643 Cozy Campers ehf.

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 299
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta
Starfsemi Leiga á bifreiðum og léttum vélknúnum ökutækjum
Framkvæmdastjóri Birkir Már Benediktsson
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2024

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 364.731
Skuldir 250.145
Eigið fé 114.586
Eiginfjárhlutfall 31,4%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 5
Endanlegir eigendur 4
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Leiga á bifreiðum og léttum vélknúnum ökutækjum

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Meira eins og fjölskylda en fyrirtæki

Birkir Már Benediktsson stofnandi og framkvæmdastjóri Cazy Campers.
Birkir Már Benediktsson stofnandi og framkvæmdastjóri Cazy Campers.

„Cozy Campers er fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og útleigu á vel útbúnum ferðabílum fyrir þá sem vilja upplifa ævintýri á Íslandi,“ segir Birkir Már Benediktsson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem nýverið var valið Framúrskarandi fyrirtæki 2024. „Áður en ég stofnaði Cozy Campers rak ég bifreiðaverkstæði með Róberti Benediktssyni bróður mínum. Eftir þrjú ár í rekstri áttaði ég mig á því að sá iðnaður væri takmarkaður þegar kæmi að vaxtarmöguleikum. Á sama tíma var ferðaþjónustan að blómstra, og það voru fleiri „camperar“ á götum úti. Ég tók hins vegar eftir því að gæðum bílanna var ábótavant. Mér fannst innréttingarnar illa smíðaðar og sjálfur hefði ég ekki viljað ferðast í þessum bílum. Ég vissi strax að ég gæti gert betur. Eftir stutta umhugsun og rannsóknarvinnu ákvað ég að stofna Cozy Campers,“ segir Birkir.

Fyrirtækið var stofnað árið 2015 og voru rekstrartekjur félagsins 26,7 milljónir árið 2016. „Tekjur ársins 2022 voru 329 milljónir og hagnaður 13,4 milljónir. Eigið fé var í lok þess árs 62 milljónir svo fyrirtækið er stöðugt að vaxa, bæði í stærð bílaflotans og í fjölda útleigudaga. Árið 2023 var sérstaklega gott ár þar sem tekjurnar voru 489 milljónir króna. Á þessu ári áætlum við að vera með um 691 milljón króna í tekjur. Þessar tölur sýna að við höfum verið að auka umsvifin, ekki aðeins í fjölda bíla heldur einnig í umfangi þjónustunnar,“ segir Birkir og bætir við að stöðurnar í fyrirtækinu séu nú orðnar tuttugu talsins.

Birkir Már Benediktsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Cozy Campers.
Birkir Már Benediktsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Cozy Campers.

Samvinna eins og hún gerist best

Það þarf mikla útsjónarsemi til að anna eftirspurninni sem hefur verið eftir bílum Birkis. „Þróunin hefur verið afar jákvæð frá upphafi. Sem dæmi má nefna að árið 2015 var ég með níu bíla en árið 2023 enduðum við með rúmlega 90 bíla í flotanum. Árið í ár er það veigamesta í sögu fyrirtækisins, þar sem við munum vera með rúmlega 130 bíla í útleigu,“ segir Birkir og bætir við að það sé gaman að vinna í fyrirtækinu. „Ég legg áherslu á opnar samskiptaleiðir svo hver starfsmaður skynji ábyrgð sína og mikilvægi í rekstrinum. Í rauninni erum við meira eins og fjölskylda en fyrirtæki. Við trúum því að með skilvirkri samvinnu séum við betur í stakk búin til að skila framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina okkar.“

Birkir segir að lykillinn að því að vera framúrskarandi fyrirtæki sé gamla góða vinnusemin. „Frá fyrsta degi hef ég haft það að markmiði að skara fram úr með betri vöru og þjónustu en samkeppnisaðilar bjóða, en á sambærilegu verði. Lykillinn að þessu hefur verið gamla góða vinnusemin, trú á vörunni og útsjónarsemi í rekstri. Við leggjum einnig mikla áherslu á gæði og leitum stöðugt leiða til að bæta bæði bílaflota okkar og þjónustuna. Við hlustum á viðskiptavini okkar og leggjum metnað í að veita framúrskarandi þjónustu. Teymið okkar er ómetanlegt. Í raun má segja að án metnaðarfullra starfsmanna væri þetta ekki mögulegt.

Til að mynda kom systir mín, Harpa Sól Benediktsdóttir, inn í félagið tveimur árum eftir stofnun þess. Hún hefur verið burðarás í uppbyggingunni,“ segir Birkir og bætir við að það sé ómetanlegt að geta unnið með vinum og fjölskyldunni. „Fólki sem ég treysti og deili sömu sýn með. Það er afar gefandi að byggja upp fyrirtæki með öðrum þar sem allir eru á sömu blaðsíðunni,“ segir Birkir.

Það vekur athygli að sonur Birkis, hann Aron Ágúst, hefur einnig léð fyrirtækinu krafta sína. „Já. Hann hefur heldur betur látið til sín taka og kemur sterkur inn í reksturinn. Hann er ótrúlega skipulagður og gerir allt svo vel. Í raun má segja að framlag Arons hafi reynst ómissandi í daglegum rekstri því hann sér um að ferla allt og að bæta skilvirknina.“

Cozy Campers er fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og …
Cozy Campers er fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og útleigu á vel útbúnum ferðabílum fyrir þá sem vilja upplifa ævintýri á Íslandi,

Fyrirtækjarekstur ekki bara dans á rósum

Birkir er á því að aldrei megi taka augun af rekstrinum. „Að stofna fyrirtæki og sjá það vaxa er eins og að ala upp barn. Í upphafi fylgir því oft lítill svefn og andvökunætur þar sem farið er í gegnum mörg krefjandi tímabil. Þrátt fyrir þetta elskar þú það sem þú hefur skapað og berst fyrir því af öllum mætti. Þú fylgist með því taka sín fyrstu skref, styður það og leiðbeinir og vonar að dagurinn komi þar sem það getur gengið sjálft,“ segir hann.

Aðspurður hvað standi upp úr frá því Cozy Campers var stofnað segir hann: „Mér þykir vænst um hversu langt við höfum komist og að sjá ánægju ferðamanna sem upplifa Ísland á bílum frá okkur. Það er einnig ómetanlegt að hafa byggt upp fyrirtæki sem hefur skapað störf og orðið hluti af ferðamannaiðnaðinum.“

Það er þó enginn dans á rósum að hasla sér völl í nýrri grein. „Það sem var erfiðast í upphafi var að vera eins manns teymi með nánast ekkert fjármagn og fyrstu árin einkenndust af mjög mikilli vinnu þar sem ég hitti hvorki fjölskyldu né vini. Það var opið sjö daga vikunnar og unnið bókstaflega frá morgni til kvölds. Það var ekki í boði að vera veikur þannig að ég forðaðist hóstandi fólk eins og heitan eldinn. Á kvöldin var ég að svara tölvupóstum, þvo sængurföt, skipta um dekk og að laga bíla. Á daginn var ég svo á ferðinni með fulla vasa af bíllyklum og posa í jakkavasanum að hitta viðskiptavini út um allan bæ. Við vorum ekki með bílastæði þannig að ég lagði bílunum okkar hingað og þangað og færði þá til eftir þörfum. Á sama tíma var ég líklega besti viðskiptavinur Flybus þar sem ég keyrði með bílana til Keflavíkur, afhenti á flugstöðinni og tók svo rútuna aftur í bæinn,“ segir hann og bætir við að aldrei hafi honum dottið í hug að gefast upp þó á brattann hafi verið að sækja.

Birkir Már Benediktsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Cozy Campers.
Birkir Már Benediktsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Cozy Campers.

Skiptir máli að fá inn fjárfesta með þekkingu

Það urðu vendingar í rekstrinum þegar Birkir náði að laða fjárfesti að borðinu. „Eftir tvö ár í rekstri með eldri bíla, með því viðhaldi og viðgerðum sem þeim fylgja, komst ég að því að ég gæti ekki náð þeim árangri sem ég sá fyrir mér nema að vera með nýja bíla. Til að það gæti orðið að veruleika þurfti ég fjármagn. Ég bjó til fjárfestakynningu, viðskiptaáætlun og allt sem því fylgir og leitaði til fjármálafyrtækjanna en fékk ekki beint hátíðlegar viðtökur. Þeim hefur greinilega ekki litist á strákinn úr Breiðholtinu,“ segir Birkir og brosir. Það var svo fyrir röð tilviljanna að hann kynntist fjárfesti sem hafði trú á viðskiptahugmyndinni.

„Kannski var þetta meira að segja ekki tilviljun en ég kynntist fjárfesti sem hafði raunverulegan áhuga og mikla trú á fyrirtækinu og hefur hann reynst ómetanlegur í vexti félagsins. Á þessum tímapunkti uppgötvaði ég að félagið þyrfi ekki bara fjárfesti með fjármagn heldur einhvern sem gæti hjálpað okkur að vaxa með ráðgjöf og sterku tengslaneti. Af þessu dró ég þann lærdóm að teymið skjptir öllu máli og að vera með réttu manneskjuna í hverri stöðu. Það er lykilatriði í mínum huga,“ segir hann.

Viðskiptavinir Cozy Campers eru nær eingöngu erlendir ferðamenn en Íslendingar hafa stutt dyggilega við Birki þegar kemur að þjónustu við fyrirtækið. „Mér er minnsstæður einn erfiðasti sólarhringur sem ég hef upplifað í þeirri vegferð að koma fyrirtækinu á koppinn. Eitt kvöldið fæ ég símtal frá viðskiptavini sem segir mér frá því að gírkassinn í bíl við Jökulsárlón sé ónýtur. Ég hafði engan varabíl en sem betur fer hafði ég verið að smíða nýjan „camper“ og lét ég vita að ég myndi koma með hann næsta dag. Ég vann alla nóttina við að klára bílinn og fór svo á partasölu að sækja gírkassa úr notuðum bíl. Það var laugardagur og partasalan var lokuð. Ég ákvað að gera það eina sem mér datt í hug á þessari stundu sem var að skríða undir lokað hliðið, skrúfa kassann úr einum bílnum og skilja eftir miða þar sem á stóð: „Tók gírkassa, kveðja Birkir“.

Með kassann í skottinu brunaði ég af stað. Á leiðinni tala ég við félaga minn á Höfn sem bauð mér verkstæðið sitt svo ég gæti skipt um kassann. Ég hitti síðan viðskiptavininn við Jökulsárlón sem var himinlifandi að fá nýja bílinn. Ég náði að koma bilaða bílnum af stað í þriðja gír og komst þannig til Hafnar þar sem engin bílalyfta var til staðar. Þannig að við notuðum lyftara til að halda honum uppi á meðan ég skipti um kassa. Þetta hafðist að lokum og allt er gott sem endar vel. Eða hvað? Neyðarsíminn hringdi og ég tæklaði það mál. Eftir símtalið legg ég loksins af stað heim, en átta mig nokkrum kílómetrum síðar á því að ég hafi gleymt símanum á húddinu! Þá var ég orðinn svo örmagna af þreytu og svefnleysi, að mér var eiginlega bara alveg sama,“ segir Birkir og brosir ánægður að vera kominn í gegnum þetta tímabil.

Birkir Már Benediktsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Cozy Campers.
Birkir Már Benediktsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Cozy Campers.

Horfir björtum augum á framtíðina

Þegar kemur að framtíðinni þá er von á frekari stækkun á næstu misserum. „Við horfum björtum augum til framtíðar og erum að vinna í að stækka reksturinn. Við höfum í hyggju að færa okkur frá Kársnesinu þar sem við erum nú með höfuðstöðvar til Keflavíkur. Það er ekki einungis vegna þess að núverandi húsnæði er orðið of lítið en við erum í raun í fimm mismunandi húsum á Kársnesi. Heldur einnig vegna þess að stór hluti viðskiptavina okkar kemur beint frá Keflavíkurflugvelli. Þessi staðsetning mun gera okkur kleift að bæta þjónustuna við viðskiptavini og einfalda afhendingu bílanna. Það mun jafnframt auka skilvirkni í rekstrinum með stórauknum bílaflota. Þó okkur líði vel á Kársnesinu hefur þessi uppskipting ekki reynst hagkvæm til lengdar,“ segir Birkir og bætir við að fyrirtækið verði líklegast með rúmlega 150 bíla í flotanum á næsta ári.

„Þetta mun tryggja að við getum mætt aukinni eftirspurn og bætt upplifun ferðamanna enn frekar,“ segir Birkir Már Benediktsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Cozy Campers.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar
Ath.: Vegna mistaka í töflu er pdf-útgáfan öðruvísi en prentuð útgáfa blaðsins sem dreift var þann 30. október 2024.