skuldir 47.468
Eigið fé 137.516
Eiginfjárhlutfall 74,3%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 2
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Önnur ótalin fræðslustarfsemi

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Stærsta þjónustufyrirtæki landsins á þessu sviði

Sigríður Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Alþjóðaseturs horfir björtum augum á framtíðina.
Sigríður Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Alþjóðaseturs horfir björtum augum á framtíðina. Ljósmynd/Aðsend

„Alþjóðasetur er rótgróið og leiðandi fyrirtæki á sviði alhliða tungumálaþjónustu á Íslandi. Helstu þjónustuflokkar okkar eru túlkun, þýðingar og neyðarþjónusta á öllum sviðum fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina,“ segir Sigríður Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Alþjóðaseturs ehf.

Samfélagið hefur breyst töluvert mikið frá stofnun Alþjóðaseturs árið 2008 en það á sér farsæla 16 ára samfellda rekstrarsögu. „Fyrirtækið á sér jafnvel enn lengri sögu og á í raun rætur sínar að rekja til Alþjóðahúss, sem starfrækt var sem samstarfsverkefni sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Rauða krossins fram til ársins 2008,“ segir Sigríður.

Starfsemi Alþjóðahúss var á mörgum sviðum fjölþjóðamenningar en árið 2008 var starfseminni skipt upp og tók þá nýstofnað Alþjóðasetur við tungumálaþjónustunni. „Vöxtur fyrirtækisins hefur verið þó nokkur, sem endurspeglast af þróun í málefnum ferðaþjónustu, innflytjenda og almennrar fjölþjóðavæðingar landsins síðastliðin ár. Við erum stærsta þjónustufyrirtæki landsins á þessu sviði og höfum ávallt markað okkur stöðu og stefnu með gæði og hátt þjónustustig að markmiði. Við erum í dag með langtímasamninga við ríkið og borgina, sveitarfélögin og spítala svo dæmi séu tekin,“ segir Sigríður og bætir við að heilsugæslur og heilbrigðisstofnanir, skólar, leikskólar og félagsmálastofnanir um allt land séu einnig á langtímasamningum. „Ásamt fjölmörgum einkafyrirtækjum af ýmsum stærðargráðum.“

Sinna einnig neyðarþjónustu

Helstu þjónustuþættir Alþjóðaseturs eru túlkun, þýðingar og neyðarþjónusta. „Þessir þættir geta tekið á sig ýmsa mynd. Túlkun getur farið fram á staðnum en einnig í síma, á símafundum eða myndfundum. Við sinnum einnig túlkun á stórum fundum, sem dæmi á starfsmannafundum, á ráðstefnum, fyrir dómi, í sjónvarpsútsendingum og fleira,“ segir Sigríður.

Sérfræðingar Alþjóðaseturs eru með margs konar þekkingu, enda geta þýðingar verið á almennum texta en einnig sértækum og tæknilegum texta, löggiltum skjölum og myndefnistextun. „Alþjóðasetur sinnir einnig neyðarþjónustu, án fyrirvara, allan sólarhringinn er þörf er á, alla daga ársins.“

Sigríður segir það mikinn heiður fyrir fyrirtækið að vera valið í hóp Framúrskarandi fyrirtækja á þessu ári. „Við erum ótrúlega stolt og ánægð með þann árangur að vera komin í hóp 2% fyrirtækja landsins sem uppfylla þessi ströngu rekstrarskilyrði. Við teljum þessa viðurkenningu vera merki um gæði þess mikilvæga og góða starfs sem okkar fólk sinnir á degi hverjum, og þeim traustu viðskiptasamböndum sem við höfum byggt upp undanfarin árin,“ segir hún og bætir við að í raun hafi þau verið að fá mörg verðlaun undanfarið. „Við fengum sem dæmi annað árið í röð viðurkenningu frá Jafnvægisvog FKA 2024 fyrir jöfn kynjahlutföll í stjórn.“

Tekjur Alþjóðaseturs hafa aukist yfir 100% á undanförnum fimm árum …
Tekjur Alþjóðaseturs hafa aukist yfir 100% á undanförnum fimm árum og á síðasta ári voru þær yfir 500 milljónir íslenskra króna. Vöxturinn hefur því verið töluverður og stöðugur. Ljósmynd/Aðsend

Tekjurnar aukist verulega

Tekjur Alþjóðaseturs hafa aukist yfir 100% á undanförnum fimm árum og á síðasta ári voru þær sem dæmi yfir 500 milljónir íslenskra króna. „Reksturinn hefur gengið með prýði undanfarin árin. Við höfum kappkostað að tryggja gæði og menntun og standa undir stigvaxandi eftirspurn með góðum mannauði og tæknilausnum. Svo hefur vöxturinn verið töluverður og stöðugur og eru aukin umsvif að miklu leyti tengd þróun í innflytjenda- og ferðamannamálum, fjölþjóðasamfélagsvæðingu og mannréttindum. Aukin umsvif hafa hvatt okkur til að byggja upp stærsta hóp landsins af hæfu tungumálafólki, og við höfum haldið vel utan um gæðamál í tengslum við hæfi aðila, menntunarkröfur og rekjanleika gagna.“

Það hefur verið mikilvægur þáttur fyrir vöxt fyrirtækisins að leggja áherslu á tæknivæðingu að sögn Sigríðar. „Við erum að nota upplýsingakerfi í skýinu og allir starfsmenn okkar notast við sérhannað snjallforrit sem útlistar verkefni þeirra og verkbeiðnir og skráir vinnu þeirra í rauntíma. Snjallforritið tekur við rafrænni undirskrift viðskiptavinar, sem er nákvæmt og gott. Upplýsingarnar flæða svo beint út í reikningagerð. Ásamt því að bjóða upp á rafrænt pantanaferli erum við að sjálfsögðu með öflugt þjónustuver til að vinna úr öllum pöntunum sem okkur berast,“ segir hún.

Jafnvægi og skynsemi hafa skipt Sigríði miklu máli þegar kemur að rekstrinum, ekki síst með breyttu umhverfi vegna ferðaþjónustunnar og aðfluttra til landsins. „Eftirspurn hefur vissulega tengst töluvert þróun í ferðaþjónustu og málefnum innflytjenda hverju sinni. Við höfum stýrt okkur haganlega í gegnum þessar sveiflur og alltaf lagt áherslu á að mæta eftirspurn með sem bestum hætti. Við teljum þó ljóst að ferðaþjónusta og fjölþjóðamenning á Íslandi séu komin til að vera, líkt og í öðrum löndum í kringum okkur og í alþjóðasamfélaginu í heild,“ segir Sigríður og bætir við að tungumálaþjónusta brúi bilið á milli fólks og spili mikilvægt hlutverk í alþjóðasamfélaginu sem fari stöðugt vaxandi. „Í því samhengi má nefna að á alþjóðlegum mælikvarða er þessi þjónustugeiri að velta rúmum 70 milljörðum bandaríkjadollara árlega.“

Túlkaþjónusta hluti af mannréttindum

Sigríður talar um sjálfsögð mannréttindi þegar kemur að túlkaþjónustu. „Í raun telst það til staðlaðra mannréttinda að fá túlkaþjónustu í kjarnainnviðum samfélagsins, sem dæmi í heilbrigðismálum, félagsmálum, menntamálum, dómsmálum og löggæslumálum. Þjónustan er því lögbundin mannréttindi. Við lítum á að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins sé ágætlega góður og stöðugur til framtíðar litið. Horft fram á veginn erum við að leggja bæði stefnu og áherslu á tæknina.

Við höfum nú þegar bætt verkferla okkar með því að tæknivæða pantanaferli, tímaskráningu, rafrænar undirritanir og reikningagerð. Við erum spennt fyrir framþróun gervigreindar í þessum málefnum og stefnum á að nýta hana sem best. Þótt gervigreindin sé ekki að koma í stað manneskja í túlkun eða mikilvægum þýðingum getur þessi tækni orðið mikilvægt hjálpartól fyrir starfsmenn okkar til að hámarka afköst og gæði þeirra. Við stefnum svo að sjálfsögðu á að vera áfram framúrskarandi, með því að vera með framúrskarandi starfsfólk og halda áfram að byggja á grunngildum okkar um gæði, traust og áreiðanleika,“ segir Sigríður Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Alþjóðaseturs.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar
Ath.: Vegna mistaka í töflu er pdf-útgáfan öðruvísi en prentuð útgáfa blaðsins sem dreift var þann 30. október 2024.