522 KAPP ehf.

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 217
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Viðgerðir á vélbúnaði
Framkvæmdastjóri Freyr Friðriksson
Fyrri ár á listanum 2019–2023
Framúrskarandi 2024

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 862.361
Skuldir 527.893
Eigið fé 334.468
Eiginfjárhlutfall 38,8%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 2
Endanlegir eigendur 54
Eignarhlutur í öðrum félögum 3
Endanleg eign í öðrum félögum 3

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Viðgerðir á vélbúnaði

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Reynum að hlaupa ekki hraðar en fæturnir bera okkur

​Elfa Hrönn Valdimarsdóttir, einn eigenda Kapp, er spennt fyrir framtíð …
​Elfa Hrönn Valdimarsdóttir, einn eigenda Kapp, er spennt fyrir framtíð fyrirtækisins. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„KAPP er tæknifyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í kæliþjón­ustu, véla­smíði, inn­flutn­ingi og þjón­ustu á tækja­búnaði í sjáv­ar­út­veg, fisk­eldi og ann­an iðnað,“ segir Elfa Hrönn Valdimarsdóttir, einn eigenda fyrirtækisins. „OptimICE-krapa­vélin hef­ur verið í fram­leiðslu lengi og nú er kom­in ný krapa­vél sem nýt­ir kol­díoxíð sem kælimiðil í stað F-gasa til að kæla fisk fljótt niður fyr­ir frost­mark án þess að frjó­sa,“ segir hún stolt af þessari nýjung sem stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. „Ég var einmitt að taka við verðlaunum frá Samtökum atvinnulífsins fyrir umhverfisframtak ársins 2024. Það er mikill heiður fyrir okkur enda öll fyrirtæki að fara þessa vegferð núna,“ segir Elfa, sem stofnaði fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum, Frey Friðrikssyni árið 2007.

Það kom aldrei neitt annað til greina hjá Elfu og Frey en að stofna fjölskyldufyrirtæki og þótt viðskipti og allt sem þeim fylgir taki tíma, þá segir Elfa að móðurhlutverkið sé sér dýrmætast og að Freyr nýti hverja stund með sonum sínum þegar hann er ekki í vinnunni. „Við Freyr fórum til Danmerkur í nám áður en börnin okkar fæddust. Þegar við komum heim úr náminu keyptum við vélaverkstæði Egils, sem var rótgróið fyrirtæki með sögu sem hófst árið 1929.“

Margir kannast við athafnamanninn Egil Vilhjálmsson sem var með ökuskírteini númer þrjú í landinu og rak bifreiðaverkstæði og varahlutaverslun á Hlemmi. Hann hóf sölu á Willys-jeppunum frægu um miðja síðustu öld og var umsvifamestur í bílaiðnaði þess tíma. „Á níunda áratugnum var fyrirtækinu skipt í tvennt, í véla- og renniverkstæðið sem var keypt af sjö starfsmönnum fyrirtækisins og endurnefnt Egill vélaverkstæði. Freyr varð framkvæmdastjóri þess árið 1999. Við Freyr stofnuðum svo KAPP saman en sonur okkar hjóna veiktist mikið árið á undan.

BYKO var í miklum viðskiptum við okkur á þessum tíma og fengum við þá til að taka við rekstrinum fyrir okkur. Við keyptum svo vélarhlutann af þeim aftur og settum það inn í KAPP árið 2012. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað síðan þá en við erum fyrst og fremst fjölskyldufyrirtæki,“ segir Elfa og bætir við: „Þótt synir okkar séu ungir þá hafa þeir allir unnið hjá okkur og eru mjög áhugasamir um rekstur fyrirtækisins. Það finnst mér yndislegt. Þeir hafa byrjað á gólfinu með því að sópa og hafa svo unnið sig upp í aðrar stöður,“ segir Elfa.

Festu kaup á Skaganum 3X

KAPP hefur stækkað mikið á undanförnum árum. „Sem er skemmtileg áskorun. Við byrjuðum sem lítið fyrirtæki og höfum þurft að breytast með árunum, setja allt í fastara form og skipulagða ferla. Þar sem ég sé um launin og að innheimta reikninga þá er mikilvægt að vera með góða yfirsýn og að vaxa upp í umfang rekstursins. Það varð mikið vaxtarstökk fyrir okkur árið 2015 sem var góð æfing fyrir það sem koma skal hjá okkur núna,“ segir Elfa en þess má geta að tekjur fyrirtækisins árið 2015 voru ríflega 800 milljónir en eru nú komnar yfir tvo milljarða. Um 35% tekna KAPP koma að utan.

Elfa segir ánægjulegt að þjónusta hinar ýmsu iðnaðargreinar, ekki síst sjávarútveginn. „Krapavélarnar okkar eru þannig gerðar að hægt er að búa til ískrap úr sjónum. Þá þarf ekki lengur að fylla skipin af klaka, sem sparar eldsneytiskostnað. Áður var klakanum handmokað yfir fiskinn en krapavélin sprautar ís yfir afurðina eftir þörfum, sem einfaldar mörg verk fyrir sjómennina,“ segir hún.

Umfang KAPP hefur aukist að undanförnu og hefur gengið vel að fá fjárfestingu inn í fyrirtækið fyrir stækkun þess. „Við viljum ekki fara fram úr okkur. Við viljum ekki skulda of mikið né taka lán fyrir öllu sem við viljum taka okkur fyrir hendur. Við reynum að hlaupa ekki hraðar en fæturnir bera okkur, eins og maður segir. IS Haf fjárfesti í okkur nýverið, sem hefur reynst mjög gagnlegt því við vorum í hópi þeirra sem keyptu Skagann 3x, og svo vorum við að fjárfesta í fyrirtæki í Seattle sem heitir KamiTech til að eiga greiðari leið inn á Bandaríkjamarkað. Lífið er þannig að ekki er hægt að stjórna hvenær tækifærin detta í fangið á manni og komu þessi tvö á sama tíma. Samlegðaráhrif þessara fyrirtækja eru mikil og halda áfram að styrkja okkur í þeim heildarlausnum sem við viljum vera með fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina,“ segir Elfa.

Vilja fá fleiri konur í iðnaðarstörfin

Elfu er umhugað um starfsfólk sitt. „Við erum með frábært starfsfólk sem er mjög jákvætt og lausnamiðað. Freyr fær góðar hugmyndir varðandi reksturinn og kaup á fyrirtækjum til að við getum boðið upp á heildarpakka í þjónustunni. Hæfileikar hans blómstra með fólkinu sem vinnur með okkur. Allt starfsfólkið okkar, að mér og Frey meðtöldum, gengur í störfin af mikilli vinnusemi og saman vinnum við að markmiðum fyrirtækisins sem snýst um að þjónusta sjávarútveginn og önnur fyrirtæki í átt að grænni leiðum.

Þjónustan er í raun og veru númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur og við viljum hafa hana á heimsmælikvarða. Það virðist vera gagnkvæmni í ánægju okkar og starfsfólksins því það er mjög lítil starfsmannavelta, við höfum meira bara verið að bæta við okkur starfsfólki,“ segir Elfa

Reynið þið að laða til ykkar konur í iðnaðarstörf?

„Já, heldur betur, en það gengur ekkert rosalega vel. Við erum fjórar konur og 42 karlmenn. Við viljum endilega fá góðar konur í teymið okkar og höfum sett okkur það markmið að fjölga konum í iðnaðarstörfum og erum að leita að konum sem eru rafvirkjar, vélvirkjar og vélstjórar svo eitthvað sé nefnt. Við erum að auglýsa nokkrar stöður hjá okkur núna og ég hvet konur endilega til að sækja um þær.

Vonandi sjá konur tækifæri með okkur í náinni framtíð. Öryggismálin okkar eru mjög góð og við erum með öryggisfulltrúa í starfsmannahópnum. Allt starfsfólk sækir skyndihjálparnámskeið og við leggjum áherslu á að hlífðarbúnaður sé til taks og notaður. Við viljum vinna að heilindum og að allt starfsfólk okkar fari varlega og hafi hæfni til að meta aðstæður hverju sinni og bregðast við ef eitthvað gerist. Í raun er það markmiðið að allir komi heilir heim úr vinnu hjá okkur,“ segir Elfa.

Hún segir öðruvísi að starfa fyrir og reka fjölskyldufyrirtæki. „Það er erfitt að festa á það fingur en ég gæti ekki hugsað mér annað en að starfa í fyrirtæki þar sem allir í fjölskyldunni geta stigið inn í fyrirtækið og látið til sín taka,“ segir Elfa Hrönn Valdimarsdóttir, eigandi og skrifstofustjóri hjá KAPP.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar
Ath.: Vegna mistaka í töflu er pdf-útgáfan öðruvísi en prentuð útgáfa blaðsins sem dreift var þann 30. október 2024.