1001 Sauðárkróksbakarí ehf

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 151
Landshluti Norðurland vestra
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Framleiðsla á brauði, nýju sætabrauði og kökum
Framkvæmdastjóri Snorri Stefánsson
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2024

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 147.033
Skuldir 43.135
Eigið fé 103.898
Eiginfjárhlutfall 70,7%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 5
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Framleiðsla á brauði, nýju sætabrauði og kökum

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Að starfa í handverksbakaríi hefur alltaf heillað mig

Snorri Stefánsson Sauðárkróksbakarí
Snorri Stefánsson Sauðárkróksbakarí

„Bakaríið á sögu sína að rekja til Carls Fredriksens sem var fyrstur til að stofna brauðgerð í bænum en hann hóf brauðgerðina árið 1880. Fredriksen þótti vinnusamur og sanngjarn og þar sem hann átti ekki fjölskyldu sjálfur arfleiddi hann starfsfólkið að eigum sínum þegar hann féll frá,“ segir Snorri Stefánsson eigandi Sauðárkróksbakarís sem er í gamla bænum á Sauðárkróki í Skagafirði þar sem um 4.000 einstaklingar búa.

Snorri er fimmti eigandi þessa þriðja elsta bakarís landsins. „Einungis Bernhöftsbakarí í Reykjavík og Gamla bakaríið á Ísafirði voru stofnuð fyrr. Það er að auki ekkert starfandi fyrirtæki í Skagafirðinum eldra en bakaríið en níu árum frá stofnun þess var Kaupfélag Skagfirðinga stofnað,“ segir hann.

Sauðárkróksbakarí hefur verið í fallegu húsnæði í Aðalgötu 5 frá árinu 1939 þegar húsið var reist. „Það var Ingólfur Nikk sem teiknaði húsið, sem er friðað í dag. Um áramótin 1984 keyptu Óttar Bjarnason og Guðrún Sölvadóttir bakaríið og má með sanni segja að þau hafi unnið dyggilega að uppbyggingu þess þar til í september 2006 þegar Róbert Óttarsson keypti fyrirtækið af föður sínum. Ég lærði bakarann á sínum tíma hjá Róberti og hafði starfað hjá þeim feðgum í 16 ár áður en ég og fjölskylda mín fjárfestum í bakaríinu fyrir tveimur árum,“ segir Snorri og bætir við að bæjarbúum hafi án efa þótt notalegt að heimamaður skyldi taka við rekstrinum.

Snorri Stefánsson Sauðárkróksbakarí
Snorri Stefánsson Sauðárkróksbakarí

Skuldlaus með góðan rekstur

Vinsældir Sauðárskróksbakarís ná út fyrir landsteinana og má lesa um marga svanga ferðalanga sem lagt hafa leið sína í gegnum bæinn til að smakka á góðgætinu. Reksturinn ber þess merki og hefur hann verið réttum megin við núllið frá hruni. „Ég er afar þakklátur fyrir viðtökurnar sem við höfum fengið frá upphafi. Það sem einkennir Sauðárkróksbakarí og hefur gert frá upphafi eru gæðin sem við bjóðum upp á. Það sem við gerum gerum við vel. Fólk vill versla við okkur og við erum með starfsfólk sem stendur sig vel,“ segir Snorri og bætir við að hagnaður fyrirtækisins á síðustu árum hafi verið á bilinu 20 til 30 milljónir króna árlega.

Það krefst skipulagningar að halda starfseminni gangandi. „Bakarinn mætir fyrstur allra klukkan eitt að nóttu. Þá byrjar hann að hefa og baka brauðið fyrir daginn. Næsti bakari mætir á milli fjögur og fimm að morgni og annað starfsfólk mætir til vinnu um sjöleytið þegar við opnum bakaríið. Þegar mikið er um að vera mæta skólakrakkarnir svo á vakt á milli klukkan þrjú og fjögur á daginn. Stöðugildin í bakaríinu hjá okkur í dag eru fimmtán og má með sanni segja að sá hópur sé samhentur,“ segir Snorri.

Ert þú bakarinn sem mætir eitt að nóttu?

„Það er misjafnt. Við erum með ákveðið vaktakerfi sem hefst á mánudögum. Við leggjum drög að því á miðvikudögum og fer það eftir hentisemi hvers og eins hvaða vaktir við tökum. Hver vakt hefur sinn sjarma hér í bakaríinu,“ segir Snorri.

Starfsemin er að stórum hluta á Aðalgötunni en fjölmargir aðilar fá brauð og sætmeti sent til sín daglega. „Brauðin okkar eru seld í Kaupfélaginu á Sauðárkróki og á Hofsósi, í búð Olís í Varmahlíð og Hlíðarkaupum svo eitthvað sé nefnt. Að ógleymdri norsku jólakökunni okkar sem verður fáanleg í Melabúðinni í Reykjavík og Jólahúsinu á Akureyri í byrjun nóvember.“

Snorri Stefánsson á þriðja elsta bakarí landsins.
Snorri Stefánsson á þriðja elsta bakarí landsins.

Allt unnið frá grunni

Sauðárkróksbakarí er handverksbakarí þar sem allt er unnið frá grunni. Það sem einkennir handverksbakarí er menntunarstig fagaðila og sú staðreynd að allt er gert frá grunni úr hráefnum umhverfisins. Unnið er með höndunum eftir hefðum sem hafa myndast á staðnum. Hvert handverksbakarí er ólíkt öðru í eðli sínu og því andstæðan við keðjur sem bjóða upp á innflutt frosið hráefni sem er hitað upp á Íslandi.

„Að starfa í handverksbakaríi hefur alltaf heillað mig. Að nota vandað hráefni úr nágrenninu og leggja metnað í það sem er gert er að mínu skapi. Brauðin okkar eru vinsæl og gerð frá grunni hjá okkur daglega. Kleinuhringirnir okkar eru einnig mjög vinsælir og það sama má segja um snúðana sem eru með girnilegu súkkulaði á. Við bjóðum einnig upp á smjördeigsvínarbrauð, makkarónuvínarbrauð og svo er eplavínarbrauð sem við gerum öðruvísi en aðrir. Við erum einnig alltaf að þróa nýjar vörur í bakaríinu og erum nú farin að bjóða upp á pítsur á föstudögum sem eru mjög vinsælar,“ segir Snorri.

Bíl ekið inn í bakaríið í fyrra

Sauðárkróksbakarí hefur fengið sinn hlut af verkefnum í gegnum tíðina. „Bakaríið er öðruvísi ásýndar en áður þar sem bíl var ekið inn í það á vormánuðum í fyrra. Mikil mildi þykir að við skyldum ekki vera í afgreiðslunni, en bílnum var ekið í gegnum húsvegginn með tilheyrandi tjóni. Ég segi stundum að ég hafi ætlað að fara í breytingar og bíllinn hafi opnað húsnæðið fyrir mig, en að öllu gamni slepptu þá var þetta mikið áfall fyrir okkur öll. Við þurftum að loka í tíu daga á meðan við gerðum við skemmdirnar. Einn útveggurinn fór alveg niður en það hindraði okkur þó ekki í því að framleiða brauð í búðir, sem við héldum áfram að gera samhliða því að koma húsnæðinu í lag. Við nutum mikils stuðnings frá samfélaginu og má segja að við hefðum aldrei komist í gegnum þetta nema með þeirra aðstoð,“ segir Snorri, sem horfir sjaldan í baksýnisspegilinn. „Eina leiðin er áfram. Ég horfi fram á veginn og reyni að gera það besta úr hlutunum því það liðna er í fortíðinni og henni fær maður ekki breytt.“

Snorri er viss um að Sauðárkróksbakarí muni komast í gegnum flest enda er umhverfið mun einfaldara en fyrir 140 árum þegar bakaríið var stofnað. „Ég trúi því að ef ég geri eins vel og ég get hverju sinni þá sé framtíðin björt. Ég ber ekkert annað en þakklæti með mér. Þakklæti fyrir viðskiptavinina, starfsfólkið og alla þá sem hafa stutt okkur í gegnum tíðina,“ segir Snorri Stefánsson bakari og eigandi Sauðárkróksbakarís.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar
Ath.: Vegna mistaka í töflu er pdf-útgáfan öðruvísi en prentuð útgáfa blaðsins sem dreift var þann 30. október 2024.